Leiðarinn:

Guðni Gíslason
ritstjóri

 

Forsíða

Leiðarar 2006

Leiðarar 2005

Hafnfirska bæjarblaðið    – frá 1983

 

20. desember 2007, 48. tbl. 25. árg.

Síðasti bæjarstjórnarfundur var hinn undarlegasti. Þriðji varamaður Sjálfstæðisflokkins sat sinn fyrsta fund á meðan fyrstu tveir varamenn flokksins sátu heima - eflaust öskuillir. Ekki var það til að lægja öldurnar innan Sjálfstæðisflokksins. Annars hefur 6. varamaður Samfylkingar setið fund og sumir varamenn Sjálfstæð­isflokksins fengu númerið 10 eins og Geir forðum og sátu oft fundi. Annars hélt ég að tími skítkasts og vinstrigrýlu væri liðinn og Leppalúði og Grýla hefðu haldið leið sína í jólaþorpið. Nei, varamaðurinn þriðji var óspar á gagnrýni á „vinstra fólkið“ og rifjaði upp löngu liðnar syndir. Taldi hann líka kaffibollann á eigendafundi HS svo áhugaverðan að hans vegna vildi Samfylking og VG halda þar smá hlut. Þetta er bara skítkast og á ekki heima á svona fundum. Sennilega gengur varamanninum allt gott til og er bara ákafur að koma sínum skoðunum á framfæri en svona er leiðinlegt að hlusta á - frá hvaða flokki sem það kemur. Annars voru fleiri ósiðir að brjótast út á fundinum og þingmaðurinn tók með sér framíköllin úr þinginu en baðst reyndar tvívegis afsökunar á því. Fleiri uppákomur voru á fundinum en sem betur fer voru þær á meðan ég mataðist.

Árni Sigfússon er greinilega að mála sig út í horn og ósætti og trúnaðarbrestur í samstarfi sveitarfélaganna innan HS hefur orðið þess valdandi að Grindavík, Hafnarjörður og Vogar tóku hönum saman og að nú hafi verið ákveðið að selja nær allan hlut í HS og óska eftir kaupum á hlut í OR. Hvort það sé gáfulegt að fara í fjárfestingar í hlutafélögum skal ég ekki tjá mig um en ég hef ekki heyrt nein rök fyrir því frá meirihlutanum, önnur en að OR sé gott og traust fyrirtæki annars vegar og hins vegar þá eigum við áfram í HS í gegnum OR og þannig hefðum við kannski litlaputta á dreifikerfinu okkar sem við seldum HS þegar við vorum búin að þurrmjólka og hindra allan framgang Rafveitu Hafnarfjarðar með pólitískum afskiptum.

En nú látum við jólin læðast inn í huga okkar og látum pólitískt þras lönd og leið. Hversu gömul sem jólin eru þá höldum við þau í minningu fæðingu frelsarans og látum enga siðmennta þau frá okkur. Við getum hins vegar látið kristilegan kærleika okkar vera í hávegum um jólin og minnst þess að það eru margir með aðrar skoðanir en við sjálf, skoðanir okkur ber að virða þótt þær séu okkur ekki að skapi. Hver og einn getur nýtt þessa hátíð ljóss og friðar á sinn máta og ég óska lesendum öllum hamingju og friðar um jól og á nýju ári.

Guðni Gíslason

 

13. desember 2007, 47. tbl. 25. árg.

