Leiðarinn:

Guðni Gíslason
ritstjóri

 

Forsíða

Leiðarar 2005

Hafnfirska bæjarblaðið    – frá 1983

21. desember 2006, 48. tbl. 24. árg.

Það var lítill jólabragur yfir síðasta bæjarstjórnarfundi þessa árs þar sem síðari umræða um fjárhagsáætlun fór fram. Í sjálfu sér er þetta skondið heiti því í raun er engin fyrri umræða því þá kynnir bæjarstjórinn áætlunina og aðrir segja sem minnst. En það er kannski ekki við því að búast að jólalegt sé yfir slíkum umræðum enda ekki þess eðlis. Manni finnst samt hálf pirrandi að vera ganga frá þessu svona rétt fyrir jólin, mæti gjarnan ljúka málinu eitthvað fyrr. Sitt sýnist hverjum um stöðu fjármála bæjarins og sjálfstæðismenn segja skuldir bæjarins hafa aukist um þrjá milljarða á fjórum árum og vitna þá í yfirlit um fjárstreymi bæjarsjóðs en bæjarstjóri segir þar tekið með skuldaaukningu fyrri meirihluta. Bæjarbúar sýna þessari umræðu lítinn áhuga og kannski er áhyggjuefni hversu lítinn áhuga bæjarbúar sýna á stjórnun bæjarins.

Jólin koma hlaupandi á móti okkur og ef við erum viðbúin getum við notið þeirra í faðmi fjölskyldu eða vina. Það er löngu liðin tíð að ég kepptist við að klára eitthvað fyrir jól. Flest má bíða betri tíma og fyrir jólin á maður bara að gera það sem maður nýtur að gera og kemur manni í gott jólaskap. Umhverfið okkar býður okkur upp á að undirbúa jólin í verslunum en kirkjurnar minna líka á sig og kannski ættu þær að vera með bás í jólaþorpinu eins og kaupmennirnir. Allt stefnir í rauð jól og ætti engum að bregða hér sunnanlands því þau eru líklegri en hvít jól. Flestir eru þó innandyra um jólin og í gamla daga voru frostrósir á gluggum sem hurfu að mestu með tilkomu tvöfalda glersins. Nú fæst jólasnjór í brúsum og þeir sem sakna hvítra jóla ættu kannski að sprauta honum á rúður svo hugurinn upplifi hvít jól.

Ég óska þér lesandi góður gleðiríkra jóla og ég þakka ánægjulegt samstarf á árinu sem er að líða. Guð gefi þér frið um jólin.

Guðni Gíslason

 

14. desember 2006, 47. tbl. 24.árg.

Er eðlilegt að hvetja til hjásetu í bæjarstjórn? Ekki finnst mér það og í raun óeðlilegt að bæjarfulltrúi gagnrýni aðra fyrir að gefa upp afstöðu sína í máli. Allt of oft kjósa stjórnmálamenn að sitja hjá í atkvæðagreiðslu ef þeim hugnast ekki tillaga eða jafnvel flytjendur tillögunnar. Heyrst hafa harðar ræður í bæjarstjórn þar sem bæjarfulltrúar hafa harðlega mótmælt ákveðnum tillögum og sitja svo hjá við atkvæðagreiðslu. Við höfum ekkert að gera við fólk í bæjarstjórn sem ekki þorir að taka afstöðu. Í vissum tilvikum getur verið réttlætanlegt að sitja hjá ef viðkomandi hefur ekki náð að kynna sér málefnið sem kjósa á um nægilega. Slík staða á hins vegar ekki að koma upp og ósættanlegt að fólk mæti illa undirbúið á bæjarstjórnarfund. Við bæjarbúar kusum fólk í bæjarstjórn til að taka ákvarðanir, ekki til að komast hjá því að taka þær.

— Hátíð jólanna er á næsta leyti og hraðinn eykst. Auðvitað ætti því að vera öðruvísi farið og við ættum að gefa okkur betri tíma til að undirbúa jólahátíðina í friði og spekt. Kannski erum við að keppast að því að komast í þetta skap og gleymum okkur í undirbúningnum. Sjálfur hef ég sjaldan haft meira að gera í desember en síðustu 5 ár mín með Fjarðarpóstinum. Oft áður hafði ég það frekar rólegt í desember og þeirra tíma sakna ég. Hins vegar er mér að lærast með tímanum að halda sönsum í asa jólablaðanna og veit að allt blessast þetta einhvern veginn og jólin verða á sínum stað hvort sem ég hafi gert allt sem ég hef ætlað mér fyrir jólin. Það sem ekki næst fyrir jólin má gera eftir jól, svo einfalt er það.

Kirkjur bæjarins eru opnar bæjarbúum á aðventunni og þangað er gott að fara og eiga frið með sjálfum sér og skapara sínum.

Guðni Gíslason

 

7. desember 2006, 46. tbl. 24.árg.

Má birta hvað sem er í fjölmiðlum? Má auglýsa hvað sem er? Blaðamenn vinna gjarnan eftir siðareglum en þeim einum sem eru í Blaðamannafélagi Íslands er skylt að fara eftir þeim. Aðrir fara gjarnan eftir þeim og setja sér sínar eigin siðareglur sem jafnvel geta verið strangari en skráðu reglurnar.

T.d. er ekki að finna eina einustu ljósmynd í Fjarðarpóstinum sl. fimm ár þar sem sést í fólk sem reykir. Það er engin tilviljun. Þetta er aðeins lítið dæmi en engar reglur banna slíkar birtingar. Hins vegar er bannað með lögum að birta áfengisauglýsingar og því birtir Fjarðarpósturinn engar slíkar. Það er einfalt mál og ætti ekki að vefjast fyrir neinum. Varðandi almenn skrif í fjölmiðli hlýtur tilfinning blaðamannsins hvað sé rétt og forsvaranlegt að ráða hvað birt er. Auðvitað sýnist sitt hverjum og við því er ekkert að gera og hver og einn hefur rétt á að láta skoðun sína í ljós, líka á því sem skrifað er í fjölmiðla enda eru blaðamenn og útgefendur ekki hafnir yfir gagnrýni, síður en svo.

Sem betur fer hafa fjölmargir sagt undirrituðum skoðun sína á því sem hér er skrifað og annars staðar í blaðinu og hafa skoðanir eðlilega verið skiptar. Aldrei er skoðun lesanda látin eins og vind um eyru þjóta en þess í stað fær hún að vera með í að móta skoðun þess sem hér ritar, stundum mikið, stundum lítið.

Nú eru jólin framundan og oft mikið álag á fólki og eitt stærsta vandamál nútíma Íslendings er þrautin að velja. Velja á milli eins og annars sem fá má fyrir peninga. Kannski voru forfeður okkar lánsamir að hafa ekki svona mikið fé en kannski því mun meiri hamingju. Njótið aðventunnar í Guðs friði.

Guðni Gíslason

 

30. nóvember 2006, 45. tbl. 24.árg.

Það var mikið deilt um snjómokstur og búsetu í iðnaðarhúsnæði á síðasta bæjarstjórnarfundi. Gunnar Svavarsson sver húseigendur til löghlýðni og metnaðar en hvað stoðar það. Eins mætti þá gera með aðra þá sem ekki virða lögin og hvað hefur það stoðað? Bæjarstjóri segir regluverkið ekki nægilegt og ég hlýt að taka undir með formanni Húseigendafélagsins sem segir dugleysi einkenna sveitarstjórnarmenn og skort á þor. Bæjaryfirvöld hafa haft úrræði sem þau þora ekki að nota. Nota einstaka dóma til að verja sig aðgerðum. Þeir sem ekki þora að stíga skrefin, stíga ekki feilspor - en þeir komast heldur ekkert. Pappírsregluverkið hefur lengi verið dýrkað hjá byggingarfulltrúaembættum landsins þar sem meira hefur skipt að hafa hlutina í lagi á pappírnum heldur en í raunveruleikanum. Ákvæði byggingarreglugerðar og byggingarlaga eru skýr. Mikið er haft fyrir að farið sé eftir ákveðnum hlutum en öðrum ekki og þekkja hönnuðir og byggingaraðilar örugglega allir einhver dæmi um slíkt. Af hverju er verið að reka eftirlitskerfi á húsbyggingum ef menn þora ekki að beita lögvörðum viðurlögum sem m.a. má lesa um í 209. - 213. grein byggingarreglugerðar. — Þeir geta sem þora.

Ég hef áður hvatt til þess að Hafnarfjarðarbær taki upp gæðastjórnunarkerfi, bæði við framkvæmdir á vegum bæjarins og í almennri stjórnsýslu og skora ég hér með á bæjarfulltrúa að hefja undirbúning að slíkt verði tekið upp sem fyrst. Allt of oft er verið að deila um framkvæmdir á fundum nefnda, ráða og í bæjarstjórn og langoftast vegna þess að vinnubrögð voru ekki nógu öguð. Það hlýtur að vera hagsmunamál að slíkt kerfi verði tekið upp og eiga bæjarbúar í raun heimtingu á því enda er verið að fara með þeirra skattfé. Af hverju ætli það sé að þetta hafi ekki verið tekið upp?

Er rekstur íþróttafélaganna byggður á trausti þess að bæjarsjóður borgi bullandi taprekstur sem enginn vill bera ábyrgð á? Er ekki óeðlilegt að rekstrarskuldir handknattleiksdeildar félags skuli vera 74 milljónir kr.? Er enginn ábyrgur fyrir slíkum taprekstri? Á að láta bæjarbúa borga fyrir óráðsíu stjórnarmanna? Ég segi nei! Á bæjarsjóður stanslaust að greiða 80% af öllum framkvæmdum íþróttafélaganna án tillits til þess hvort þær samrýmist fjölskyldustefnu (afsakið, hún er ekki til), forvarnarstefnu eða öðrum markmiðum sem sveitarfélagið kann að hafa? Nær allar rekstrarskuldir eru vegna meistaraflokka félaganna. Er ekki rétt að aðskilja þá starfsemi frá annarri starfsemi íþróttafélaganna? Þó íþróttir séu göfugar þá er svo margt sem þarf að leggja fé í og maður spyr sig oft um forgangsröðunina. Er hún eðlileg í þessum bæ?

Guðni Gíslason

 

23. nóvember 2006, 44. tbl. 24.árg.

Er bærinn okkar hannaður fyrir snjó? Við búum þar sem allra veðra er von. Fjölmargar vetrarborgir gera í skipulagi sínu ráð fyrir því að það snjói og hægt sé að koma snjónum frá sér. Í okkar bæ hefur tíðkast að hafa íbúagötur þröngar, gangstéttar á milli götu og lóðar og á sumrin getur jafnvel verið erfitt að finna bílastæði. Þegar snjóar er snjónum mokað af götum upp á gangstéttar og í besta falli er hálf stéttin bara með þeim snjó sem féll af himni. Breidd gangstétta, skilti og stundum gróður veldur því að hefðbundin tæki komast ekki alls staðar eftir gangstéttunum, jafnvel í nýjum hverfum og því verða gangandi vegfarendur iðulega að bregða sér út á hálar þröngar götur til að komast ferða sinna. Jafnvel í nýrri hverfum er lítið um staði þar sem hægt er að koma snjónum á svo annað hvort er hann eftir öllum til trafala eða aka þarf honum burt með ærnum tilkostnaði. Af hverju erum við ekki að gera þetta rétt? Létum við síðustu 6 snjóléttu ár blekkja okkur? Sum hverfanna voru skipulögð fyrir þann tíma. Við vitum að starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar leggja sig fram við að hreinsa göturnar eins vel og þeir geta en við þurfum samt eitthvað betra skipulag. Við erum orðin þjóð á mörgum bílum og íbúarnir gera kröfur og af hverju ekki að verða við þeim? Það eru jú þeir sem greiða skattana.

Mér finnst hins vegar að fleiri íbúar mættu grípa í skóflu og moka gangstéttar þegar svona stendur á. Ef gætt er að líkamsstöðu er þetta hin besta líkamsrækt og gæti verið hið skemmtilegasta fjölskyldusport. Hafnfirðingar, það má líka hafa gaman að snjónum en það á ekki að leika sér á götunum.

Guðni Gíslason

 

16. nóvember 2006, 42. tbl. 24.árg.

Þeir tróna á toppnum Árnarnir, Johnsen og Mathiesen þó hvorugur þeirra hafi fengið helming atkvæða. Voru það vinsældir eða óvinsældir sem ullu því? Báðir hafa fyrirtækjalógó á bakinu, byggingarvöruverslun og sparisjóð en aðeins annar þeirra hefur fengið dóm enda ekki ákært fyrir siðleysi. En ekki þýðir að skammast út í þá, sjálfstæðismenn kusu þá í tvö efstu sætin í Suðurkjördæmi og gott að trúa að batnandi mönnum sé best að lifa.

Og talandi um sjálfstæðismenn þá bókaði fulltrúi flokksins í umhverfisnefnd að bærinn kaupi eða taki eignarnámi Reykjavíkurveg 1 og bæti við byggðasafnsreitinn. Þetta hneykslaði suma. En ég vil rifja upp að bæjarfulltrúi fékk borgað fyrir að fara með sögufrægt skátaheimili út úr bænum og annað svipað hús var byggt þar sem það fyrra hafði staðið. Enginn hafði tekið undir tillögu að flytja það á horn Vesturgötu og Merkurgötu til nota fyrir Byggðasafnið en það var talið of stórt. Nú er búið að byggja stórt hús á þeim stað til allt annarra nota. Að þessum málum hafa bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking komið auk Framsóknarflokks. Hver á sökina? Allt of oft hefur skammsýni ráðið ríkjum í ákvörðunum hér í bæ og létt að benda á rútustæði við Bungalowið sem einfalt dæmi. Hver er stefnumótunin fyrir starfsemi Byggðasafns Hafnarfjarðar? Á að fjölga starfsmönnum þar en fastir starfsmenn eru nú aðeins tveir? Hlýtur ekki að fara saman stefnumótun fyrir framtíðaruppbyggingu safnsins og uppbyggingu á aðstöðu þess? Kannski á starfið að vera víðar um bæinn eða vilja menn kannski loka veitingahúsi til tveggja áratuga til að stækka safnið í miðbænum eins og ýjað var að í bæjarstjórn á þriðjudag?

