|
|
Leiðarinn: Guðni Gíslason
|
Hafnfirska bæjarblaðið - frá 1983 22. desember 2005, 49. tbl. 23. árg. Allt árið er beðið eftir jólunum. Þau eru viðmið ársins, í raun meira en áramótin. Lang flestir halda jól en alls ekki flestir af trúarlegum ástæðum og eru pakkar og veraldleg gæði í hávegum höfð og stressið er mikið fyrir jólin. Gleðileg jól, Guðni Gíslason. 15. desember 2005, 48. tbl. 23. árg. (200. leiðari ritstjórans) Það eru tímamót í dag hjá okkur Fjarðarpóstsmönnum því þetta er tvöhundraðasta blaðið sem við gerum, núverandi útgefendur á rétt rúmum fjórum árum. Þetta er því tvöhundraðasti leiðarinn, þó stefnan hafi verið tekin í upphafi að skrifa ekki slíkan. Svona fer ekki allt eins og ætlað er. Útgáfa blaðsins hefur gengið vel, þrátt fyrir að tvö dagblöð og eitt vikublað hafi komið inn á markaðinn síðan í harðri samkeppni, og í raun mun betri en ætla mætti. Þeim hafnfirsku fyrirtækjum og stofnunum sem nýtt hafa sér auglýsingamátt blaðsins er þakkað ánægjulegt samstarf en það eru auglýsendurnir sem gera útgáfuna mögulega. Fjarðarpósturinn á sér mun sterkari sess í hugum Hafnfirðinga en mig óraði fyrir í upphafi. Hafnfirskir lesendur eru flestir tryggir sínu bæjarblaði og þær eru ófáar hringingarnar frá bæjarbúum sem hafa verið að benda á umfjöllunarefni. Eitt ánægjulegasta við ritstjórn þessa blaðs eru öll þau samskipti sem undirritaður hefur átt við bæjarbúa og aðra sem átt hafa samskipti við blaðið og stuðningur og hvatning lesenda er ómetanlegur. Hafnfirðingar halda hópinn og eru að mörgu líkir Akureyringum. Við viljum hafnfirskt og hvað er hafnfirskara en Fjarðarpósturinn, eina hafnfirska vikublaðið? Framtíð Fjarðarpóstsins er björt og sóknarfærin eru mörg. Ekkert kemur í staðinn fyrir bæjarblað, borið heim í hús. Þrátt fyrir komu internetsins hefur ekkert lát verið á blaðaútgáfu þó mikil samkeppni hafi gert það að verkum að gífurlegs aðhalds er þörf í rekstri. Fjarðarpósturinn er einn af menningarstólpum Hafnarfjarðar, gefur púlsinn á mannlífið og hefur sinnt listastarfsemi í bænum, mun meira en ætlast má til, án þess að njóta neinna styrkja. Kærar þakkir fyrir þennan áfanga. Verið í Guðs friði, Guðni Gíslason.
8. desember 2005, 47. tbl. 23. árg. Það ríkir mikil bjartsýni og ánægja meðal þeirra sem stjórna bænum okkar. Útkomuspá fyrir yfirstandandi ár gera ráð fyrir góðu ári þar sem veltufé frá rekstri verði 5,7% af tekjum á móti 2,5% árið 2004 en afkomu fyrir fjármagnsliði upp á 527 millj. kr. Það má skoða saman með nýjum tekjustofni, sölu á byggingarrétti sem nemur 542 millj. kr. í ár. Ekki er annað hægt að sjá í fljótu bragði en að ytri aðstæður í bland við aðhald og góða fjármálastjórn skapi góðan árangur í rekstri sveitarfélagsins. Menn geta svo endalaust deilt um það hvort fyrri meirihluti eigi einhvern heiður af. Það er hlutskipti bæjarfulltrúanna núna í jólamánuðinum að fara ofan í saumana á fjárhagsáætlun fyrir næsta ár og eru þeir ekki öfundsverðir af því en fyrri umræðu um fjárhagsáætlunina lauk á þriðjudaginn. Vonandi fá þeir, sem aðrir, tækifæri til þess að muna eftir helgihaldi jólanna sem leynist innan um öll jólaljósin og skreytingarnar og brjálæðislegra innkaupa. Allt er þetta í hrópandi ósamræmi við jólaguðspjallið sem við lesum fyrir börnin okkar á aðfangadag. En við látum ekki segjast og komust ekki í jólaskap fyrr en búið er að eyða um efni fram. Helgi og kyrrð kirknanna er aldrei betur þegin en nú í jólamánuðinum þar sem krossinn, tákn kristinnar trúar sést aðeins á kirkjunum og á einstaka djásni. Við treystum á prestana, boðbera trúarinnar til að halda að okkur boðskap jólanna. Jólavökur eru haldnar í kirkjunum og þangað er gott að koma að loknu annríki dagsins. Farið í Guðs friði, Guðni Gíslason.