Menningar- og ferðamálanefnd segir að kannanir sýni að Hafnfirðingar séu stoltir af bókasafni sínu og því fagnar nefndin stækkunaráformum á bókasafnsreitnum.­ Hvenær var spurt um húsaskost bókasafnsins? Er ekki kominn tími til að druslast upp úr hokurbúskapnum og byggja almennilega undir upplýsingamiðstöð bæjarins sem bókasafnið er og á að vera enn frekar en nú. Sami hugsanagangur er í húsnæðismálum Ráðhússins, þar á að tjasla og bæta við, dröslast upp hálfar hæðir en þorið vantar að byggja glæsilegt ráðhús. Vissir þú að Ráðhúsið á Strandgötu er fyrsta sérbyggða ráðhús landsins? Er ekki kominn tími til að Hafnfirðingar sýni stórhug og byggi glæsilegt og reisulegt „Hús fólksins“ þar sem ráðhús, bókasafn, upplýsingamiðstöð, sýningarsalur og fleira skemmtilegt gæti verið til húsa. Hús sem fólkið notaði og hefði áhuga á að gera ferð sína í án þess að þurfa bara að þrasa yfir skipulagi.

Af hverju eigum við ekki stjórnmálamenn með metnað fyrir hönd bæjarins í þessum málum? Það kostar óhemju fé að reka bókasafn á mörgum hæðum og það er dýrt að byggja við húsið þarna og aðgengi almennings er alls ekki gott, fátt um bílastæði og verður jafnvel verra. Það er langt síðan að ég lagði til við bæjarstjóra að gefa bæjarbúum Hellisgerði á ný. Hann sagði að það væri svo sjálfsagt mál að endurreisa Hellisgerði að það væri ekki rétt afmælisgjög. Þá lagði ég til „Hús fólksins“ sem ég hef nefnt hér. Við fáum pínulítinn hluta af Hellisgerði í afmælisgjöf. Gott sem vel er gert. En ég vildi sjá nú þegar unnið er í fjárhagsáætlunargerð að fé yrði lagt í könnun á mögulegri staðsetningu á „Húsi fólksins“ í miðbænum. Það gæti orðið tákn fjölmenningar Hafnfirðinga!

Guðni Gíslason

 

6. desember 2007, 46. tbl. 25. árg.

Hver skyldi hafa valið í keppnislið Hafnarfjarðar í Útsvar. Eftir tap liðsins gegn Akranesi hefur ekki verið nokkur leið að fá uppgefið þann er valdi og skyldi engan undra að hann sé í felum. Við keppendurnir höfðum á orði að við yrðum að vera í felum, jafnvel í gervi Grýlu ef við töpuðum en svo furðulega vill til að okkur var næstum tekið eins og hetjum þegar við komum í bæinn aftur. Það segir meira en nokkur orð hversu trúin á okkur var lítil. Grínlaust sluppum við vel miðað við aðstæður og skrambi fúlt að ná ekki inn þessum aukastigum sem þurfti til að vinna eða bara komast áfram. Hins vegar var þetta fyrir okkur hin besta skemmtun og mjög gaman að keppa við eldhressa Skagamennina. Þeim er valdi liðið er fyrirgefið.

Nú keppist fólk við að komast í jólaskap, hús eru skreytt, smákökur eru bakaðar og jólaföndur er búið til í hverjum skóla. Mest snýst þetta þó um kaupmennsku og fátt virðist draga okkur í bæinn nema verslanir og von um góð kaup. Til að draga úr jólastressinu hvet ég Hafnfirðinga til að dvelja í heimabæ um jólin og skoða í ró og næði hvað hinar fjölmörgu verslanir hafa upp á að bjóða. Ég er orðin svo góðu vanur að ég versla helst allt í Hafnarfirði. Það sparar mikið bensín og tíma að þurfa ekki að þvælast út fyrir bæinn. Við karlmennirnir fáum reyndar fátt fatarkyns hér í bæ, nema sumir unglinganna og því þurfum við að fara í höfuðstaðinn einu sinni til tvisvar á ári til að byrgja okkur upp ef við nýtum þá ekki einhverja utanlandsferðina og verslum þar sem buxur og skyrtur eru í löngum röðum og auðvelt að velja. En það má flest annað fá hér í bæ og ég hvet Hafnfirðinga til að spara bensínið.