Guðni Gíslason

 

9. nóvember 2006, 42. tbl. 24.árg.

„Búseta skiptir ekki höfuðmáli, heldur kostir okkar sem frambjóðenda,“ sagði Björgvin G. Sigurðsson þegar ljóst var að enginn Suðurnesjamaður var á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Þetta verður líklega skýringin þegar slæm útreið kvenna verður útskýrð hjá flokknum. Einhvern veginn segir þetta mér að jafnrétti kvenna og karla sé allt of mikil einföldun á jafnréttinu. Þar komi meira til.

Eru yfirlýsingar og undirskriftir einskis virði í hugum stjórnmálamanna? Í prófkjörum er fólk gjarnan látið skrifa undir stuðningsyfirlýsingar til að geta stutt ákveðna einstaklinga, jafnvel vitandi að það er flokksbundið í öðrum flokkum. Mér finnst undirskrift mín einhvers virði og ég skrifa ekki undir eitthvað sem ég ekki ætla að standa við. Fólk er farið að skrá sig í flokka til að geta stutt við sinn mann og síðan er send inn úrsögn eða fólk er jafnvel skráð í tvo stjórnmálaflokka. Svona kann ég ekki við og finnst eðlilegast að þegnum þessa lands sé treyst til að velja það fólk sem það treystir til starfa, hvar í flokki sem það er.

Kannski er þetta gamaldags hugsunarháttur, sama er mér.

Guðni Gíslason

 

2. nóvember 2006, 41. tbl. 24.árg.

Starfs míns vegna hlusta ég á útsendingar frá bæjarstjórnarfundum í Hafnarfirði. Ég get ekki hvatt neinn til þess að fylgja fordæmi mínu. Oft hefur umræðan verið til leiðinda en sjaldan sem nú. Ég nenni ekki einu sinni að elta ólar við það sem þráttað er um en a.m.k. eru það ekki stóru málin.
Ég sem kjósandi geri þá kröfu að þeir 11 einstaklingar sem kosnir voru til þess að fara með stjórn bæjarfélagsins sinni þeim málum í stað þess eyða stórum tíma í hártoganir og rifrildi um formsatriði. Það hlýtur að vera hægt að gera þá kröfu að þessi 11 manna hópur vinni saman að velferð bæjarins. Menn geta svo í aðdraganda næstu kosninga gumað sig af þeim málefnum sem þeir hafa komið af stað eða ýtt í höfn. Þarf bæjarstjórnin ekki bara að fá PMT fræðslu frá fræðsluráði?

Prófkjörsbaráttan er í hámarki núna og prófkjör Samfylkingarinnar er á laugardag og Sjálfstæðisflokks að viku liðinni. Greinilegt er að hart er barist og mikið lagt í sölurnar til að ná árangri. Auglýsingabann Samfylkingarinnar er hrein atlaga að bæjarblöðum þegar á sama tíma er heimilt að gefa út bæklinga og kynningarrit. Ætlast stjórnmálaflokkur virkilega til að fjölmiðlar kosti prófkjörsbaráttu hans? Pláss undir greinar kosta jafn mikið og pláss undir auglýsingar. Fjarðarpósturinn hefur þjónað Hafnfirðingum í 23 ár og gerir enn þrátt fyrir lítinn skilning margra stjórnmálamanna.

Guðni Gíslason

 

26. október 2006, 40. tbl. 24.árg.

Embættismannakerfið hafnfirska þrýstir á stofnun tómstundabandalags sem ætlað er öllum félögum og klúbbum í bænum – nema íþróttafélögum. Til hvers í ósköpum? Er sérstök þörf á að setja saman í bandalag, Bandalag kvenna, kvæðamannafélag, skátafélag og Félag eldri borgara. Ég kalla eftir rökum! Sagt er að þetta eigi að vera sambærilegt við Íþróttabandalag Hafnarfjarðar. Ekki hleypa þeir hvaða íþrótt sem er í sitt bandalag og skipta embættismenn bæjarins sér ekki af því. Ég og bæjarstjórinn héldum að í undirbúningi væri stofnun æskulýðsbandalags. Annars er notkun pólitíkusa og embættismanna á hugtakinu tómstundafélag nokkuð undarlegt. Er skátafélag tómstundafélag? Nei, skátafélag er æskulýðsfélag þar sem uppeldis-, kennslufræðileg-, manngildis- forvarnamarkmið og fleiri markmið eru höfð að leiðarljósi. Það er ekki starf til að drepa tímann frekar en skólastarf eða íþróttastarf sem einhverra hluta vegna hefur sloppið við þessa skilgreiningu. Gleymið svona samtökum og leggið krafta í annað, t.d. að endurskipuleggja æskulýðs- og tómstundasvið bæjarins.

Hafnarfjarðarbær hefur stutt vel fjárhagslega við æskulýðsfélög á liðnum árum, félög sem höfðu lengi barist fyrir auknum stuðningi. Þessum félögum á að sýna meiri áhuga, fylgjast með innra starfinu, uppbyggingunni, markmiðunum, þróuninni og veita þeim einstaklingum og hópum sem vinna framúrskarandi vel, viðurkenningar. Þó foringjar og fyrirliðar í æskulýðsstarfi vinni ekki til að fá viðurkenningu þá er klapp á öxlina gríðarlega mikil hvatning og í þessum félögum leggja einstaklingarnir sig fram við að standa sig og leggja mikið á sig. Þumallinn upp fyrir svona fólki!

Guðni Gíslason

 

19. október 2006, 39. tbl. 24.árg.

Bæjarfulltrúar þráttuðu enn einu sinni um skipan í starfsnefndir og sýndist sitt hverjum. Sumir vildu tryggja öllum flokkum með fulltrúa í bæjarstjórn sæti, aðrir vildu láta skipan í starfsnefndir endurspegla niðurstöðu síðust sveitarstjórnarkosningar. Hins vegar vakti það athygli mína að enginn nefndi það að eðlilegast væri að skipa hæfasta fólkið hverju sinni. Finnst mér þetta endurspegla svolítið argaþras út af formsatriðum og smámálum sem einkennt hefur nokkuð bæjarstjórnarfundi. Það er því alveg í samræmi við þessa skoðun mína að fram kom í máli eins af nýju bæjarfulltrúunum að hann óskaði eftir því að hægt væri að hætta þessu þrasi svo bæjarfulltrúar gætu „aftur farið að tala um pólitík“.

Gríðarleg þátttaka var á Álftanesdeginum og gaman að sjá þann mikla áhuga sem þar endurspeglaðist. Stækkun og endurbætur á íþróttahúsinu var vígt, nýtt mötuneyti var vígt, íbúasáttmáli var undirritaður, tónleikar voru haldnir og fleira var gert fólki til gleði. Kannski er stærðin hér í Hafnarfirði farin að segja til sín og þátttaka bæjarbúa að dvína en mikilvægt er að samhugur ríki í bæjarfélagi þótt að sjálfsögðu sé tekist á um ýmis mál sem bíða úrlausnar. Hins vegar þurfum við Hafnfirðingar að standa saman að því að gera bæjarfélagið okkur enn betra og sýna málefnum áhuga. Það hefur vakið mína athygli hversu fáir gera athugasemdir við ný deiliskipulög eða breytingar á skipulagi. Það er í hrópandi ósamræmi við umræður í pottum og saunum og segir kannski meira um vonleysi fólks um að það fái að hafa áhrif.

Ég kalla enn eftir lofuðum íbúaþingum (sem fór reyndar lítið fyrir í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga. Af hverju?

Guðni Gíslason

12. október 2006, 38. tbl. 24.árg.

Umhverfivaktin er hópur fólks sem vill að bærinn okkar sé snyrtilegri en hann er í dag. Í þessari vakt eru starfsmenn bæjarins og ýmsir áhugamenn og -konur. Eflaust er allt of litlu fé varið til viðhalds og snyrtingar. Það sést t.d. á ryðguðu þaki Bæjarminjasafns okkar, það sést m.a. á kantinum við Lækinn, framan við gamla Lækjarskóla, einnig á ýmsum grasbölum, kantsteinum og öðru sem þarfnast viðhalds eða betra viðhalds. Þetta þarf að laga og varla hægt í svona stóru bæjarfélagi nema með einhverju viðhaldskerfi. En við bæjarbúar gætum líka tekið til hendinni.

Nú er sumarið á enda og eflaust er drasl að fjúka víða um bæinn. Það ætti að vera sjálfsögð skylda hvers og eins að grípa slíkt og koma í ruslatunnu og jafnvel taka poka í hönd og hreinsa til í nágrenninu. Það væri hverju barni og unglingi hollt að vera með í slíku átaki. Oftar mætti senda poka í hús og tryggja þarf að Sorpa taki frítt við drasli sem tínt er á víðavangi. Það hlýtur að vera betra en að fólk troði hverju sem er í ruslatunnur eða hendi jafnvel á víðavangi sem er hreint með ólíkindum að nokkur geri.

Senn fer að snjóa og gangstéttar troðast fljótt og klaki myndast. Varla er það mikið mál fyrir hrausta íbúa að skafa af gangstéttinni framan við sitt hús. Ef líkamsbeiting er rétt er þetta fín útivera. Hafnarfjarðarbær má þó ekki slá slöku við að nýta nýju traktorana til að hreinsa af gangstéttum og miðað við veðurfar mætti hiklaust beita kústum meira til að ná sjóa af gangstéttunum eins og víða er gert á Norðurlöndunum. Hins vegar finnst mér öfugsnúið og móðgun við íslenska hestinn að ryðja reiðgötur í upplandinu.

Guðni Gíslason

 

5. október 2006, 37. tbl. 24.árg.

Hún er aldeilis umdeild stækkun álversins og ekkert undarlegt með það og eðlilegt að gerðar séu miklar kröfur til iðnfyrirtækja svona nálægt byggð. Ég var einn þeirra fjölmörgu Hafnfirðinga sem þáði boð Alcan á stórgóða tónleika Björgvins Halldórssonar og kann ég Alcan bestu þakkir fyrir. Einhverjir fóru ekki vegna þess að þeir vildu ekki þiggja mútur frá Alcan. Mútur? Er skoðun meðal Hafnfirðings svona ódýr?

Það var eftir því tekið er Alcan tók að sinna samfélagsverkefnum. Þeir hófu m.a. að styrkja íþróttastarf ungs fólks, stofnuðu samfélagssjóð og gerðu ýmislegt til að bæta ímynd fyrirtækisins. Það getur vel verið að stjórnendur hafi séð nauðsyn þessa í framtíðaruppbyggingu fyrirtækisins en það gera öll fyrirtæki sem eru í svipuðum sporum. Af hverju haldið þið að bankarnir styrki íþróttir og góðgerðarmál? Af góðmennsku? Nei, alls ekki, þetta er hluti af markaðssetningu enda vilja allir fá eitthvað fyrir sinn snúð. Hins vegar fagna ég þegar fyrirtæki sjá sér hag í að sinna samfélagsverkefnum og þegar þau eru einu sinni farin að huga að samfélaginu í kringum sig hætta þau því ekki svo glatt enda eru margir stjórnendur farnir að sjá nauðsyn þess að vel rekin fyrirtæki leggi sitt af mörkum til samfélagsins.

En í öllum bænum, látið ekki kaupa ykkar. Takið afstöðu til málefna án gillitilboða frá fyrirtækjum úti í bæ.

Guðni Gíslason

 

28. september 2006, 36. tbl. 24.árg.

Geirharður hinn æðsti samdi um varnir okkar við mestu stríðsþjóð heims. Við fáum ekki að vita hvernig varnir samið var um né síður höfum fengið að vita fyrir hverju eigi að verja okkur. Fyrir mestu var þó að byggingarmeisturum var bjargað frá bráðum bana og tryggt að íbúðirnar á vellinum verða ekki settar á frjálsan markað. Það hefði verið skelfilegt ef sauðsvartur almúginn hefði komist með lúkurnar í ódýrt íbúðarhúsnæði. Nei, gamla góða forræðishyggjan fær að ráða og byggingarmeisturum tryggð sala á sínum húsum fyrst. Þeir hugsa vel um sína þarna suðurfrá. Herinn er á förum og því ber að fagna. Betur hefði verið ef við hefðum losað okkur við tengsl við bandaríska herinn fyrir fullt og allt. Kannski var ekki við því að búast með ráðamenn sem hafa alist upp við Bonanza og stríðsmyndir kanasjónvarpsins. Þeir eru síst betri þessir eldri, leynilögguáhugamennirnir heldur en þeir ungu sem hafa alist upp við drápsleiki í tölvunni heima í faðmi fjölskyldunnar.

Ekki hefur heyrst hósti né stuna frá hafnfirsku gömlu herstöðvarandstæðingunum, þeir kannski skammast sín fyrir baráttuna? Nei, þeir geta verið hreyknir af því að hafa barist á meðan ég og fleiri hlógum og sáum ekkert vont við Kanann. En hvað varð um sannfæringuna þeirra?

Í umræðunni hefur komið fram að efla þurfi löggæslu í landinu. Er það vitleysa í mér að virðing fyrir lögum og reglum hafi minnkað? Þjóðfélagið er að verða sýkt af eiginhagsmunagæslu þar sem hver hugsar um sjálfan sig og skeytir ekki um hvaða afleiðingar það hefur fyrir aðra eða þjóðfélagið í heild. Kannski eru það ekki erlendir hryðjuverkamenn sem við eigum að hræðast?

Guðni Gíslason

 

21. september 2006, 35. tbl. 24.árg.