1. desember 2005 - 46. tbl. 23. árg. Nú er aðventan gengin í garð með fögrum hugsunum og brjálæðislegum kaupum og stressi. Kirkjur bæjarins bjóða upp á fjölbreytta dagskrá í desember og mörgum finnst gott að setjast inn í helgidóm trúarinnar og slaka á og minnast raunverulegs tilgangs jólanna. Hvort búið verði að mála eða setja hillur í geymsluna tekur enginn eftir þegar jólailmurinn angar á aðfangadagskvöld og fólk hlýðir á jólaguðspjallið. Heimilisfólkið dettur svo útaf í jólapappírsflóðinu, dauðþreytt eftir undirbúning jólanna, sem eru svo búin áður en maður veit af. Lífið er ekki kapphlaup, segir í ensku ljóði og minnir á að lífið er til að lifa því á hverri stundu. Thorsplanið er nú vettvangur verslunar sem á að gefa okkur jólatilfinninguna. Sumir láta sér nægja að labba um og skoða en aðrir þurfa að kaupa til að ná hinni réttu jólatilfinningu. En Thorsplanið á vonandi eftir að verða rós á Strandgötunni sem er í dag eins og óhirt blómabeð. Íslandspóstur er nú farinn með flokkunarstöðina sína úr gamla pósthúsinu og þar gæti komið verslun eða þjónusta. Enn á ný skora ég á bæjaryfirvöld eða frambjóðendur að beita sér fyrir því að halda samkeppni um útfærslu á miðbæ Hafnarfjarðar og skilgreina svæðið stórt. Óþolandi eru þetta bútaskipulag sem tíðkast og erfitt að fá skemmtilega heildarmynd. Áhugavert væri að leita til stórra verktaka eða rekstraraðila um uppbyggingu miðbæjarins en þörf er á sterkum og öflugum verslunum á Strandgötuna. Tilvalið er fyrir sjálfstæðismenn að selja eða leigja Sjálfstæðishúsið undir flottan fiskiveitingastað og gamla Sjóvárhúsið má gera upp í upprunalegri mynd og byggja við hlið þess á klettinum, þar sem áður var hús með hlöðuþaki. Kletturinn má halda sér að hluta sem framhlið neðstu hæðarinnar. Möguleikarnir eru margir og koma best fram í vandaðri og metnaðarfullri samkeppni. Hver ætlar að halda hana? Guðni Gíslason
24. nóvember 2005 - 45. tbl. 23. árg. Það lifnaði heldur betur yfir Sjálfstæðisflokknum í eldfjörugu prófkjöri. Ég hef gagnrýnt þessi lokuðu prófkjör og kýs ekki í prófkjörum nema þátttaka sé án allra skuldbinginga eða loforða. En fjölmargir af þeim 1250 sem gengu í Sjálfstæðisflokkinn hafa örugglega ekki látið inngöngubeiðni í flokkinn aftra sér að styðja sinn mann enda var óspart smalað. Niðurstöðurnar voru kannski ekki mjög óvæntar nema það hversu yfirburðir Haraldar voru miklir þó svo Valgerður hafi fengið ágæta kosningu í annað sætið en ýmsir höfðu spáð að sá sem tapaði forystuslagnum gæti endað í 3. sæti. Rósa Guðbjartsdóttir fékk mikinn stuðning og kannski sannaðist einu sinni enn hversu gott það er að hafa verið í fjölmiðlum, ekki síst sjónvarpi. Listi Sjálfstæðisflokksins er sennilega mun sterkari nú en oft áður og er ekki að efa að þarna fer kjarnorkufólk sem tilbúið er að berjast fyrir sínum málsstað, hver svo sem stefnuskrá flokksins verður. Brotthvarf Valgerðar kom ekki mjög á óvart eftir yfirlýsingu hennar í útvarpsviðtali í síðustu viku en þó hefði afsögn verið líklegri ef hún hefði endað í þriðja sæti. Valgerður hafði mikið fylgi og brotthvarf hennar veikir listann eitthvað en kemur kannski í veg fyrir núning á milli efstu manna sem einkenndi flokkinn síðustu ár. Ásakanir og sögusagnir sem gengu í prófkjörinu voru mönnum ekki til framdráttar og á stundum með ólíkindum. Enginn hlýtur brautargengi með því að niðurlægja aðra en oft getur verið erfitt að hemja kröftuga stuðningsmenn sem vilja til mikils vinna. Á meðan 885 atkvæði eru á bak við 5. manninn eru ekki nema 177 atkvæði á bak við val 5. manns á lista Samfylkingar. Verður fjör í vor í kosningunum? Hver veit? Guðni Gíslason
17. nóvember 2005, 44. tbl. 23. árg. „Vorn hörundslit og heimalönd, ei hamla látum því, að bræðralag og friðarbönd vér boðum heimi í.“ Þetta sungu skátar og gestir þeirra á 80 ára afmæli skátafélagsins Hraunbúa og „Nú saman tökum hönd í hönd og heits þess minnumst við, að tengja saman lönd við lönd og líf vort helga frið.“. Stjórnmálamaður sagði mér eftir að hafa sungið Bræðralagssöng skáta, sem þessar tilvitnanir eru úr, að um hann hafi farið gamli skátafiðringurinn og mættu fleiri stjórnmálamenn og fólk sem vinnur að tómstundastarfi hugsa til skátahreyfingarinnar þegar þeir huga að forvarnarstarfi, uppbyggilegu æskulýðsstarfi og friðarstarfi, enda er skátahreyfingin stærsta friðarhreyfing í heimi. Til hamingju með 80 ára afmælið allir hafnfirskir skátar, fyrr og síðar. Nú er prófkjör Sjálfstæðisflokksins á laugardag og taugatitrings gætir meðal frambjóðenda og stuðningsmanna. Sumir hafa reynt að búa til lista og jafnvel boðið fleirum en einum sama sætið en allar slíkar tilraunir til listamyndunar grafa undan virkni prófkjörsins og bera ekki vott um lýðræðislegan þroska. Í framhaldi af framboðsfundum flokkanna finnst mér undarlegt að ekki sé fyrst sest niður og stefnuskrá flokkanna mynduð fyrir næst 4 árin og þá fyrst ætti að halda prófkjör þar sem fólk er valið til að koma málefnum flokksins áfram. Karlmenn, sem ekki eru eða vilja vera flokksbundnir, en vilja vera með í að velja sterkt fólk í forystu Sjálfstæðisflokksins geta útfyllt inntökubeiðni og merkt við Sjálfstæðisfélagið Vorboðann og fengið að kjósa. Inntökubeiðninni yrði að öllum líkindum hafnað þar sem Vorboðinn er kvenfélag. Guðni Gíslason
10. nóvember 2005, 43. tbl. 23. árg. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að tala um þátttöku bæjarbúa í stjórnmálum og vali fólks sem á að stjórna þessum bæ. Báðir stóru flokkarnir kusu að hunsa hinn almenna borgara sem er fyrir löngu búinn að sjá að það er enginn munur á flokkunum í raun heldur bara hvaða fólk velst til starfa hverju sinni. Samfylkingin hélt lokað prófkjör, bannaði auglýsingar og kynningarbæklinga enda fór svo að einungis 37% þeirra samfylkingarfélaga sem voru á kjörskrá kusu. Ekki var verið að berjast um efsta sætið svo eðlilegt er að áhuginn er minni en ella en fyrr má nú vera. Hugsið ykkur að 177 atkvæði virðast duga til að komast í bæjarstjórn Hafnarfjarðar ef ekki fer mjög illa fyrir Samfylkingunni í næstu kosningum. Það fer ekki mikið fyrir samráðinu við bæjarbúa og ég blæs á þau rök að það séu haldbær rök að einungis þeir sem starfa í félaginu eigi að velja. Þetta er ekki eins og venjulegt félag, þetta eru valmöguleikar kjósenda því ekki getur einstaklingur boðið sig fram, hvað þá geta kjósendur kosið af fleiri en einum lista. Annars ætla ég ekki að ergja mig á þessu, Sjálfstæðisflokkurinn kaus líka lokað prófkjör þar sem sumir frambjóðendur þurftu meðmæli flokksmanna en aðrir ekki. Báðir flokkarnir sögðust vera að forðast smölun og því hafi lokuð prófkjör verið valin. Góður þessi! Auðvitað smöluðu frambjóðendur Samfylkingarinnar eins og óðir væru og svo gerist líka með Sjálfstæðismönnum. Gerðu menn það ekki væru þeir engir baráttumenn og ættu ekkert erindi í bæjarstjórn. Enn einu sinni hafnaði Samfylkingin kröftum „Eyjólfs áttunda“, manns sem hefur unnið geysilega mikið fyrir flokkinn, borið af sem bæjarfulltrúi í forföllum en þar hafa flokksmenn greinilega ákveðið að hafa hann. Hvað skyldi þurfa til í pólitíkina? Guðni Gíslason