Loksins virðist bæjarstjórn Hafnarfjarðar ætla að reisa Hellisgerði upp á þann stall sem það á skilið. Það er orðin skömm að því hversu sinnulausir bæjarfulltrúar hafa verið gagnvart þessari perlu bæjarins. Ég hef hér í leiðara og fréttaflutningi reynt að vekja athygli og áhuga bæjaryfirvalda á að koma garðinum í það form að við gætum orðið grobbin af honum aftur. Ekki virðist sem þessi viðleitni hafi borið árangur, þrátt fyrir mikil og góð viðbrögð bæjarbúa, þar til nú að bæjarfulltrúi tók málið upp. Ég kýs að nefna ekki nafn þessa bæjarfulltrúa því hann sá ekki sóma sinn í því að nefna í ræðu sinni að mikill áróður og þrýstingur hafi verið í þessu máli. Nei, þessi bæjarfulltrúi eða umhverfisnefnd var ekki að „fatta upp á þessu“ eins og börnin segja. En ef menn vilja skreyta sig með svona fjöðrum þá er það í fínu lagi, svo framarlega sem Hellisgerði njóti góðs af og verði alvöru garður á ný með starfsfólki sem sinnir honum af natni og laus við víggirðingar píndra trjáa. Við eitt horn garðsins er skilti sem bendir á Siggubæ og Byggðasafn en hvergi er skilti sem segir að þarna sé Hellisgerði. Aðeins er flaggað Bonsai fána sem sjálfsagt þótti að fjárfesta í.

Kannski má líkja Hellisgerði við frárennslismál bæjarins. Um áraraðir var allt í ólestri og bæjarstjórnir drógu lappirnar í mörg ár en svo þegar svipan var komin á þær, var hafist handa og málið leyst af rausnarskap og margir börðu sig á brjóst. Húrra fyrir þeim.

Fjölmargir hafa hvatt til þess að Hellisgerði verði endurreist, ýmsir hafa skrifað um Hellisgerði en það er bæjarstjórnar að taka ákvarðanir. Er það nokkuð svo sárt?

Guðni Gíslason

 

14. september 2006, 34. tbl. 24.árg.

Mikið er hún pólitík undarleg. Það eru engin ný sannindi en alltaf verður maður jafn hissa á henni. Nú tókst henni enn á ný að hneyksla mig og þá með fjármálaráðherranum okkar hafnfirska. Ekki á ég þá við Sparisjóðsmálið sem hefði þó fellt ráðherrann hefði pólitíkin talað skandinavískt mál. Nei, það eru prófkjörsmálin. Ekki svo að maður yrði hissa á að „leiðtoginn“ í kjördæminu þyrði ekki gegn innflutta hafnfirska ráðherranum, það var löngu fyrirséð. Samt hneykslar það mann að menn þurfi að flýja í önnur kjördæmi, kjördæmi þar sem synda afleystur nafni hans örugglega íhugar framboð. Enginn veit hvernig þeim Árnanum gæti gengið. Við Íslendingar gleymum fljótt spillingu og syndum stjórnmálamannanna og kjósum þá bara aftur og aftur. Nei, það er fyrirkomulag prófkjöra sem pirra mig óskaplega. Af hverju er verið að kalla eftir vilja flokksfélaganna þegar frambjóðendurnir vilja helst raða á listann áður og stýra prófkjörinu. Af hverju, guggnar oddvitinn í Suðurkjördæmi og víkur af stalli til að hafa hann auðan þegar karl úr öðru kjördæmi býður sig fram? Hættið nú konur að skamma okkur karlana í jafnréttisbaráttunni. Standið upp í ykkar sætum en stígið ekki sjálfviljugar niður af þeim! Auðvitað á enginn að bjóða sig fram í ákveðið sæti. Það á ekki einu sinni að vera leyfilegt. Á meðan flokksræðið er látið hamla lýðræðinu er lágmarkskrafa að prófkjör verði opin og lýðræðisleg og kjósendur fái að ganga óbundnir til kjördags.

Þá get ég líka látið fjúka áskorun um að hafa öll prófkjör flokkanna á sama tíma og stað og gefa öllum kost á að kjósa hjá öllum flokkum. Við viljum gott fólk í alla flokka!

Guðni Gíslason

 

7. september 2006, 33. tbl. 24.árg.

Menningar- og ferðamálafulltrúi boðaði ferðaþjónustuaðila á samlokufund í hádeginu á þriðjudag. Ágætisframlag og umræður urðu nokkrar, ekki síst um þjónustu við skemmtiferðaskip.

Ég hef lengi fylgst með ferðamálum í bænum, aðeins komið nálægt þeim en því meir sem ég velti þessum málaflokki fyrir mér, því minna skil ég til hvers við erum að þessu brölti. Hér í bæ starfa nokkur öflug ferðaþjónustufyrirtæki með Íshesta og Fjörukrána í fararbroddi, fyrirtæki sem hafa rudd grýtta slóð sem aðrir gætu nýtt sér, eða það hefði maður ætlað. Hafnarfjarðarbær hefur unnið töluvert markaðsstarf en einhvern veginn finnst mér fá fyrirtæki sýna þessari þjónustugrein mikinn áhuga, hvað þá að menn séu tilbúnir að leggja eitthvað af mörkum. Kannski er þetta forræði bæjarstjórnar á málaflokknum alls ekki til góðs? Svipað er farið með málefni miðbæjarins, af hverju er pólitísk miðbæjarnefnd? Hvar eru verslunareigendur og þjónustuaðilar, hagsmunaaðilarnir? Allt of oft vilja menn að „bærinn“ geri allt fyrir sig. Af hverju þarf sérstaka nefnd til að sinna ferðamálum, frekar en markaðsmálum fyrir bæinn í heild og fyrirtæki sem þar eru. Er ekki jafn mikilvægt að fá Reykvíking með bílinn sinn í sprautun hér eins og að fá túrista í álfagöngu? Hvor skilar meira eftir í bæjarfélaginu.

Við Hafnfirðingar hugsum allt of smátt og það hef ég sagt áður. „Það kostar peninga að búa til peninga“ er fræg setning og hún er í fullu gildi. Hafa menn ekkert íhugað að leggja ferðamálanefnd niður og láta ferðaþjónustuaðilum eftir hagsmunagæsluna? Ég legg a.m.k. til að menn íhugi að stofna markaðsskrifstofu Hafnarfjarðar.

Guðni Gíslason

 

31. ágúst 2006, 32. tbl. 24.árg.

Áhugafólk um tónlistarfræðslu fagnar því eflaust að settur hafi verið á fót vinnuhópur til að undirbúa nýjan grunnskóla og tónlistarskóla á Völlum. Langir biðlistar hafa verið í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og húsnæðið fullnýtt. Leitast hefur við að færa forskólakennsluna út í grunnskólana en þar þarf að vera aðstaða fyrir hendi sem hægt er að nota. Í ár er forskólakennsla aðeins í þremur skólum bæjarins svo ljóst er að endurskoða þarf þá aðstöðu sem tónlistarkennslu er búin hér í bæ tónlistarinnar. Ekki er enn ljóst með hvaða hætti tónlistarskólinn verður, hvort hann verði sjálfstæður, hluti af hinum nýja skóla, hluti af Tónlistarskóla Hafnarfjarðar eða sambland af þessu. Það má heita undarlegt að í tónlistarbæ sem Hafnarfjörður er, skuli ekki vera enn betur hlúð að tónlistinni enda hafa margir atvinnu af henni hér í bæ. Ég gæti vel séð fyrir mér að tónlistarskólinn yrði útvíkkaður í að verða miðstöð tónmenningar í bænum. Með auknu sjálfstæði og meira fjármagni gæti skólinn sinnt skyldu sinni að útskrifa tónlistarfólk á sem víðustum grunni, standa fyrir tónleikum til að kynna tónmenninguna, þróa námsefni í samstarfi við grunnskólana og framhaldsskóla og verða miðpunktur í tónlistarlífi bæjarins.

Það er í raun skömm að því að bærinn eigi engan sérútbúinn tónleikasal eða fjölnotahús sem nýta mætti undir fjölbreytt tónlistarlíf. Íþróttahúsið við Strandgötu er gott skotmark og mætti umbylta því í „svartan kassa“ sem mætti nýta á fjölbreyttan máta. Eflaust væri hagstæðara á allan hátt að rífa íþróttahúsið og byggja nýtt enda er húsið bastarður á sínu svæði.
Kannski mætti vinna að þessu verkefni undir kjörorðinu „Frá víkingatónlist til sinfoníu“ og væri spennandi verkefni fyrir arkitekta að hanna hús sem félli bæði að tónlistarskólanum og Fjörukránni. Verum með á nótunum!

Guðni Gíslason

 

24. ágúst 2006, 31. tbl. 24.árg.

Ný lögreglusamþykkt er í smíðum hjá bæjarlögmanni. Drögin sem nú liggja fyrir hafa ekki verið gerð opinber og því er ekkert vitað hvort þau verði mikið framfararspor eða verði eins og núverandi lögreglusamþykkt, ófullkomin og óljós. Lögregluembættið hefur þrýst á nýja samþykkt í mörg ár og því mikilvægt að slík verði samþykkt sem fyrst. Hins vegar hlýtur að vera eðlilegt að slík samþykkt fái góða kynningu meðal bæjarbúa enda hafa fjölmargir skoðanir hvað þar eigi að vera og ekki að vera. Hins vegar spyr maður sjálfan sig hvort það hafi eitthvað upp á sig að hafa lögreglusamþykkt þegar varla er reynt að fara eftir henni.

Og talandi um lögregluna, þá hlýtur það að vera mikill heiður fyrir hana að fá heimsókn frá belgískum kollegum og bæjarstjórum sem hingað komu til að kynnast góðum árangri lögreglunnar við að fækka afbrotum, ekki síst með góðu samstarfi við ýmsa aðila, s.s. félagsmálayfirvöld. Funduðu þeir m.a. með bæjarstjóra og lögreglunni. Annars er tölfræðin alltaf pínulítið hættuleg, fækkun umferðalagabrota getur líka þýtt minna eftirlit án þess að sagt sé að svo sé. Í mörgum þáttum er tölfræðin áræðanlegri, t.d. þegar talin eru tilkynnt afbrot. Gott samstarf lögreglu og bæjarbúa getur t.d. gert bæjarfélagið lítt áhugavert til innbrota en þá þarf líka góða nágrannagæslu.
Hins vegar fer alltaf í pirrurnar á mér að sjá menn komast upp með lögbrot fyrir framan nefið á lögreglunni. Þú hlýtur að hafa tekið t.d. eftir öllum bílunum upp í gangstéttum og vörubílum inni í íbúðarhverfum. Það eru skýr ákvæði um þetta í gildandi lögreglusamþykkt en samt er þetta látið afskiptalaust að mestu. Hvað veldur?

Guðni Gíslason

 

17. ágúst 2006, 30. tbl. 24.árg.

„Við erum búin að gera vel við íþróttahreyfinguna, hestamennina, siglingaklúbba, - allt sem tengist íþróttum. En hvað hefur verið lagt í sölurnar fyrir byggingu menningarhúss í Hafnarfirði fram til þessa?“ spyr Erlendur Sveinsson í grein hér á næstu síðu. Mikið óskaplega hlakka ég til að heyra svar bæjarstjórnar. Ég hef oftsinnis lagt fram þá hugmynd að hér í bæ verði byggt nýtt ráðhús, hús fólksins, í miðbænum. Slíkt hús ætti að hýsa stjórnsýslu, upplýsingamiðlun, þ.m.t. bókasafn, kaffihús, fyrirlestrar/tónleikasal og vera hús sem flestir eigi eða geri sér erindi í. Nei, enn á að dusta rykið af þeirri gömlu hugmynd að byggja aftan við ráðhúsið. Ekki eru menn nú stærri menn en það. Bakhús skal það vera. Hvar er reisn bæjarins? Í Hafnarfirði er menningin mikilvægur þáttur í lífi bæjarbúa. Gríðarlegur fjöldi bæjarbúa lifir á störfum tengdum menningu og enn aðrir sinna henni með öðru auk allra hinna sem njóta eða vilja njóta. Hér í bæ býr stór hópur tónlistarmanna en hvergi er hér að finna sérbúinn tónleikasal. Hér er stór hópur myndlistamanna í víðasta skilning þess orðs en hvergi er sýningaraðstaða fyrir hinn almenna listamann. Auðvitað er listin ekki bara húsnæði, langt því frá, gott grasrótarstarf er mikilvægt en að því þarf líka að hlúa. Ýmislegt hefur verið reynt og margt gott gert, en við getum betur. Til þess þurfa stjórnmálamenn að setja sér háleit markmið og hafa kjark til hrinda af stað framkvæmdum ætluðum að uppfylla þau markmið.

Túnhvammur er stjörnugata bæjarins, hana völdu konurnar í fegrunarnefnd bæjarins. Ýmsir bæjarbúar fengu viðurkenningu fyrir garða sína og eiga þeir hrós skilið sem gera lóðir sínar þannig að þær eru augnayndi þeim sem eiga leið þar framhjá. Ekki finnst mér þó skipta máli hvernig umhorfs er inni í lokuðum görðum frekar en inni í stofum en tenging garðs við umhverfið er það sem verðlauna á. Mér skilst að erfiðlega hafi gengið að finna fyrirtækjalóð til að verðlauna og er það ótrúlegt og kannski vantar meiri hvata. Hins vegar eru ýmis fyrirtæki sem hafa gert mjög snyrtilegt í kringum sig eins og Stoð á Trönuhrauninu, utan Hellu sem ávallt hefur haft snyrtilegt í kring hjá sér. Kannski ætti að koma upp tilvísunarkerfi og hvetja bæjarbúa til að benda á það sem vel er gert í umhverfismálum í bænum. Sá sem benti á það sem viðurkennt yrði fengi einnig viðurkenningu. Þannig mætti hvetja bæjarbúa til að horfa til þess sem vel er gert því það er svo auðvelt að sjá það sem miður fer, það stingur meira í stúf og því er meira talað um það. — Hreinn bær, okkur kær!

Guðni Gíslason

 

10. ágúst 2006, 29. tbl. 24.árg.