3. nóvember 2005, 42. tbl. 23. árg. Um 9% unglinga í 10. bekk á Íslandi hafa prófað hass! 8% unglinga í 10. bekk í grunnskólum Hafnarfjarðar hafa notað hass þrisvar sinnum eða oftar um ævina. Þessi tala var 7% í fyrra, 8% árið 1997 en 17% árið 1998! Þetta eru óhuggulega háar tölur og þó við getum þakkað minni drykkju hafnfirskra unglinga í ár þá er þetta staðreynd sem við foreldrar verðum að horfast í augu við. Tveir í hverjum bekk hafa notað hass þrisvar eða oftar! Fleiri hafnfirskir 10. bekkingar reykja daglega en aðrir á höfuðborgarsvæðinu þó bilið fari minnkandi og reykingar hafi minnkað um 20% frá því í fyrra. Vöknum foreldrar og vinnum saman gegn reykingum og hvetjum börnin okkar að setja sér meðvitaða stefnu að prófa „aldrei“ að nota hass. Áróður gegn tóbaksnotkun hefur verið máttlaus og tilviljunarkenndur á undanförnum árum og nokkuð hörð gagnrýni beinist nú að Lýðheilsustöð sem sé orðin bákn og hafi misst tengsl við grasrótina. Það er ljóst að tími var kominn á að sameina krafta allra forvarnarhópanna en lausnin er ekki að búa til fjarlæga stofnun. Ef svo ótrúlega vildi til að unglingur lesi þetta, þá skora ég á þig að vinna með félögum þínum að því að útrýma reykingum í þínum bekk og að unglingar setji sér markmið að byrja aldrei að reykja. Reykingar einar sér eru nógu slæmar til þess að forðast þær. Þær auka gjarnan líkur á öðrum vandamálum og þeir sem ekki reykja, prófa síður hass og önnur fíkniefni en þeir sem reykja. Birgir í Súfistanum fær hrós fyrir að útiloka reykingar, þó ekki sé nema bara í hádeginu. Allir sem fara að tóbaksvarnarlögum fá hrós. Bónus fær hrós fyrir að selja ekki tóbak, af hverju fylgja ekki fleiri á eftir? Vinnum öll saman gegn tóbakinu sem enginn í raun vill. Guðni Gíslason
27. október 2005, 41. tbl. 23. árg. Þar sem kosningaundirbúningurinn er nú kominn í gang og stjórnmálamenn setja sér stefnur og markmið er ekki úr vegi að dusta rykið af „baráttumáli“ mínu um byggingu ráðhúss í Hafnarfirði, húsi fólksins. Við eigum gamalt ráðhús, fyrsta sérbyggða ráðhús landsins. Húsnæðið er alltof lítið og starfsemi Hafnarfjarðarbæjar og stofnana er dreifð um bæinn og flutningur, endurbyggingar og tilfærslur hafa verið áberandi á undanförnum árum og kostnaður við slíkar tilfærslur er alltaf verulegur. Nú er kominn tími til að Hafnfirðingar reisi sér glæsilegt ráðhús sem verði hús fólksins þar fjölbreytt starfsemi fari fram. Bókasafnið verði þar og fari úr vonlausu húsnæði og sameinist upplýsingamiðstöðinni í margmiðlunarsetri, aðstaða verði þar til sýninga, fyrirlestra og húsið verði þannig úr garði gert að fólk eigi þangað fjölbreytt erindi og jafnvel nýti það á leið sinni í gegnum bæinn. Ég er orðinn langþreyttur á smásálarhætti okkar bæjarbúa og nú er kominn tími til að hugsa stórt. Ef það er tími til þess nú, þá er það sennilega aldrei. Vel mætti hugsa sér húsið út frá Fjarðargötunni og nýi göngustígurinn lægi í gegnum húsið. Kannski gæti þetta orðið fyrsta ráðhús heimsins í víkingastíl en Hafnarfjarðarbær hefur lítið sem ekkert tekið upp og unnið út frá hugmyndavinnu Jóhannesar í Fjörukránni og t.a.m. finnst ekkert víkingahringtorg í bænum (sem gæti litið út eins og skjöldur) né gata sem kennd er við víkinga. Lífið er meira en FH og Haukar, grasvellir og parket. Nú er kominn tími til að Hafnfirðingar hugsi stórt og framkvæmi stórt en til þess þarf samstöðu stjórnmálamanna án tillits til flokkslitar. Frambjóðendur: „De som lar små ting hæfte sig - lar ikke store ting efter sig.“ (Piet Hein). Guðni Gíslason
20. október 2005, 40. tbl. 23. árg. Nú er ljóst að einungis 11 manns gáfu kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og einn frambjóðandinn náði ekki nógu mörgum meðmælum innan flokksins svo það eru 10 sem bjóða sig fram í 10 sæti. Kjörstjórn mun eflaust kalla til fleiri á listann, ef ekki í prófkjörið þá gerir hún það á framboðslista flokksins. Spennandi verður að sjá hversu áhugasamir Samfylkingarmenn verða fyrir sínu prófkjöri en ef marka má fjölda nafna sem orðuð hafa verið við prófkjör er áhuginn þar eitthvað meiri. Þó er ljóst að ótrúlega lítill áhugi virðist vera fyrir flokkspólitísku starfi í bænum, ekki síst meðal yngri kynslóðarinnar. Er það umhugsunarefni fyrir forystumenn flokkanna og ekki óeðlilegt að þeir leiti leiða til að hvetja til þátttöku og gera starf að velferðarmálum bæjarins áhugaverðara. Sennilega hefði verið réttara að leggja til niðurgreiðslu á starfi pólitískra samtaka til að hvetja sem flesta til að sýna málefnum bæjarfélagsins áhuga. Málefni stúlknanna á Hringbrautinni sló alla illilega og segir okkur hversu mikilvægt það er að við sýnum umhyggju og ábyrgð hvert á öðru. Þegar fólk segir að svona geti ekki gerst í dag fyllist ég efa því andvaraleysi hefur aukist og hver þykist hafa nóg með sig. Ekkert þjóðfélag þrífst án samfélagslegrar samábyrgðar sem virðist vera á undanhaldi í peningastjórnunarkerfi samtímans þar sem peningar eru orðnir aðaldrifkrafturinn. Ef okkur er ekki umhugað um náungann er hætta á ferðum. Heimsfriður byrjar heima hjá okkur, hann næst ekki í samningaviðræðum heimsveldanna ef það er ekki friður á heimilunum. Gangið á Guðs vegum. Guðni Gíslason
13. október 2005, 39. tbl. 23. árg. Þjónustugjöld bankanna hafa farið fyrir brjóstið á mörgum enda ekki að undra þar sem ótal gjöld eru lögð á en vaxtamunurinn helst enn fáránlega mikill. Fyrirtæki og stofnanir hafa svo reynt að skýla sér á bak við bankana þegar þau innheimta seðilgjald af reikningum sem koma í formi gíróseðils eða greiðsluseðils. Rukka þau gjarnan meira en kostar að prenta og senda út seðlana en aldrei tíðkaðist að rukka fyrir útsenda reikninga enda fer greiðsla fram við framvísun reiknings. Meira segja kostar að nota debetkort á meðan alls kyns fríðindi fylgja því að fá lánaða peninga með kreditkortinu og engin færslugjöld eru tekin. Nei, það er ekki öll vitleysan eins. Því kom það úr hörðustu átt þegar jafnaðarmannaflokkurinn, Samfylkingin lagði til og fékk samþykkt 1.000 kr. umsýslugjald fyrir hverja innlagða lóðarumsókn vegna þess að eðlilegt sé, þegar fjöldi umsókna sé svo mikill, að taka þóknun fyrir! Er það neytandans að gjalda fyrir að lóðaframboð er ekki nægilegt? Ef greiða á fyrir þjónustuna má allt eins spyrja af hverju ferðamenn sem koma í þjónustuverið greiða ekki fyrir veitta þjónustu þar. Þó gjaldið sé ekki hátt þá sýnir þetta smekkleysi bæjarfulltrúa. Hvað kemur næst? Er ekki eðlilegt að taka upp umsýslugjald á stjórnmálaflokka sem bjóða fram til bæjarstjórnar. Það er aldeilis verk að halda kosningar. Þetta gerist þrátt fyrir orðaða sterka stöð bæjarsjóðs, svo sterka að Sjálfstæðismenn viðurkenna það og leggja til að tómstundastarf 17 ára og yngri verði niðurgreitt ámóta og nú er gert fyrir 10 ára og yngri. Ekki er þá fjárskorturinn. Hafnarborg hækkaði aðgangseyrir sinn fyrir skömmu til samræmis við önnur sambærileg söfn! Væri ekki nær að bjóða bæjarbúum frían aðgang að menningunni sem þeir greiða fyrir með sköttum sínum? Þá samþykktu níu bæjarfulltrúar (enginn var á móti) að leggja á nýtt gjald fyrir byggingarrétt. Við þetta hækkar kostnaður þeirra sem ætla að byggja einbýlishús um a.m.k. 50%. Þeir efnaminni virðast geta klárað þetta, segir bæjarstjóri og treystir á að bankarnir láni og hirði svo allt saman fyrir rest. Ekki veit ég hvað hægri og vinstri er lengur í pólitíkinni. Líklega er öruggast að leggja sem flest gjöld á til að menn geti átt fyrir kosningaloforðunum. Það er ekki að furða þó flokkarnir kjósi báðir að fara í lokuð prófkjör. Almenningur getur ekki verið hress. Guðni Gíslason