Nú er verslunarmannahelgin, aðal ferðahelgi sumarsins liðin. Umferðin tók sinn toll, einn er fallinn í valinn. Vinsældarveðurfræðingurinn hafnfirski spáði hitabylgju en líklega voru það bara Austfirðingar sem sluppu við rigninguna. Á Siglufirði þar sem hitabylgjan átti að vera opnuðust himnarnir á sunnudeginum og þar rigndi yfir réttláta sem rangláta. Ekki var þó sanngjarnt að kvarta yfir veðrinu, ágætur hiti og skýin spöruðu mönnum sólgleraugu og sólbruna. Útivistarþörf landsmanna er sem aldrei fyrr og enginn er maður með mönnum nema hann ferðist um landið. Áningarstaðirnir geta þá verið bílastæði og grasbalar inni í miðjum bæ og „tjöldin“ í dag eru glæsikerrur á við húsbíla og hjólhýsi með öllum búnaði. Engu virðist skipta hvort á annað tonn togist á eftir bílunum, þetta eru jú orðnir kraftmiklir jeppar sem láta sér ekki muna um tveggja tonna hjólhýsi í eftirdragi og þá er engu látið skipta að ekki megi aka með eftirvagn hraðar en 80 km/klst. Ég heyrði „byssuskot“ koma frá hjólhýsi sem dregið var af bíl sem var annar bíll á undan mér. Hraðinn var eitthvað yfir 90 og greinilegt var að dekk hjólhýsisins var ekki gert fyrir langvarandi hraðakstur á íslenskum vegum. Það sprakk með þvílíkum hvelli að heyrðist í gegnum gamla góða söng Ómars Ragnarssonar, „Þrjú hjól undir bílnum“ sem látið var hljóma hátt í gamaldags kasettutæki í bíl ritstjórans og hátt sungið undir.

Kannski það verði boðið upp á einhverja dagskrá um verslunarmannahelgina í Hafnarfirði í framtíðinni, fyrir þá fjölmörgu sem eru þó heima?

Nóg er af hæfileikaríku fólki í bænum, listamönnum, hugvitsmönnum og framkvæmdafólki. Það er engin ástæða að bíða alltaf eftir frumkvæði Hafnarfjarðarbæjar, einstaklingar, félög og hópar geta vel staðið fyrir hátíðum í Hafnarfirði, hvort sem það er um verslunarmannahelgina eða aðrar helgar.

Guðni Gíslason

 

13. júlí 2006, 28. tbl. 24.árg.

Hafnarfjörður er iðagrænn af grasi og trjágróðri sem blómstrar sem aldrei fyrr nú í vætutíðinni. Græn svæði eru af hinu góða en einhvern tíma þarf að meta hvort rétt sé að tyrfa allt sem ekki á að aka á. Grasflötum meðfram götum og vegum hefur fjölgað mikið án þess að mannskapur sé til að hirða. Því er óræktin víða og grænu svæðin verða lítil augnayndi. Auðvitað mætti hanna „frjálslega vaxin“ svæði sem ekki þyrfti að slá nema einu sinni á sumri en eflaust mætti gera meira af því að nota runnagróður og hægvaxnari tré til að fylla í þær eyður sem myndast og þarf að hylja á einhvern hátt. Stofnkostnaðurinn yrði meiri en reksturinn ódýrari. Þetta ætti að vera einfalt reikningsdæmi.

Grænu svæðin eiga að vera fyrir fólkið og þau á að hanna svo fólkið vilji fara um þau og dvelja á þeim ef þess ber undir. Hvernig væri ef Hafnarfjörður yrði leiðandi bæjarfélag í hönnun hagkvæmra grænna svæða?
 

Suðurbæjarlaugin var einu sinni stolt okkar. Nú skammast margir bæjarbúar sín fyrir hana og fara annað í sund. Er lélegu viðhaldi og þrifnaði borið við. Flísar á gólfum eru brotnar, skápar eru ekki með lásum, vatn flæðir ekki beint í niðurföll, rennibrautin er ónýt og svona telur fólk upp. Loksins á að gera átak í að laga útisvæðið, endurnýja rennibrautina og fl. og því ber vissulega að fagna. En svo virðist að annað eigi að vera eins og það hefur verið áður. Allir vita þetta, allir tala um þetta en enginn blæs í lúðra og kallar eftir lagfæringum. Gestum í sundlaugunum fækkar á milli ára miðað við íbúatölu. Suðurbæjarlaug og umhverfi hennar hafa allt til þess að bera að þarna geti risið sundlaugarparadís. Af hverju hugsa menn ekki stórt í Hafnarfirði? Það er ekki einu sinni stórt hugsað að gera sundlaugina að miklu betri stað til að vera í og mikið betur rekna.
Sundhöllin er gömul en þrifaleg sundlaug. Útisvæðið mætti þó bæta þar til muna, rjúfa steinveggina svo pottverjar geti horft til hafs og garðurinn gerður þannig að hann verði ekki eins vindasamur. Eflaust mætti auka aðsókn þar verulega ef garðurinn yrði gerður spennandi. SH-ingar eiga heiður skilið að blása til átaksins „Sund fyrir alla“ en þeir eiga hugmyndina að því að hafa frítt í sund á sunnudögum. Hafnarfjörður er sundbær! Eflum það.

Guðni Gíslason

 

6. júlí 2006, 27. tbl. 24.árg.

Hellisgerði er (var) perla Hafnarfjarðar. Jónatan Garðarsson ritaði ágæta og fróðlega grein um Hellisgerði í blaði Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar, Læknum, þar sem hann segir sögu Hellisgerðis í stórum dráttum.
Þar er kurteisin í fyrirrúmi og ekki er neinum styggðaryrðum farið um viðhald og fjárframlög til gerðisins. Ég hef á undanförnum misserum rætt við fjölda manna um Hellisgerði og eru allir sammála um að eitthvað stórt þurfi að gera til að Hellisgerði nái aftur fyrri reisn.

Það er með ólíkindum hversu sofandi stjórnmálamenn af öllum flokkum hafa verið þegar kemur að málefnum Hellisgerðis. Kannski menn bíði alla jafna eftir að málið komi inn á borð bæjarstjórnar? Hver á að gera það? Er þetta ekki verk bæjarfulltrúanna sjálfra? Milljónum króna hefur verið varið í Bonsai garð inni í Hellisgerði, víggirtan garðinn með fleiri eftirlitsmyndavélum en Byggðasafnið okkar. Verulegum fjármunum og vitsmunum þarf að verja til að gera Hellisgerði þannig úr garði að við getum verið stolt af og sem þoli þá umferð sem fer um garðinn. Bonsai trén geta alveg eins verið niðri í miðbæ eða annars staðar, Hellisgerði á sín Bonsai tré í klettasprungum og holum og engin þörf á að troða víggirtum garði þarna.

Hvað þekkir yngri kynslóðin til Hellisgerðis? Hvað þekkja nýir íbúar Hafnarfjarðar til Hellisgerðis? Við Reykjavíkurveginn blasir við fáni merktur Bonsai en á skilti inni í garðinum er nafn garðsins í litlum stöfum. Auðvitað á garðurinn að vera vel merktur við alla innganga hans.

Hafnarfjörður ætti að eiga marga almenningsgarða, Víðistaðatúnið var byggt upp með miklum metnaði en aldrei klárað, Hörðuvellir er lítið meira en tún og fallegar hleðslur og bekkir, Hamarinn er nær ófær vegna trjágróðurs og aðkomur að honum ómerktar. Trjágróðurinn verður reyndar grisjaður og aðgengið þannig bætt en Hamarinn og umhverfi hans mætti gera mun betra en það er í dag. Skógarlundurinn í Skuld hvarf að mestu en Óla Runns túnið mætti gera að lifandi útivistargarði í minningu gamalla tíma. Ástjörnin er friðuð og þar hafa verið gerðir göngustígar og merkingar settar upp og er það til fyrirmyndar á sama tíma og aðgengi að Ásfjalli og útsýnisskífunni þar hefur verið takmörkuð með húsum alveg upp í fjallinu. Upp að skífunni og vörðunni vantar göngustíg en holtagróðurinn hefur látið mikið ásjá vegna ágangs fólks. Hvaleyrarvatnið verður brátt inni í bæ og þar má setja mun meiri kraft í að gera göngustíga þar sem fólk í hjólastólum og fólk með kerrur og vagna getur komist um. Sýnum reisn!

Guðni Gíslason

 

29. júní 2006, 26. tbl. 24.árg.

Mikið hefur verið rætt um ójafna stöðu kynjanna í skipun nefnda hjá Reykjavíkurborg. Svipuð umræða kom upp í bæjarstjórn á þriðjudag og Rósa Guðbjartsdóttir skrifar um þetta grein í Fjarðarpóstinum í dag. Reyndar skoraði yngsti bæjarfulltrúinn á Rósu að bæta úr bágri stöðu kvenna í nefndarskipan D-listans og skipa konur í framkvæmdaráðið en þar skipaði D-listinn bara karla. Ég ætla ekki að elta ólar við kynferði fólks, enda gömlu kynin tvö ekki orðin einráð á þeim markaði án þess að það hafi komið við sögu í umræðum um hlutfall kynjanna. Hitt er það hvort alltaf sé valið hæfast fólkið í nefndir og ráð bæjarins. Þessum nefndum og ráðum er ætlað að vera sérfræðiráðgjafar bæjarfulltrúanna sem við bæjarbúar kusum í meingölluðu flokkavænu kosningakerfi. Því er mikilvægt að þar sé alltaf valið hæfasta fólkið og áhugasamast til starfa en ýta þarf til hliðar viðmiðunum eins og dugnaði í kosningabaráttu og slíku. Nær væri að taka upp verðlaunakerfi eins og bærinn er með fyrir íþróttafólkið. Ekki væri amalegt að fá pólitískan verðlaunapening fyrir vel unnin störf.

Nú er líka í tísku að búa til stjórnarhópa hinna ýmsu aldurshópa og ungmennaráð og öldungaráð er gott dæmi um slíkt. Auðvitað þarf unga fólkið fríar getnaðarvarnir og aðstöðu fyrir brettafólk. Það er flott að virkja ungt fólk til starfa fyrir stjórnkerfi bæjarins. En því má ekki gleyma að þetta eru fulltrúar breiðs og innbyrðis ólíks hóps. Hvernig nær slíkt ráð að endurspegla vilja þessa hóps? Hvernig næst að draga fram skoðanir sem flestra? Mikilvægt er að með þessari skipan sé ekki slegið á hendur þeirra sem kannski vilja koma athugasemdum og ábendingum sínum beint til bæjarstjórnarmanna og kannski ætti að gera enn betri farveg fyrir slík tengsl bæjarbúa við kjörna bæjarfulltrúa. Hvati að slíkum ábendingum getur komið úr skólastarfi, úr íþróttastarfi, skátastarfi, kirkjulegu starfi eða úr samskiptum ungs fólks á götum úti.

Fulltrúa foreldra má líka skoða með þessum formerkjum, eru þeir ekki oftast að vinna út frá sínum eigin skoðunum og reyna að vinna eftir bestu getu? Hversu vel getur einn einstaklingur verið fulltrúi foreldra í Hafnarfirði. Stór hluti af okkur eru foreldrar og við höfum öll mismunandi skoðanir. Með þessu er ég enn og aftur að hvetja til fleiri uppbyggjandi íbúaþinga. Venjum bæjarbúa á íbúaþing!

Guðni Gíslason

 

25. júní 2006, 25. tbl. 24.árg.

Húsfyllir var á opnum árlegum sumarfundi fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins fyrir viku. Fjarðarpósturinn greindi frá því að óánægja væri um skipan í nefndir og að byltingartillaga væri jafnvel væntanleg. Eflaust hafa þeir, sem mættu til að sjá ærlegan slag, orðið fyrir vonbrigðum því tillaga um að Rósa Guðbjartsdóttir tæki við leiðtogastarfinu var ekki borin fram og óánægjuraddirnar heyrðust ekki eins og búist var við. Að vísu voru gömul mál úr pófkjörsslagnum tekin upp, mörgum mánuðum of seint eins og fjármálaráðherrann lýsti því. Sennilega hefur flokksmaskían virkað loksins og fólk verið róað niður til að halda friðinn. En svo varpar Guðmundur Jónsson fram sprengju í grein hér á blaðinu og spáir því að Rósa Guðbjartsdóttir sem skipar 2. sæti flokksins verði leiðtogi hans í kosningunum að fjórum árum liðnum. Þetta hlýtur að kallast að strá salti í sárin og það af innanbúðarmanni. Nýr leiðtogi fær vart að hefja störf þegar leiðtogi er nefndur til sögunnar sem eigi að leysa þann nýja af strax eftir eitt kjörtímabil. Já, það hlýtur að vera hressandi að vera í Sjálfstæðisflokknum þessa dagana.

Jóhannes í Bónus, formaður stjórnar Styrktarsjóðs Baugs Group sagðist stoltur af því að sjóðurinn hafi riðið á vaðið og veitt skátahreyfingunni hæsta styrkinn úr sjóðnum í ár, 7,5 milljónir króna en hann taldi að skátahreyfingin hefði orðið mjög útundan sem framvörður í íslensku forvarnarstarfi. Húla, húla vífa fyrir Jóhannesi og félögum. Gaman væri ef svona orð heyrðust opinberlega frá forystumönnum æskulýðsmála í Hafnarfirði!

Og talandi um æskulýðsmál í Hafnarfirði. Nú hefur æskulýðsfulltrúinn sagt upp eftir um 30 ára starf og segir skipan formanns íþrótta- og tómstundanefndar vera ástæðuna. Þetta hlýtur að vera all sérstakt. Þetta gefur kannski Lúðvík og félögum tækifæri til að gera þær skipulagsbreytingar sem þeir þorðu ekki við sameiningu æskulýðsnefndar og íþróttanefndar í íþrótta- og æskulýðsnefnd sem síðar varð íþrótta- og tómstundanefnd (breyting sem enginn skildi). Enn er sér íþróttafulltrúi og sér æskulýðs- og tómstundafulltrúi sem gátu ekki einu sinni verið í sama húsnæði.

Nú hlýtur starf tómstundafulltrúa að verða auglýst til umsóknar og starf íþróttafulltrúa og starf æskulýðsfulltrúa lagt niður. Íþróttir eru jú líka tómstundir, ekki satt?

Guðni Gíslason

 

15. júní 2006, 24. tbl. 24.árg.