6. október 2005, 38. tbl. 23. árg. Nú er grín hlaupið í prófkjörsmál Sjálfstæðisflokks en grínistinn Magnús Ólafsson skráði sig í flokkinn og gaf kost á sér í fyrsta sæti á lista flokksins. Hvort aðrir fari að dæmi hans skal ósagt látið en auðvitað er það skemmtilegra fyrir flokksbundna Sjálfstæðismenn sem kjósa í prófkjörinu þann 19. nóv. nk. að hafa úr mörgum að velja. Gamall Garðhreppingur hafði samband við mig eftir síðasta leiðara og sagði að í Garðahreppi hafi 3/4 hlutar kjósenda verið Sjálfstæðismenn og slæðingur af öðrum. Þrátt fyrir það var oddviti ávallt kjörinn Framsóknarmaðurinn Björn Konráðsson með öllum atkvæðum nema einu, enda Björn heiðursmaður. Skemmtilegt til þess að vita að flokkslínur hafa ekki alltaf ráðið ferðinni. Samfylkingarmenn hafa ekki tekið ákvörðun um röðun á lista og ætla ekki að gera það fyrr en úrslit úr sameiningarkosningunum liggja fyrir. Stjórn flokksins hefur þó tillögu tilbúna ef sameiningin verður felld en formaður flokksins vildi ekki gefa upp hver hún væri. Ekkert hefur heyrst frá Vinstri grænum eða Framsóknarmönnum og óvíst hvort þessir flokkar bjóði sig fram. Annars datt mér í hug hvort ekki væri sniðugt að skrá sig í alla flokka sem byðu sig fram í Hafnarfirði og fann ég ekkert á heimasíðum Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar sem takmarkaði þann möguleika. Með þeim hætti mætti reyna að hafa áhrif til góðs og kjósa í prófkjöri flokkanna. Hvet ég alla til að reyna slíkt hið sama og kjósa í prófkjörum flokkanna. Fyrst vil hvetja menn til að segja já við sameiningu sveitarfélaganna. Vatnsleysustrandarhreppsmenn eru góðir grannar. Guðni Gíslason
29. september 2005, 37. tbl. 23. árg. Félagar í stjórnmálaflokkum fá að velja á lista flokkanna, við fáum að velja flokka til valda í bæjarstjórn, flokkarnir búa til meiri- og minnihluta, færa undirbúning til nefnda sem þeir kjósa sem aftur láta opinbera starfsmenn vinna fyrir sig. Svo tölum við um íbúalýðræði. Sem betur fer er oft hlustað á bæjarbúa en það er enginn sérstakur farvegur til fyrir skoðanir bæjarbúa. Þeir kjósa ekki um mál nema í algjörum undantekningartilfellum. Því eru skoðanir þeirra háðar mati bæjarfulltrúa og ekki síst starfsmanna bæjarins sem vinna úr tillögum og matreiða. Hvernig væri að vinda aðeins ofan af þessu? Gerið prófkjör stjórnmálaflokkanna algjörlega opin. Fjöldi þátttakenda hindrar að smölun hafi teljandi áhrif. (Er eitthvað betra að smala flokksbundnu fólki?) Velja á oddvita flokkanna sér. Þeir sem gefa kost á sér eiga ekki að tilgreina sæti, til þess er verið að kjósa, að raða frambjóðendum í sæti. Það er kjörin ein bæjarstjórn og ekkert til sem heitir minni- og meirihluti, og aðeins að sjást munur á flokkum þegar brýtur á í málefnum. Draga á um sætaskipan í bæjarstjórn eins og á Alþingi til að undirstrika að ein óskipt bæjarstjórn hefur verið kosin. Hvaða flokkur hefur þor til að ganga þessi skref? Ef flokkarnir hafa ekki þetta þor á að hafa persónubundnar kosningar þar sem kjósendur geta valið einstaklinga í stað flokka enda er ekki mikill munur á stefnuskrá núverandi stjórnarflokka og þar munar meira um skoðanir einstaklinganna. Þar að auki ætti að stytta bæjarstjórnarfundi og færa allar fyrirspurnir á netið svo allir geti fylgst með spurningum og svörum enda algjör óþarfi að þreyta fólk á slíku á bæjarstjórnarfundum. Guðni Gíslason