Golf og fótbolti eru göfugar íþróttir, alveg eins og aðrar íþróttagreinar. Auðvitað þykir hverjum sinn fugl fagur og það þykir ekki verra ef hægt er að tengja peninga við greinina, þá vekur hún miklu meiri athygli. Ég er hrifinn af öllum íþróttum þar sem þátttaka er aðalatriðið. Ég er frekar lítill áhorfandi þó ég slysist við að horfa á handbolta, fótbolta, golf, tennis, kappakstur, kurling og frjálsar íþróttir. Hins vegar geri ég mér grein fyrir því að allir þurfi sitt pláss, líka mótorhjólamenn. Aumingja ráðherrann sem loksins ætlaði að taka á málunum var látinn hætta eftir örstuttan starfsferil sem ráðherra.

Nei, málið eru fyrirhugaðar framkvæmdir við golfvöll og fleiri fótboltavelli við enda Hvaleyrarvatns, á hraunsléttunni þar. Hvaleyrarvatn er ein mesta útivistarperla okkar Hafnfirðinga þó svo enn hafi ekki verið lagður almennilegur göngustígur meðfram vatninu, ekki hafi verið malbikaður og rykbundinn vegurinn meðfram því og ekki hafi verið hamlað akstri stórra malarflutningabíla þar um. Þetta almenna útivistarfólk hefur aldrei fengið neina sérstaka þjónustu hjá Hafnarfjarðarbæ, því miður. Um leið og hjálpartæki eru tekin til, hestur, bolti eða golfkylfa þá rjúka bæjarfulltrúar upp til handa og fóta og leggja milljónir til. Auðvitað er ég ekki að öfundast út í þá aðila, kannski á ég eftir að sveifla kylfu eða bregða mér á hestbak og njóta þess sem vel hefur verið gert en það er þetta vandamál með jafnræði bæjarbúa.

Hvaleyrarvatn og umhverfi þess á að fá að vera útivistarsvæði almennings. Golfvöllur eða fótboltavöllur er ekki hluti af slíku svæði. Ærslagangur eða umferð gangandi fólks hefur aldrei verið vel liðin nálægt golfvöllum og fótboltavellir falla ekkert sérstaklega vel að landslagi og fást ekki stallaðir. Er ekki hægt að finna aðra staði undir þessa annars ágætu starfsemi?

Allt of oft hlaupa menn til í skipulagsmálum og virðist sem hlutir séu ekki skoðaðir frá öllum hliðum og menn eru sáttir við ef enginn tekur eftir að skipulag sé í kynningu og enginn komi því með athugasemdir, teljast menn samþykkir því. Gott dæmi um þetta er vegarspotti sem byrjað var að leggja í hlíðunum ofan við Hvaleyrarvatn. Hvernig dettur fólki í hug að setja breiðan veg uppi í hlíðum við útivistarsvæði. Það kallar bara á hraðakstur og akstur stærri bíla og það er ekki það sem þarf.

Skora ég á nýkjörna bæjarstjórn að halda íbúaþing um framtíðarskipulagsmál bæjarins og fá fram fleiri hugmyndir hjá bæjarbúum, ekki kalla bara eftir athugasemdum við tilbúið skipulag. Að lokum óska ég bæjarfulltrúum heilla í starfi.

Guðni Gíslason

 

8. júní 2006, 23. tbl. 24.árg.

Bjartir dagar standa nú yfir en þeir standa yfir í 10 daga. Dagskráin er fjölbreytt og nú er reynt að blanda fjölmenningu, í skilningi nýbúamenningu, inn í dagskrána en fólk af yfir 60 þjóðernum býr í Hafnarfirði svo löngu er orðið tímabært að það sjáist í menningu bæjarins. Að vísu er rólega farið af stað en fyrstu skrefunum, þó veikburða séu, er alltaf fagnað. Vonandi munu miklu fleiri „fjölmenningaratriði“ sjást á næstu lista- og menningarhátíð og má svona hátíð gjarnan standa lengur yfir og vera eitthvað síðar. Hvítasunnan er fyrsta ferðahelgi sumarsins og fjöldi fólks þeysist í kofana sína á þéttbýlisstöðum sveitanna eða tosast með draghúsin sín út fyrir bæinn. Kannski þarf ekki að troða neinni menningu á þetta náttúrulífsfólk og meira næði sé þá fyrir hina að taka þátt í viðburðum Bjartra daga. Því miður missti ég af fjölmenningunni vegna eltingarleiks við fjarlæga fjölmenningu en um hvítasunnuna hefði ég auðvitað viljað vera í rigningu á Vormóti Hraunbúa í Krýsuvík en „aldrei í rigningu festir þar snjó“, eins og segir í ljóði Harðar Zóphaníassonar. Ninna og félagar úr Félagi eldri borgara slógu í gegn í Gúttó í glæsilegum búningum úr plastpokum og öðru sem til fellur og svona hátíðir eru örugglega til að hvetja hópa til dáða, hvort sem þeir skilgreina sig sem sem list- eða skemmtihópa. Alþýðulist getur verið teygjanlegt hugtak en hún hlýtur þó alltaf að byggja meira á þátttöku fólks en áhorfi eða hlustun.

Sennilega er allt of litlu fjármagni varið í hátíðina og getur það verið umhugsunarefni fyrir stærri fyrirtæki í bænum að styðja við hátíð sem þessa.

Guðni Gíslason

 

1. júní 2006, 22. tbl. 24.árg.

Samfylkingin getur unað vel við sitt eftir stórsigur í bæjarstjórnarkosningunum og hljóta Lúðvík og félagar að vera mjög stoltir. Haraldur og Sjálfstæðisflokkurinn hljóta að gráta sín örlög enda niðurlagið mikið, tapa tveimur mönnum. Hlýtur þetta að endurspegla, annars vegar, farsæla stjórnun Samfylkingar og hins vegar sundurlyndis í Sjálfstæðisflokknum og slappa stjórnarsetu í bæjarstjórn síðustu fjögur árin. Einnig geta menn spurt sig hvort árangursríkt sé að hamra á því sem aðrir eiga að hafa gert illa í stað þess að leggja áherslur á eigin stefnu og ætlanir. Þar að auki hlýtur þetta að vekja spurningu um það hvort Sjálfstæðisflokkurinn treysti Haraldi nægilega til forystu. Allt hljóta þetta að vera vangaveltur sem teknar verða til skoðunar hjá Sjálfstæðisforystunni enda er ekki hægt að klóra sig út úr svona slakri niðurstöðu.

Vinstri grænir fengu miklu meira fylgi en kannanir gáfu til kynna og greinilegt er að Guðrún uppsker í samræmi við frammistöðu sína frammi fyrir alþjóð í fjölmiðlum. Ég er hins vegar ekkert viss um að menn hafi verið svo vissir um hvað flokkurinn í raun stóð fyrir ef horft er í burtu frá álversmálinu. Nú þarf hún hins vegar að selja Samfylkingarfólki sínar hugmyndir eigi þær að verða að veruleika enda hefur Samfylkingin alræðisvald og reynir hvort þeir virði kjör bæjarbúa sem einnig kusu fjóra aðra í bæjarstjórn, ekki í minnihluta. Fyrsta sönnun þess gæti verið að nú yrði dregið um sætaskipan á bæjarstjórnarfundum eins og á þingi og þannig sýnt táknrænt fram á að það eru allir jafnir í bæjarstjórn.
Til hamingju allir nýir bæjarfulltrúar, nú er verk að vinna.

Guðni Gíslason

 

24. maí 2006, 21. tbl. 24.árg.

Við göngum til sveitarstjórnarkosninga á laugardag. Kannanir sýna aukið fylgi Samfylkingar en það eru kjósendur sem velja flokkana, ekki skoðanakannanir. Þó svo hart sé barist nú síðustu dagana finnst mér menn meira kljást um útfærslur og einstök mál fremur en að það sé grundvallarágreiningur um stjórnun bæjarins. Ég ítreka hér enn að við erum að kjósa 11 einstaklinga í bæjarstjórn, ekki meiri- eða minnihluta og geri kröfu að menn vinni sem ein heild eftir kosningu, hvernig sem fer. Kosningabaráttan er nauðsynlegt aðhaldstæki fyrir stjórnmálamenn, enginn má verða of öruggur með sig, þá hætta menn að vera frjóir og vakandi. Fjarðarpósturinn hefur ávallt reynt að veita bæjarstjórninni aðhald og fjölmargir íbúar hafa stuðlað að því með skrifum sínum í blaðið, með ábendingum og stuðningi við ritstjórnarstefnu blaðsins. Það er vonandi að allir gangi sáttir frá borði eftir kosningar og haldi áfram að vinna bænum allt til heilla því það má hafa áhrif á fleiri vegu en að sitja í bæjarstjórn eða ráðum bæjarins. Samráð við bæjarbúa er nauðsynleg og þarf að vera miklu meiri en nú er og vonandi verður svo á komandi kjörtímabili. Bæjarbúar ganga óbundnir til kosninga og kjósa þann flokk sem þeir treysta best en því miður er enn ekki hægt að merkja við einstaklinga af fleirum en einum lista en fjölmargir bæjarbúar hafa tekið undir þá skoðun að kjósendur eigi að fá að ráða meira um það hvaða einstaklingar verði í bæjarstjórn óháð flokkum. Útstrikanir er eina vopnið sem menn hafa og ef mönnum sýnist þörf á slíku eiga menn ekki að hika við að nota það. Það erum við, kjósendur sem höfum valið. — Kjósið rétt!

Guðni Gíslason

 

17. maí 2006, 20. tbl. 24.árg.

Eldri maður, búinn að koma sér ágætlega fyrir í lífinu brá sér í sund. Hann hafði áhuga á að kaupa árskort en fékk að vita að hann þyrfti ekkert að borga, hann væri eldri borgari. Hann vildi borga fyrir sig en það var engu tauti komið við starfsmann laugarinnar, frítt skyldi hann inn.

Á sama tíma var móðir með þrjú börn á skólaaldri að fara í sund og þegar hann áttaði sig á því hversu mikið móðirin þurfti að leggja út, dauðskammaðist hann sín. Væri ekki nær að hafa frítt eða mun ódýrara fyrir barnafjölskyldur, hugsaði hann.

Lesi hver sem vill út úr þessari sögu.

Það hefur verið öflugt starf hjá ungum jafnaðarmönnum í Hafnarfirði í langan tíma og því ber að fagna. En að halda því fram að undirritaður hafi tekið afstöðu með flokki vegna þess að fagnað var hér að ungir sjálfstæðismenn væru vaknaðir til lífsins er fásinna. Lúðvík og Guðmundur Rúnar muna tíð ungra Alþýðubandalagsmanna og orrahríð við unga sjálfstæðismenn og krata. Ekki hefðu þeir viljað missa af fjörinu. Almennri stjórnmálaumræðu ungs fólks ber að fagna, í hvaða flokki sem það er, ekki síst ef hún einskorðast ekki bara við kosningabaráttu. Áhugafólk um bæjarmálefni getur haft mikil áhrif komi það sínum sjónarmiðum skipulega á framfæri. Það á jafnt við um ungmenni sem eldri borgara og hefði maður ætlað að þeir gætu komið sínum málefnum á framfæri innan stjórnmálaflokkanna. Þurfi sér ráð ungra, gamalla og veikra er það merki um að stjórnmálaflokkarnir ná ekki að tala máli allra hópa bæjarbúa. Kannski það sé kominn tími til að breyta kosningafyrirkomulaginu?

Guðni Gíslason

 

11. maí 2006, 19. tbl. 24.árg.

Mikið er gaman að sjá líf færast í starf ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins. Ekki svo að ég sé sérstakur stuðningsmaður þess flokks né annars þá er það af hinu góða þegar ungt fólk lætur sig samfélagsmálin varða. Það er liðin tíð að foreldrar skrái börnin sín í stjórnmálaflokka og unga fólkið tekur þátt af eigin forsendum. Starf Stefnis hefur legið niðri um áraraðir en nú virðist vera að færast mikill kraftur í félagið hversu lengi sem úthaldið verður. Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði hafa verið með starf þó svo skoðanir þeirra félaga hafi ekki verið sérstaklega áberandi í bæjarumræðunni þá hefur hún sennilega verið meiri innan aldurshópsins.

Enn og aftur segi ég þá skoðun mína að bæjarfélagið á að styðja við starf stjórnmálahreyfinga eins og lista- og íþróttastarfsemi enda eru þessi félög að vinna að framgangi bæjarfélagsins. Auðvitað á það ekki að takmarkast við að viðkomandi hreyfing hafi fulltrúa í bæjarstjórn því það má hafa áhrif á stjórnun bæjarfélagsins án þess. En einhvern veginn hafa stjórnmálaflokkarnir ekki þorað að taka á þessum málum og takmarkast styrkurinn nú við útgáfustyrk blaða þeirra flokka sem eiga fulltrúa í bæjarstjórn - nema kosningaárið.

Umræðan um álversstækkun virðist magnast fremur en hitt á sama tíma og kvartanir berast um mengun frá öðrum fyrirtækjum í Hellnahrauni án þess að nokkuð sé við því gert og hefur heyrst af kvörtunum sem komið hefur verið til Heilbrigðiseftirlits án þess að viðbragða hafi verið vart. Reykur sem lagði frá álverinu á tveimur stöðum síðla á sunnudag vakti óhug hjá mörgum sem spurðu sig hvað væri um að vera og bíða eflaust eftir skýringum frá Alcan.

Guðni Gíslason

 

4. maí 2006, 18. tbl. 24.árg.

Sem betur fer eru fjölmargir sem vilja stjórna bænum okkar. Helst vaknar þessi áhugi á 4 ára fresti og er þá hart barist til að komast í bestu sætin. Allir vilja þó samráð með bæjarbúum, hvernig svo sem menn finna samhljóm heils bæjarfélags. Sennilega er það ekki hægt og mikilvægt að bæjarbúar fylgist með þeim málum sem snýr að þeim á einhvern hátt og komi með ábendingar og athugasemdir við málefni sem þeim er næst eða þeir hafa góða þekkingu ár.

Hins vegar geta stjórnmálamenn eða embættismenn ekki velt allri ábyrgð á frumkvæði eða athugasemdir íbúanna því „sérfræðingum“ sem fengnir eru til ýmissa verka er ætlað að finna hver þörfin er í bæjarfélaginu. Við hönnun mannvirkja er mikilvægt að vandað sé til hönnunar og grunar mig að oft skorti hönnunareftirlit sem nauðsynlegt er til að komast hjá óþarfa agnúum.

Bílveltan á hringtorginu á Reykjanesbraut við Hlíðarberg sannaði enn einu sinni að þarna eiga að vera mislæg gatnamót. Það er ekki hægt að segja að ökumenn eigi bara að aka hægar, svoleiðis virkar það ekki, því miður. Þarna hefðu mín börn hæglega getað hafa orðið fyrir stór slysi ef þau hefðu verið á leið um undirgöngin á þessum tíma og hryllir mig við tilhugsuninni um það hvað þarna hefði getað gerst ef einhver hefði verið þarna þegar slysið varð. En þarna fáum við ekki mislæg gatnamót á morgun og þangað til þau koma þarf að auka eftirlit með hraða niður Reykjanesbrautina að hringtorginu. Skilti sem sýnir umferðahraðann og takmörkun á umferðarhraðanum hjálpa eitthvað en sérstakt eftirlit er nauðsynlegt með þessum stóru bílum sem þarna fara oft um á miklum hraða.

Guðni Gíslason

 

27. apríl 2006, 17. tbl. 24.árg.

Mikið er ég stoltur af honum Herði vini mínum Zóphaníassyni og henni Ásthildi konu hans. Ekki svo að þau þyrftu að gera neitt sérstakt núna til þess en ég gat ekki annað en tekið hattinn ofan þegar Hörður tilkynnti að hann hefði ákveðið að leggja 4 milljónir króna í Hraunbúasjóðinn sem hann væri að stofna, sjóð til styrktar skátastarfi í Hafnarfirði. Hörður var einn þeirra sem átti stofnfé í SPH og hann ætlar ekki að liggja á hagnaðinum öllum og er hann góð fyrirmynd fyrir þá stofnfélaga sem töldu óeðlilegt að einstaklingar högnuðust á því einu að hafa verið valdir til að bera ábyrgð á stofnfé sparisjóðs. — Húla, húla vífa fyrir Herði og Ásthildi og til hamingju með afmælið.

En fyrst ég var farinn að tala um skáta þá get ég ekki látið hjá líða að hrósa ungu skátafélögum mínum í Hraunbúum fyrir hátíðarhöldin á Sumardaginn fyrsta og sýnir vel hversu félög eins og skátafélagið standa undir trausti - þá þegar þeim er treyst fyrir því að sjá um atburði eins og hátíðarhöld sumardagsins fyrsta. Sama hvað Saga daganna segir, þá væri þessi dagur gleymdur ef skátar hefðu ekki þrammað um borg og bæi með aðstoð lúðrasveita með hálfu bæjarfélögin á eftir sér. Nýbreytni í hátíðarhöldunum í miðbænum mæltist vel fyrir og ótrúlegt hvað skátarnir gátu útvegað gott veður án þess að hafa fengið sérstaklega greitt fyrir það.

Skátafélagið Hraunbúar stendur styrkum fótum nú með góðan stuðning frá Hafnarfjarðarbæ og úrvals forystusveit ungs fólks sem hefur metnað, dug og áræðni til að halda úti öflugu og ekki síður skemmtilegu skátastarfi, húrra fyrir þeim.

Guðni Gíslason

 

21. apríl 2006, 16. tbl. 24.árg.

Af hverju er stjórnsýslukerfi Hafnarfjarðar ekki gæðavottað? Mér varð hugsað til þess eftir allt klúðrið með Ásland 3 og auglýsingu á aðal- og deiliskipulags Herjólfsgötu þegar framkvæmdum var næstum lokið. Hvað er að klikka?

Nú er talað fagurlega um að bæta á vef bæjarins svæði fyrir hvern bæjarbúa þar sem hann á að geta fylgst með öllum erindum sínum en verður afgreiðslan eitthvað hraðari? Fyrir ári síðan var kvartað yfir því að skrifstofurými hafi verið breytt í íbúð án tilskilinna leyfa og aftur ítrekuð kvörtun og þá var sent bréf. Enn er búið í skrifstofurýminu þrátt fyrir mótmæli annarra eigenda og ólöglegar breytingar standa enn. Þarf ekki að bæta stjórnsýsluna? Af hverju var bæjarstjóri að tala um að erfitt væri að henda hlutum sem íbúar hafa skilið eftir í leyfisleysi?

Það er svo skrýtið að ekki einu sinni skólar bæjarins starfa eftir vottunarkerfi. Mér er að vísu ekki kunnugt um nema einn skóla, Fjöltækniskólann sem hefur tekið upp slíkt kerfi en væri vel athugandi fyrir fræðsluráð.

Nú er kosningabaráttan komin á skrið og vonandi eru allir þeir sem eru á listum tilbúnir að starfa að því sem þeir verða kosnir til. Því miður er ekki alltaf svo. Það var hálf grátlegt að sjá frétt í DV á föstudaginn fyrir hálfum mánuði þegar þeir tóku tölur úr nýrri könnun Fjarðarpóstsins á netinu og vitnuðu í niðurstöðurnar eins og um fullvaxna skoðanakönnun væri að ræða. Virtust þeir apa eftir hálfvöknuðum sjónvarpsmönnum á NFS morgunninn áður sem lásu upp stöðuna án nokkurs fyrirvara. Skoðanakannanir þarf að nota með varúð og netkannanir eru til gamans gerðar og gera verður þær kröfur til stórra fjölmiðla að þeir noti þær rétt.

Guðni Gíslason

 

12. apríl 2006, 15. tbl. 24.árg.

Í síðustu viku ber hæst líflegt skipulagsþing. Ekki vegna þess að þarna hafi árangur af „samráði við íbúana“ verið að blómstra í sinni bestu mynd, heldur var þetta afrakstur af ótrúlegum klaufaskap svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Grassandi óánægja vilyrðishafa á Völlum 3 og skyldi engan undra því þeim var kynnt allt annað skipulag en nú er auglýst, og þá á fölskum forsendum. Undirrót þessarar óánægju má með sanni segja vera skort á upplýsingaflæði til bæjarbúa! Var ekki samráð eitt af kosningaloforðunum í síðustu kosningum? Einn af hornsteinum lýðræðisþjóðfélags er greið leið upplýsinga til íbúanna. Fundargerðir hinna ýmsu nefnda og ráða bæjarins ættu að vera einn þáttur að því markmiði en því miður er það ekki svo. Ég lofaði hér í þessu blaði fyrir all löngu að minnast ekki á lélegar fundargerðir hjá Hafnarfjarðarbæ fyrr en ég sæi að bót yrði á. Ég hef gefist upp á biðinni. Nú er kominn tími til að Hafnarfjarðarbær setji skýrar línur um ritun fundargerða og þá þarf að hafa að leiðarljósi af hverju fundargerðir eru skrifaðar og fyrir hverja. Við lestur fundargerða verða lesendur oft einskis nær um það sem fram fór á viðkomandi fundi. Dýrir embættismenn eru notaðir til að rita fundargerðir bæjarstjórnar sem að mestu byggist á að segja hverjir tóku til máls en ekki um hvað.

Fundargerðir um endurskoðun tillagna að deiliskipulags á Áslandi 3 eru gott dæmi um arfaslaka fundarritun. Þar gat ekki nokkrum manni dottið í huga að verið væri að stækka skipulagssvæðið, fjölga húsum og hækka. Ekkert af þessu gat heyrt undir lagfæringar á gatnakerfi eins og stóð í fundargerðum. Þegar svo gerðar eru athugasemdir við að bæjarstjórn taki ákvarðanir á grundvelli slíkra fundargerða er bent á að bæjarfulltrúar hafi fengið ítarlegri gögn! Af hverju fylgdu þau þá ekki fundargerðinni.

Nei, nú er mál að linni. Lærið að skrifa vandaðar fundargerðir!

 

Nú er framundan ein helgasta hátíð kristinna manna, páskarnir. Þó svo sé leggja landsmenn minni áherslu á hana en jólin. Föstudagurinn langi er þó í hugum margra sá dagur sem menn virða hvað mest. Vitneskjan um það að Kristur var krossfestur þann dag og tók á sig allar syndir mannanna er þess valdandi að menn virða þennan dag þó margir vilji helst sleppa honum sem helgidegi. Kannski veitir okkur ekki af alheilögum dögum þar sem við erum skikkuð til að taka okkur algjört frí og kannski fara í kirkju ef það er ekki til of mikils mælst.
Ég óska þér, lesandi góður, gleðilegrar páskahátíðar og hvet þig til að taka þátt í helgihaldi páskanna í kirkjum bæjarins.

Guðni Gíslason

 

5. apríl 2006, 14. tbl. 24.árg.

Farinn er heim síðasti hverfiskaupmaðurinn í Hafnarfirði en Guðlaugur Þórðarson, í verslun Þórðar Þórðarson á Suðurgötu 36 var jarðsettur á þriðjudag. Laugi var einn þeirra sem setti svip á bæinn og var verslun þeirra hjóna Lauga og Láru miðpunktur mannlífs í brekkunni þar sem ég naut þeirra forréttinda að kynnast mörgum af þeim eldri borgurum sem nær alla sína tíð bjuggu í nágrenni Laugabúðar þegar við hjónin hófum búskap í Illubrekku eins og brattasti hluti Suðurgötu kallaðist áður. Laugi sat lengi í stjórn Kaupmannasamtaka Hafnarfjarðar sem hafa legið í dvala um nokkurra ára skeið, en þau eru elstu kaupmannasamtök landsins. Það væri vel við hæfi að þau samtök væru endurreist í minningu gömlu hverfiskaupmannanna og gætu meginmarkmið þeirra verið að efla fræðslu starfsmanna í verslun og vinna að eflingu verslunarreksturs í bænum.

Miklar vangaveltur hafa verið um stöðu Gunnars Svavarssonar eftir kosningar, hvort S-listi missi mann og Gunnar falli út og einnig hvort hann stefni á þing. Þá hefur hann verið orðaður sem bæjarstjóraefni Haraldar Ólafssonar sem er kannski skemmtilegasta tilgátan. Þó er áhugaverðara að velta því fyrir sér hvort plottið sé flóknara, að það sé Lúðvík sem stefni á þing og að Gunnar verði þá ráðinn bæjarstjóri í hans stað, verði S-listinn þá í meirihluta. Verði ekkert af þessu hafi hann þá starf að hverfa til í fyrirtæki sínu, Aðalskoðun.

Já, það er margt að hugsa um í aðdraganda kosninga og mátti finna titring um slíkt á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag.

Guðni Gíslason

 

30. mars 2006, 13. tbl. 24.árg.

Leikfélag Hafnarfjarðar frumsýndi barnaleikritið Hodja frá Pjort um helgina. Troðfullt var á sýningu á laugardaginn og skemmtu leikhúsgestir sér konunglega enda leikritið einkar áhugavert og bráðskemmtilegt. Eiga þeir leikfélagsmenn heiður skilinn fyrir öflugt og metnaðarfullt starf.

Manni verður hugsað til stóra bróður á Strandgötunni sem milljónirnar renna í frá ríki og bæ. Hvað hefur gerst þar eftir að peningar voru tryggðir? Í húsinu sýnir Draumasmiðjan núna mjög áhugavert leikrit, Viðtalið sem enginn ætti að missa af, þó ekki nema til annars en að skyggnast inn í heim heyrnarlausra. 540 Gólf leikhús og SÁA sýna þar Hvað EF skemmtifræðslu, verk með mikinn boðskap um neyslu vímuefna og Hafnarfjarðarleikhúsið sýnir Himnaríki sem það sýndi fyrir 10 árum síðan. Ég á enn eftir að sjá það verk en ég missti af Mind Kamp sem Sokkabandið setti upp og segja mér vanir leikhúsmenn að þar hafi ég ekki misst af neinu. Þó ekki megi draga úr mikilvægi samstarfs Hafnarfjarðarleikhússins við þessa aðila þá situr eftir að leikhúsið hefur aðeins sett upp eina sýningu þetta leikár! Mér verður hugsað til eins af stofnendum Skype sem sagði að peningar gerðu ungum sprotafyrirtækjum oft ekkert gott. Menn hættu oft frjósamri hugsun þegar nægir peningar væru fyrir hendi.

Vonandi á starfið í Hafnarfjarðarleikhúsinu eftir að vaxa og dafna á næstu misserum og verða jafn frjósamt og það áður var og hvetja Hafnfirðinga til leiklistastarfsemi en fjörið er núna hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar sem fékk lítinn enda á jarðhæð í Gamla Lækjarskóla - Menntasetrinu við Lækinn. Þar dafnar það vel.

Guðni Gíslason

 

23. mars 2006, 12. tbl. 24.árg.

Mikið hljóta margir þingmenn að naga sig í handbökin yfir því að það er stjórn hryðjuverkaleiðtogans Bush sem virðist ætla að losa okkur við herinn. Meira að segja þeir sem mótmæltu veru hersins með þátttöku í Keflavíkurgöngunum hafa þagað og jafnvel barist gegn fækkun í herliðinu. Slíka menn eigum við ekki að hafa á þingi. En enginn kom með tillögu um uppsögn varnarsamningsins og brottför hersins. Og þrátt fyrir að nú sé ljóst að herinn fer þá eru varnarmál landsins ekki rædd af neinu viti. Aðeins atvinnumál á Suðurnesjum og nýting bygginga hersins. Engum virðist detta í hug að endurmeta þá áhættu sem er. Er hætta á innrás? Er hætta á hryðjuverkum? Ef svo er, hvað gætum við gert meira en tollayfirvöldum og lögreglu er ætlað? Hvernig tókst einu mesta herveldi heims til 11. september? Hörmulega. Her kemur okkur ekki að neinu gagni og varnartengsl okkar við Bandaríkin auka áhættu á hryðjuverkum svo mikið er víst. Enda eru hryðjuverk nútímans í formi greiningaskýrslna danskra banka sem eru hundfúlir yfir velgengni Íslendinga í Danmörku. Hagkerfi okkar þolir ekki fortölur nú frekar en þegar Davíð Oddsson talaði hagkerfið niður fyrir nokkrum árum, svo einfalt er það.