22. september 2005, 36. tbl. 23. árg. Nú hljóta peningarnir að streyma til góðgerðarmála í Hafnarfirði en nú þykir fullvíst að stór hluti stofnfjáreigenda (áður ábyrgðarmanna) hafa selt bréf sín fyrir stórar upphæðir. Flestir þeirra sem selja vita ekki hver raunverulegur kaupandi er en stjórn sjóðsins fær þær upplýsingar og þarf að fjalla um hverja sölu fyrir sig. Ljóst er að í boði eru um 4 tugir milljóna fyrir hvern stofnfjáraðila en fróðlegt væri að vita hvað síðasti stofnfjáraðilinn borgaði fyrir sinn hlut fyrir þremur árum síðan. Ég var að lesa athyglisverða sögu Sparisjóðsins, Sparisjóður Hafnarfjarðar í 100 ár þar sem fram kemur að þrír eftirlifandi árbyrgðarmenn Sparisjóðs í Hafnarfirði sem lagður var niður árið 1900 létu eignir hans og skuldir renna inn í nýstofnaðan Sparisjóð Hafnarfjarðar árið 1902 án þess að gera neitt tilkalla til eigna í sjóðnum. Sjóðurinn var stofnaður sem sjálfseignarstofnun enda kemur skýrt fram í lögum hans að ábyrgðarmenn áttu aðeins rétt til endurgjalds fyrir útlagðan kostnað og gátu ekki notið ágóða af varasjóði. Hvergi er að finna frásögn um að sjóðnum hafi verið breytt í eign stofnfjáraðila né heldur er fjallað um stofnfjáraðilana sem nú hafa yfirgefið skútuna og hagnast um tugi milljóna kr. Þessir menn hljóta að horfa stoltir framan í meðborgara sína, fólkið sem hefur gert Sparisjóðinn að því sem hann er í dag án þess að fá krónu fyrir. Peningagræðgin varð siðferðinu yfirsterkari og lítið þýðir að fela sig á bak við heimildarákvæði í lögum. Sparisjóðurinn er orðinn bitbein hópa sem vilja ná yfirráðum í Sparisjóðnum og spennandi verður að sjá hvort Fjármálaeftirlitið geri einhverjar athugasemdir við þessi kaup en fullyrt er að fámennur hópur standi á bak við kaupin. Guðni Gíslason
15. september 2005, 35. tb. 23. árg. Ég hlustaði á sérfræðinga um rafsegulsvið á bæjarstjórnarfundi á þriðjudaginn. Reyndar voru þetta bæjarfulltrúar sem voru búnir að lesa sér til fyrir fundinn, sumir leituðu í smiðju Landsnets sem á flutningslínur rafmagns og aðrir leituðu á heimasíðum háskóla í útlöndum. Ástæða þessarar umræðu er nálægð íbúðarsvæðis við háspennulínur á Völlum og óskir um að þær verði lagðar í jörðu. Í raun má telja með ólíkindum hvað stjórnmálamenn voru skammsýnir að leyfa háspennulínur á þessum stað, svo nálæt byggð og ekki síst að byggð væri stór spennistöð sem eðlilega hefði átt að vera t.d. mun nær álverinu í Straumsvík. En þó unnið sé fram í tímann við gerð aðalskipulags hugsa menn oft allt of þröngt og gleyma heildarmyndinni. Ég ætla að vona að bæjarfulltrúar haldi áfram að lesa um rafmengun og þeir sem vilja kafa djúpt geta lesið áhugaverða grein á heimasíðu Geislavarna ríkisins. Hinu má ekki gleyma að fjölmargir fullyrða að líðan þeirra hafi stórbreyst við lagfæringar sem snúa að rafmengun og þá kemur margt fleira til en háspennulínur, jarðtenging húsa, strengir undir gangstéttum og fl. telja menn að geti haft áhrif á líðan manna. Annarri mengun hafa bæjarfulltrúar sýnt of lítinn áhuga en það er ljósmengun. Slæm staðsetning ljósa og rangt lampaval valda ljósmengun víða um bæinn, á hafnarsvæðinu, í götulýsingu og nú æ oftar við útiljós á íbúðarhúsum, sérstaklega blokkum. Engin stefna er til hjá Hafnarfjarðarbæ um gæði almennrar útilýsingar og verndun þess sem óþarfi er að lýsa og tryggja að bæjarbúar þurfi ekki alls staðar að draga fyrir á nóttunni til að fá myrkur inni. Guðni Gíslason