Ísland er sjálfstætt velmegandi ríki og á að geta staðið á eigin fótum og ekki þiggja ölmusur annarra. Við eigum að gefa þeim og styrkja sem illa eru staddir í heiminum, miklu meira en við gerum í dag. Varnir Hafnarfjarðar hafa verið tryggðar með grjótgörðum og gerast ekki betri. Ef við lifum í sátt og samlyndi við aðrar þjóðir og styðjum ekki hryðjuverkastarfsemi eins og Davíð og Halldór gerðu fyrir okkar hönd. Fari herinn fljótt – og þó fyrr hefði verið.

Guðni Gíslason

 

16. mars 2006, 11. tbl. 24.árg.

Virðingaleysi við lög og reglur virðist vera vaxandi vandamál hér í bæ allavega. Þetta sést á einföldum reglum sem nú þykir sjálfsagt að brjóta. Bærinn flýtur í alls konar rusli sem bæjarbúar henda frá sér þar sem þeir standa eða nenna ekki að hirða um að tryggja að vindurinn grípi ekki drasl í þeirra eigu. Og hvað gerum við? Jú, við kvörtum undan því að bærinn sé ekki hreinsaður! Er ekki nær að taka á orsök vandans? Virðingarleysi okkar við umhverfið. Við sjáum virðingarleysið hjá þeim sem leggja bílum sínum upp á gangstéttum og annars staðar þar sem bílum er ekki ætlað að vera, hjá þeim sem brjóta eigur annarra og bramla, hjá þeim sem aka of hratt, hjá þeim sem hugsa mest um eigin hag en minna um aðra.

Hver hugsar ekki um sjálfan sig? Hvar sest þú í kirkju eða á mannamótum? Þar sem best er að sitja, ég á að sitja á besta staðnum, ekki náunginn. Svona erum við bara, verum ekkert að neita því.

Hafnarfjarðarbær býr við úrelta lögreglusamþykkt og í áratug eða meir hefur staðið til að breyta henni og öll árin er hún búin að vera í vinnslu. Þarf ekki að bjóða verkið út? Hafnarfjarðarbær gæti tekið að sér eftirlit með stöðubrotum í bænum, allavega í miðbænum. Reykjavíkurborg og Akureyri hafa slíkt fyrirkomulag. Oft á tíðum er erfitt að fá stæði í miðbænum þar sem sumir nota stæði sem eðlilega ættu að vera fyrir viðskiptavini verslunar og þjónustu sem langtímastæði. Kannski ættum við að fylgja vinabæ okkar á Norðurlandi og taka upp tímaskífur eins og svo vel hefur reynst á Norðurlöndum og víðar í Evrópu. Þetta mætti eflaust einkavæða og kannski væri bara best að selja allan miðbæinn og fá þá nýríku til að skipuleggja miðbæinn upp á nýtt með úrvali verslana á heimsmælikvarða.

Guðni Gíslason

 

9. mars 2006, 10. tbl. 24.árg.

Sparisjóðsmálið er enn ekki horfið úr umræðum bæjarbúa. Nýr stjórnarformaður, sem ekkert á í Sparisjóðnum, segir til greina koma að sameina hann öðrum sparisjóði. Allir eru búnir að selja nema Helgi í Góu, maður með prinsipp, fyrrverandi einræðisherra SPH og stjórnarbyltingarmennirnir þó fullyrt sé að fé hafi verið lagt inn á reikninga fjögurra þeirra frá Lögmönnum Laugardal. Þvílík synd að fégræðgi manna sé svona mikil, jafnvel þrátt fyrir fögur orð eða hneykslan á gjörðum annarra. Hver kom söluferlinu af stað? Af hverju? Sparisjóður Hafnarfjarðar verður lítið annað en 100 ára sögubókin eftir nokkur ár, því spái ég þó ég voni annað.

Hitt málið, álverið í Straumsvík, sem hitnaði heldur betur undir þegar yfirlýsingar heyrðust um hugsanlega lokun versins ef ekki kæmi til stækkun. Svona gerir maður ekki. Bæjarstjóri hafði ýjað að því að kosning um stækkun væri vel möguleg. Er álrisinn hræddur við almenningsálitið? Álverið í Straumsvík hefur átt stað í hafnfirsku bæjarsálinni en hótanir, þó penar séu, fara illa í fólk - svona gerir maður ekki. Byggðaþróun Hafnarfjarðar breyttist vart þó álverið hyrfi, þar kæmi annar iðnaður og nýja iðnaðarsvæðið gegnt álverinu slítur í sundur íbúabyggðina ef menn stefna suður með ströndinni sem vart er vænlegur kostur næsta áratuginn, eða tugina. Það hlýtur að vera vænlegri kostur að þróa íbúabyggð upp með Krýsuvíkurveginum og gera alvöru ofanbyggðaveg eða bættan Bláfjallaveg að vænlegum kosti. Nei, Hafnfirðingar vilja enga mengun frá álverinu, hvorki í núverandi stærð eða stækkuðu, málaferli álrisans breyta þar engu og veikja aðeins tiltrú bæjarbúa á að mengunin sé eins lítil og af er látið.

Guðni Gíslason

 

2. mars 2006, 9. tbl. 24. árg.

Það eru að koma kosningar. Hvernig vissi ég það? Jú, það er verið vígja hvern fermetra sem tekinn hefur verið í notkun af bæjaryfirvöldum undanfarið hálft ár. Ekki ætla ég að pirra mig út í það, þetta er auðvitað bara tilviljun.

Sagt er að Gunnar sjötti svitni pínulítið yfir framboði Vinstri grænna sem setja feyki vinsælan kennara í Flensborg, körfuboltakynnir og forvarnarfulltrúa í fyrsta sæti. Ekki batni það hjá honum að vita til þess að annar forvarnarfulltrúi, Jón Páll Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Regnbogabarna sé í öðru sætinu. Það hefði kannski verið sniðugur leikur fyrir Sam­fylk­inguna að fá forvarnarfólk á listann sinn til að verja meirihlutann. Framsóknarmenn vilja bjóða fram með óháðum og auglýsa eftir slíkum hér í blaðinu. Kannski þar komi nýir frískir menn inn? Eða er þetta tákn um algjört mannahallæri hjá Framsókn? Það kemur í ljós.

Annars segja margir að það verði ekki um neitt að kjósa á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, báðir vilji álversstækkun og annað er í svipuðum gír, útlitsmunur frekar en innihaldsmunur. Því er spennandi að sjá hvort andstæðingar stækkunar álvers flykkist um VG, óháð því hvað þeir bjóði annað upp á en andstöðu við álversvirkjanir.

Ekki er ólíklegt eftir svona mikla fjölgun í bænum að pólitískt mynstur hafi breyst og óákveðið og áánægt fólk velji önnur framboð en Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk og verði þess valdandi að hvorugir nái sjötta manni inn, jafnvel annar ekki fimmta manni. Þá yrði bleik brugðið ef allra vinurinn Gunnar yrði ekki lengur í bæjarstjórn með sinn mikla pólitíska áhuga.

Guðni Gíslason

 

23. febrár 2006, 8. tbl. 24. árg.

Ég horfði á upptöku af Kompás á mánudagskvöldið og varð mjög brugðið. Hvernig geta menn leiðst út í svona nokkuð? Hvernig geta ungar stúlkur leiðst út í svona? Ég hafði engin svör og hef ekki enn. Þegar sögusagnirnar flugu svo um bæinn og fullyrt var hver einn þeirra sem leiddur var í gildru blaðamannanna væri, var undrun mín og í raun vonleysi algjört. Ef maðurinn er sá sem fullyrt var, og ég kannast við, þá er ekki mynd af honum í mínum huga sem glæpamanni og barnaníðingi. Alls ekki og þekki ég hann ekki af neinu nema góðu einu, maður með gott orðspor og fjölskyldu.

Þarna hljóta kenndir manna að leiða menn út fyrir það sem velsæmi og virðing manna leyfir almennt og ljóst að eitthvað þarf að gera til að aðstoða fólk sem lendir í þessari stöðu og helst með forvörnum, ef þær eru til, til að tryggja að þeir leiðist ekki út í brot á börnum. Ég get ekki sett mig í spor foreldra barna sem hafa lent í slíku en ég get vel skilið að reiðin taki þar völdin.

Hins vegar mega menn aldrei falla í þá gryfju að reyna að fremja manndómsmorð opinberlega með myndbirtingum, slúðri eða öðru því þá eru menn fallnir í sama brunn og meintur glæpamaður. Flestir eiga sér fjölskyldu, maka, börn og jafnvel barnabörn og þau hafa eflaust ekki neitt til sakar unnið og vitneskjan um brot fjölskyldumeðlims er eflaust gífurlegt áfall sem erfitt getur verið að takast á við.

Besta forvörn foreldra hlýtur að vera að tala við börnin sín, ekki tala til þeirra, heldur tala við þau um allt milli himins og jarðar. Þannig er hægt að leiða þau í sannleikann um gildi lífsins, sjálfsvirðingu og að þau hafi val í lífinu. Þannig getum við minnkað líkur á því að börnin okkar leiðist út í svona hrylling.

Hins vegar er aukinn hraði í lífi okkar þess valdandi að við höfum ekki nægilegan tíma með börnum okkar. Eru veraldleg lífsgæði þess virði? Varla. Sennilega er það að hluta til heppni að börnin okkar komast áfallalítið í gegnum unglingsárin. Betra væri að heppnin hefði lítið með það að gera og við gætum sagt að við, foreldrar auk kennara og annarra fyrirmynda barna okkar hefðum meira um það að segja.

Hægt er að horfa á kompásþáttinn 19. febrúar sl. á visir.is og hvet ég alla þá sem ekki hafa séð hann að skoða hann þar.

Guðni Gíslason

 

16. febrúar 2006, 7. tbl. 24. árg.

Sparisjóðurinn skilaði uppgjöri sínu á föstudaginn en sjóðurinn hefur verið á milli tannanna á fólki eftir hallarbyltingu sem gerð var sl. vor þar sem gamalt ættar- og klíkuveldi var steypt af stóli. Þó varð umræðan ekki heit fyrr en fréttist að menn seldu 300 þús. kr. stofnhlutir fyrir um 50 millj. kr. og þótt flestum nóg um enda höfðu sumir ekki átt hlutina í nema tvö ár og engar breytingar orðið á sparisjóðnum á þeim tíma.

Við fyrstu sýn var það mun minna framlag í afskriftarreikning útlána sem skóp um 400 millj. kr. meiri hagnað eftir skatta en að íhuguðu máli má ætla að starfslokasamningar og dómsmál hafi kostað sjóðinn nær 200 millj. kr. og hafi því líka haft veruleg áhrif.

Svo virðist sem umrótið í kringum Sparisjóðinn hafi ekki orðið til þess að viðskiptamenn hafi flúið sjóðinn því útlán aukast verulega og innlán aukast líka. Hlýtur það að vera ánægjuefni fyrir stjórnendur sjóðsins ekki síst ef væntingar um bættan árangur á þessu ári ganga eftir.

Þó vekur mesta athygli stærstu kaup Sparisjóðs Hafnarfjarðar frá upphafi en í gær var skrifað undir samning um kaup á 80% hlut í útibúi þýska tryggingar- og sjóðafélagsins Allianz á Íslandi. Það sem vekur enn meiri athygli er að Sparisjóður Kópavogs á hin 20%! Verður því spennandi að fylgjast með Sparisjóðnum á næstunni.

Í tengslum við niðurgreiðslur á þátttökugjöldum barna í æskulýðs- og íþróttafélögum kemur berlega í ljós hversu undarlega er staðið að stjórnsýslumálum æskulýðs- og íþróttamála í Hafnarfirði. Flokkadrættirnir eru áberandi, hvort íþróttafélag er í ÍBH eða ekki, hvort það heyri undir íþróttafulltrúa eða æskulýðs- og tómstundafulltrúa. Þá er enn furðulegra að sameinuð æskulýð- og íþróttanefnd heiti nú íþrótta- og tómstundanefnd ekki nema til þess að ná fram skammstöfuninni ÍTH (svipað og ÍTR). Kannski að menn þori að klára stjórnsýslubreytingarnar eftir kosningar því enginn tekur áhættusamar eða óvinsælar ákvarðanir rétt fyrir kosningar.

Fagna ber hækkun aldursmarks niðurgreiðslna en áhyggjur ættu menn að hafa af eftirlitsleysi með skráningum og þátttöku.

Guðni Gíslason

 

9. febrúar 2006, 6. tbl. 24. árg.

Ég hlustaði á útsendingu frá bæjarstjórnarfundi á þriðjudaginn, sem ekki er í frásögur færandi. Hann næst að vísu ekki á breiðbandinu svo lítið þýðir að reyna að nota útvörp sem tengd eru við loftnetskerfi í nýrri hverfum. Þjónustan er ekki betri en þetta en það er önnur saga.
Þar var all lengi fjallað um útitafl í miðbænum og menn jafnvel hvattir til að reikna út stærð á tafli ef reitirnir eru 60x60 cm. Ekki veit ég hvort bæjarfulltrúum tókst sá einfaldi útreikningur en það skondna við það mál var að kvartað var yfir að málið var illa undirbúið þegar það kom frá fræðsluráði til miðbæjarnefndar sem svo sendi það skipulags- og bygginganefndar, hvaðan bæjarstjórn tók málið upp á sínum fundi. Kvartað var yfir að þetta kostaði lengri umræðu. Samt var málinu ekki vísað til föðurhúsanna í endursmíði heldur tekið í gegnum allt kerfið og bæjarstjórn eyddi svo tíma á að ræða málið og ég eyði plássi í að skrifa um ferilinn. Þetta er stjórnsýsla í lagi.