8. september 2005, 34. tbl. 23. árg. Þegar menn fóru að ræða hvort halda ætti vegarslóða og bílastæðum við Arnarfell, fór ég að velta fyrir mér hvað réði ákvarðanatöku hér í bæ. Ef halda á veginum og slóðanum þarf að halda honum við. Þá þarf að gera stíg á fjallið öruggan og setja þarf upp merkingar. Allt kostar þetta pening. Á sama tíma er leið út á Hamarinn ekki merkt og Hellisgerði er ekki merkt hvað þá er sett nægilegt fjármagn í viðhald garðsins. Krýsuvík er spennandi staður fyrir ferðamenn og þangað vilja margir lokka fólk. En til hvers? Hvað græðum við á því að allt verði útsparkað? Ekki neitt. Enginn er nálægt staðnum til þess að geta þjónustað ferðamennina, hvað þá selt þeim eitthvað en forsenda þess að kostað sé sérstaklega til fyrir ferðamenn er að þeir peningar skili sér til baka og helst með góðri ávöxtun. Á meðan slíkir ferðamenn skila engu í bæjarsjóð á bæjarstjórnin að hugsa um íbúa bæjarins. Væri ekki nær að fella niður gjald í strætó innanbæjar og fjölga þannig verulega þeim sem nýttu strætó? Eða fjölga göngustígum í næsta nágrenni bæjarins? Ef bærinn er gerður áhugaverður fyrir íbúana sem í honum búa munu ferðamenn líka njóta þess. Ef verslanir í bænum ná ekki að fá íbúana til að versla í Hafnarfirði þá fá þær heldur ekki ferðamennina. Ég held að kominn sé tími á að við horfum til þess að gera bæinn áhugaverðan fyrir íbúa bæjarins og hætta að reyna alltaf að draga aðra að. Hafnarfjörður er fyrir Hafnfirðinga, svo einfalt er það. Þá er ekki hægt að láta vera að sleppa að nefna sóðaskapinn sem einkennir þennan bæ. Skerum upp herör gegn ruslmenningunni og líðum ekki að drasli sé hent hvar sem er. Sígarettustubbar og karmellubréf eru ekki á undanþágu. Guðni Gíslason
1. september 2005, 33. tbl. 23. árg. Bæjarstjórn hélt sinn fyrsta fund eftir langt sumarfrí. Fundurinn var langur enda margt undir og ekki síst endurskoðun á fjárhagsáætlun en kynntir voru árshlutareikningur fyrir fyrri hluta þessa árs. Við erum búin að „græða“ á miklum erlendum lántökum vegna hagstæðrar gengisþróunar en þar réðum við engu um. Lækkun á gengi íslensku krónunnar gæti kostað okkur mikið og því er það fagnaðarefni að nú takist að greiða niður erlend lán og skuldbreyta með hagstæðum íslenskum lánum. Með því nær bæjarsjóður að innleysa verulegan gengishagnað sem hingað til hefur bara verið til á pappírunum. Þó er uggvænlegt að bæjarfélagið skuldi hátt í 10 milljarða kr. í langtímaskuldir fyrir utan skuldbindingar m.a. af einkaframkvæmdum og fyrir utan lífeyrisskuldbindingar og því fagnaðarefni að þær séu greiddar niður á velmegunartímum eins og nú eru. Framkvæmdir við „Löngulínu“ gengur vel og snyrtilegar grjóthleðslurnar setja fallegan svip á strandlengjuna. Fyrir utan fagnaðarefnið að losna við skolpóþverrann úr hafnarmynninu þá verður sennilega stærsti sýnilegi hagnaðurinn, göngu- og hjólreiðastígurinn sem gerður verður meðfram allri strandlengjunni. Gárungar eru farnir að kalla hann súkkulaðistíginn þar sem hann liggir ofan á þrýstilögninni fyrir skolpið en þegar við verðum laus við skolpmengunina væri kannski nær að kalla stíginn Löngulínu enda liggur hann meðfram fjörunni allt frá Langeyrarmölum og út á nýju uppfyllinguna út frá Hvaleyri. Þar verður kannski okkar litla hafmeyja á stórum útsýnistanki sem hefur það aðalverksvið að vera miðlunartankur fyrir skolpið. Að vísu mun vanta kafla frá Drafnarslippnum og út að Suðurgarði en sá stígur kemur vonandi innan fárra ára. Hingað til hefur verið meira lagt í reiðstíga en göngustíga í bæjarlandinu svo þetta er mikið fagnaðarefni. Menn mega þó ekki gleyma sér í ánægjuvímu heldur skipuleggja strax næstu göngu- og hjólreiðastíga í og í kringum bæinn. Hinn þögli venjulegi bæjarbúi er í miklum meirihluta og kann vel að meta almennar aðgerðir sem nýtast öllum bæjarbúum. Hann er kannski ekki í þrýstihópi en hefur mörg atkvæði þegar kemur að kosningum. Guðni Gíslason
|
online web analytics
site tracking |