Ég komst því miður ekki á sjálft þorrablótið sem haldið var í Kaplakrika á laugardaginn. Gestir þar segja það hafa verið mjög vel heppnað, fullt hús og mjög gaman. Eiga FH-ingar hrós skilið fyrir skemmtilegt framtak. Ég mætti hins vegar galvaskur á ballið á eftir eins og ég hef gert áður og hafði líkað mjög vel. Þarna hefur oft myndast skemmtileg sveitaballastemmning með þátttakendur á öllum aldri og geysilega mikið dansað. Nú brá svo við að meðalaldurinn var mun lægri og ölvun virtist mun meiri. Þegar á leið fór þetta versnandi og ég flúði heim. Ég ætla ekki að reyna að amast við að fólk drekki en hvað er það sem gerir að æska þessa lands þarf að drekka sig blindfulla til þess að geta farið að skemmta sér? Er þetta feimni? Enginn er skemmtilegur blindfullur, hvað þá þegar menn æla á gólfið. Er eitthvað í uppeldinu og skólakerfinu sem gerir það að verkum að íslenskir unglingar þora ekki á skemmtun nema útúrdrukkið? Sem betur fer eru margar undantekningar á þessu og við getum verið í heild stolt af æskunni en þessi óhóflega drykkja veldur mér áhyggjum. Auk þess var það alls ekki bara unga fólkið sem var útúrdrukkið — Fyrirmyndir?

Guðni Gíslason

 

2. febrúar 2006, 5. tbl. 24. árg.

Enn á ný koma upp umræður um hesthúsalóðir. Sörlamenn vilja veita sínum mönnum lóðir og segja ekki eiga að leysa vandamál hestamanna í öðrum bæjum. En eru kröfur um að Sörlamenn búi í Hafnarfirði? Varla. Það er fyrir löngu kominn peningur í hestamennskuna og ef ekki á að byggja „samyrkjuhesthús“ þar sem fólk leigir eða kaup/leigir bása þar sem önnur aðstaða er sameiginleg, er auðvitað rétt að bjóða þetta út og finna stað lengra frá bænum. Hestamennska er öðlingsíþrótt og börn og ungmenni sækja æ meira í hana en menn mega ekki tapa sér í stórhýsum og breiðum snjóruddum reiðvegum á sama tíma og vart er hægt að gera göngustíga nema hægt sé að monta sig af þeim í miðbænum. Ef Hafnarfjarðarbær getur haft tekjur af því að byggja upp hesthúsasvæði fyrir aðra en Hafnfirðinga, eiga þeir að gera það ef hagsmunum Hafnfirðinga er ekki fórnað. Hestamennska sem íþrótt byggist upp á öðru en að byggja flottustu hesthúsin með flottustu kaffistofunum.

Það er undarlegt með Garðbæingana, okkar góðu granna, hversu þeir sækjast í að byggja upp ný hverfi langt frá miðbæjarkjarna sínum og án tengsla við önnur svæði. Gott dæmi er Molduhraunið og væntanleg byggð við Setbergið og á Svínholti. Ekki kann ég skýringu á því og vart sækjast þeir eftir tengingu við okkar miðbæ sem er eins og tannlaust gamalmenni þar sem hvert verslunarrýmið af öðru er tómt og jólaþorp hafa þar engu um breytt. Hitt er víst að gatnakerfi á milli bæjanna er sprungið og biðraðir á álagstímum sýna það berlega. Vonandi að gamli Hafnfirðingurinn, Gunnar Einarsson verði þægilegri að eiga við en fyrirrennarar hans um gatnamál í gegnum Garðabæ.

Guðni Gíslason

 

26. janúar 2006, 4. tbl. 24. árg.

Þó maður sé nær Guði hátt uppi í fjöllum í fallegu veðri verður maður að viðurkenna að maður ber lotningu fyrir þjónum Guðs sem ætlað er að dreifa fagnaðarerindinu meðal oss. Það á líka við um presta Fríkirkjunnar í Hafnarfirði en ummæli mín í síðasta leiðara spruttu af einni setningu í afbragðsgóðri prédikun þeirra indælu presta, Einars og Sigríðar Kristínar - og einnig í ljósi frétta frá predikun fríkirkjuprestsins í Reykjavík. Það er gott að fá viðbrögð sr. Einars því auðvitað á að ræða undirstöðuna í þeirri trú sem við tilheyrum. Þó kemur sr. Einar ekki að kjarna málsins, forsendu trúarathafna. Kristin kirkja byggir á hinni heilögu ritningu, Biblíunni og hún er túlkuð á ýmsan hátt af þeim fjölmörgu kristnu kirkjum sem hér á landi starfa. Ég sé ekkert athugavert við að blessa fólk og hef aldrei gert athugasemdir við það. Mér finnst hins vegar að sterk rök gildi þegar blessa á það sem fólk gerir ef það er ekki í anda þess sem boðað er í hinni heilögu bók. Er sr. Einar tilbúinn að blessa fjölkvæni? Af hverju getur það ekki þótt eðlilegt eftir einhver ár? Kannski eru einhverjir sem ekki geta aðeins bundist einni manneskju og vill búa með tveimur? Þetta er alltaf spurning um mörkin. Fréttir bárust fyrir skömmu um að bandarísk yfirvöld vildu lækka samræðisaldur. Hvað þýðir það? Getur samræði fullorðins manns og barns (undir 18 ára) verið bæði eðlilegt og löglegt? Vill einhver prestur blessa það?

Mig hryllir bara við tilhugsunina um það hvert við getum verið að fara. Við eigum heimtingu á að prestar okkar upplýsi okkur vandlega um hvert stefnir og auðvitað gera þeir það að einhverju leyti þó svo kirkjusókn segi okkur að sú uppfræðsla þarf að fara líka eftir öðrum leiðum.

Ég vil biðja Guð að blessa störf prestanna og að halda við stýrið hjá þeim og mér. Allir erum við sköpun Guðs, en það sem við gerum er í okkar valdi.

Bestu kveðjur úr Dólómítafjöllunum, fallegri sköpun Guðs.

Guðni Gíslason

 

19. janúar 2006, 3. tbl. 24. árg.

Nú keppast menn um hylli homma og lesbía ef marka má messur Fríkirknanna í Hafnarfirði og í Reykjavík. Talað er um sálarheill fólks sem sé í voða fái það ekki blessun kirkjunnar á samband sitt. Nú er þjóðin orðin sannkristin, þykir mér.

Jafnréttisnefnd Hafnarfjarðar vill að kirkjan gefi saman í hjónaband tvo og tvo af sama kyni og ber við jafnrétti. Ég er vondur maður, ég leyfi mér að hafa mínar skoðanir. Ég get ekki séð að hjónaband eigi að gjaldfella á þennan hátt. Borgaraleg ferming var búin til fyrir þá sem ekki aðhyllast kristna trú - en samt þurftu menn að fermast? Af hverju fær hjónabandið ekki að vera í friði? Guð sagði, þegar hann hafði skapað mann og konu: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina“.

Guð veri með samkynhneigðu sem öðru fólki.

Loksins kom snjórinn, og truflaði okkur á sumardekkjunum og slitnu heilsársdekkjunum. Æpandi tæki ryðjast um göturnar og losa okkur við þennan óþverra og vegasalti er ausið á göturnar ef frosthörkur bjarga okkur ekki frá þeim ósóma. Gangandi vegfarendur þurfa helst mannbrodda og eldra fólki og fólki með barnavagna er ekki ætlað að fara út fyrir hússins dyr á meðan „óveðrið“ dynur yfir því aðeins tveir 16 ára gamlir traktorar eru til taks til að ryðja allar gangstéttar bæjarins og sér hver heilvita maður að þeir duga skammt þó viljinn sé góður. Því skulu allir út á götu gangandi sem akandi og við biðjum fyrir því að enginn slasist.
Væri ekki nær að ryðja gangstéttar og stíga fyrst og göturnar svo á eftir. Stóru svínabændabílarnir með pöllunum eru margir hverjir bara með afturdrifi og komast hvort eð er ekkert þegar snjóar og tveir jafnfljótir og strætó gætu þjónað vel núna.

Guðni Gíslason

 

12. janúar 2006, 2. tbl. 24. árg.

Sem betur fer sé ég ekki oft DV en forsíðurnar sér maður helst í auglýsingum í Fréttablaðinu þar sem hver einstaklingurinn á fætur öðrum er „tekinn af lífi“. Ég veit ekki hvaða mann þeir hafa að geyma sem skrifa þessar svo kölluðu fréttir, en ég gæti ekki sofið eftir að hafa komið slíku á prent. Ég gæti heldur ekki litið í augun á nokkrum manni. Nýjasta útspilið hjá blaðinu, þar sem skrifað er: „Einhentur kennari sagður nauðga piltum“, og einstaklingurinn nafngreindur með mynd, virðist hafa hrakið manninn í dauðann, en hann fannst látinn eftir að hafa tekið eigið líf eftir að blaðið kom út. Ásakanir á hendur manninum voru ekki sannaðar en samt sáu ritstjórar blaðsins ástæðu til að nafn- og myndgreina manninn á forsíðu blaðsins.

Ef þetta er blaðamennska vil ég ekki kalla mig blaðamann.

Kannski er græðgin í frægð og fé að fara með okkur. Ekkert er okkur lengur heilagt, við brjótum lög og reglur eins og ekkert sé og þiggjum starfslokasamninga sem eru ekki í neinu sambandi við raunveruleikann. Einhver hefði haldið að fólk væri keypt til starfa en ekki verðlaunað fyrir að hætta. Kannski völdum við ekki frjálsræðinu, sennilega af því að við gleymum manngildishugsjónum allra trúarbragða. Ég fordæmi skrif DV – en þau væru ekki skrifuð ef enginn keypti blaðið. Látum fordæmingu okkar í ljós með því að kaupa ekki blöð sem flytja slíkan sora. Þessi sori er skrifaður til að selja blaðið og kaupendur bíta á agnið!

Lesendur blaða eiga að segja álit sitt á fréttaflutningi og efnisvali blaðanna því þau eru skrifuð fyrir lesendurna. Ef viðbrögð lesenda eru engin, eru sölutölur eða lestur eina viðmiðið sem eigendurnir hafa. Látum ekki bjóða okkur hvað sem er.

Guðni Gíslason

 

5. janúar 2006, 1. tbl. 24. árg.

Gleðilegt ár og kærar þakkir fyrir liðna tíð.

Allt þenst út, Hafnarfjörður þenst út, tískubílarnir verða stærri og stærri, starfslokasamningarnir gildna og meira að segja alheimurinn þenst út ef ég á þá að skilja hvernig óendanlega stórt verður enn stærra. Einstaklingarnir sem þenjast út kaupa sé nú kort í líkamsræktarstöðvum og sprikla sem aldrei fyrr og einhverjum tekst að minnka á ný en samviskan er a.m.k. friðuð.

Kosningar til sveitarstjórna verða í maí og mun umræða í bænum litast eitthvað af því á næstu mánuðum. Guðmundur G. Gunnarsson bæjarstjóri nágranna okkar á Álftanesi ætlar að ljúka við gerð mjög umdeilds deiliskipulags á nýju miðsvæði en fresta framkvæmdum fram yfir kosningar svo kjósa megi um deiliskipulagið.
Við Hafnfirðingar höfum ekki mikið verið að skipta okkur af eigin skipulagsmálum og allra síst aðalskipulagsmálum. Þess vegna var blokkum klesst utan í Ásfjallið, þess vegna þrengir byggð að Ástjörninni, þess vegna er stór spennistöð í miðri íbúðabyggð á Völlum og þess vegna erum við í vandræðum með safn- og stofngötur í bænum. Bæjarbúar hafa reynsluna og námd við viðfangsefnin og eiga að koma skoðunum sínum á framfæri svo starfsfólk bæjarins geti nýtt þær við vinnu sína.

Vilja Hafnfirðingar stækka bæinn með því að byggja sunnan Straumsvíkur eða vilja menn byggja lengra upp með Krýsuvíkurveginum í átt að útivistarsvæðunum? Hvort vilja menn samfellda eða sundurslitna byggð? „Íbúaþing“ um skipulagsmál mættu gjarnan vera á hverju ári og hver veit nema stjórnmálaflokkarnir lofi íbúaþingum - eins og síðast.

Hafnarfjörður fyrir Hafnfirðinga – hvaðan sem þeir koma.

Guðni Gíslason.

 

12. janúar 2006, 2. tbl. 24. árg.

Sem betur fer sé ég ekki oft DV en forsíðurnar sér maður helst í auglýsingum í Fréttablaðinu þar sem hver einstaklingurinn á fætur öðrum er „tekinn af lífi“. Ég veit ekki hvaða mann þeir hafa að geyma sem skrifa þessar svo kölluðu fréttir, en ég gæti ekki sofið eftir að hafa komið slíku á prent. Ég gæti heldur ekki litið í augun á nokkrum manni. Nýjasta útspilið hjá blaðinu, þar sem skrifað er: „Einhentur kennari sagður nauðga piltum“, og einstaklingurinn nafngreindur með mynd, virðist hafa hrakið manninn í dauðann, en hann fannst látinn eftir að hafa tekið eigið líf eftir að blaðið kom út. Ásakanir á hendur manninum voru ekki sannaðar en samt sáu ritstjórar blaðsins ástæðu til að nafn- og myndgreina manninn á forsíðu blaðsins.

Ef þetta er blaðamennska vil ég ekki kalla mig blaðamann.

Kannski er græðgin í frægð og fé að fara með okkur. Ekkert er okkur lengur heilagt, við brjótum lög og reglur eins og ekkert sé og þiggjum starfslokasamninga sem eru ekki í neinu sambandi við raunveruleikann. Einhver hefði haldið að fólk væri keypt til starfa en ekki verðlaunað fyrir að hætta. Kannski völdum við ekki frjálsræðinu, sennilega af því að við gleymum manngildishugsjónum allra trúarbragða. Ég fordæmi skrif DV – en þau væru ekki skrifuð ef enginn keypti blaðið. Látum fordæmingu okkar í ljós með því að kaupa ekki blöð sem flytja slíkan sora. Þessi sori er skrifaður til að selja blaðið og kaupendur bíta á agnið!

Lesendur blaða eiga að segja álit sitt á fréttaflutningi og efnisvali blaðanna því þau eru skrifuð fyrir lesendurna. Ef viðbrögð lesenda eru engin, eru sölutölur eða lestur eina viðmiðið sem eigendurnir hafa. Látum ekki bjóða okkur hvað sem er.

Guðni Gíslason

 

 

 

 

online web analytics
site tracking