Guðni Gíslason

 

29. nóvember 2007, 45. tbl. 25. árg.

Nagladekkin á að gera útlæg að sögn þeirra sem bera ábyrgð á endunýjun gatna. Eru þau sögð valda svo miklu sliti á götum að öryggisþáttur þeirra verði að víkja fyrir harðkornadekkjum (sem líka hljóta að slíta götunum) og loftbóludekkjum. Göturnar fá á sig vegasalt í miklum mæli og ökumenn eiga að geta ekið öruggir - oftast. En blessuðu gangandi vegfarendurnir, börnin okkar á leið í skólann og aðrir þeir sem þurfa eða kjósa að nota tvo jafnfljóta til að bera sig á milli staða og stuðla þannig að minna sliti á götum og tærara lofti. Þessu fólki þykir reyndar oft hált á svellinu en síðustu daga hafa gangstéttar verið flughálar og sumir brattir göngustígar í Setberginu nánast ófærir nema á mannbroddum eða nýjum harðkorna gönguskóm - kannski. Enn er bíllinn settur fram fyrir gangnandi vegfarendur þrátt fyrir fögur orð á hátíðarstundum. Hlýtur að vera kominn tími til kominn að fá „umboðsmann hinna gangandi“ til að berjast fyrir sjálfsögðum rétti þeirra.

En það var rétturinn til að kaupa áfengi í matvöruverslunum sem vafðist fyrir bæjarfulltrúum á bæjarstjórnarfundi í gær. Öllum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins tókst að hafa sér skoðun á málinu og enginn þá sömu. Glæsilegt pólitískt afrek. Annars er alveg undarlegt að á sama tíma er boðið upp á léttvín í Bókasafninu, frítt við afhendingu verðlauna Friðriks tónskálds og til sölu á upplestri jólabókanna. Sala á jólaglöggi í Jólaþorpinu rataði inn á bæjarstjórnarfund fyrir nokkrum árum og var sölu þess hafnað. Það er gott til þess að vita að áfengissala fer ekki saman við sölumennskuna á Thorsplani en er hin ágætasta í bókasafninu. Kannski verður bráðum farið að auglýsa „Rauðvín og rómantík í bókasafninu“ eða „Borðvín og bókvit“. Nei, hún er ekki öll eins vitleysan. En Hafnfirðingar þurfa ekki að hafa áhyggjur af jólaglöggsleysinu í Jólaþorpinu, þar er lokað á kvöldin.

Guðni Gíslason

 

22. nóvember 2007, 44. tbl. 25. árg.

Fyrir nákvæmlega 6 árum síðan kom fyrsti Fjarðarpósturinn út í minni ritstjórn. Aðdragandinn var aðeins nokkrir dagar en síðan þá hafa komið út 294 tölublöð með þessu. Þetta er búið að vera geysilega skemmtilegur tími, erilsamur og það hefur ekki alltaf verið logn - sem betur fer.

Pólitíkin hefur verið þannig að nóg hefur verið að skrifa um og bæjarbúar hafi verið duglegir að láta skoðun sína í ljós með skrifum, símtölum, tölvupóstum og spjalli á götum úti. Fjarðarpósturinn hefur komið út síðan 1983 og á rætur mun lengra aftur í tímann. Samt sem áður hefur blaðið ekki opinberlega verið skilgreint sem hluti af menningarsögu Hafnarfjarðar. Ég hef áður sagt að við erum ekki nægilega montin af því sem við höfum nema Gaflaraheitið. Hvert bæjarfélag getur verið hreykið af því að eiga eigin fréttamiðil og þeir eiga heiður skilið, stofnendur Fjarðarpóstsins.

Hafnarfjarðarbær nýtir sér Fjarðarpóstinn vel, nýtir hann til að birta auglýsingar í, ætlaðar bæjarbúum, sendir inn fréttatilkynningar og læðir að hugmyndum að efni, allt í góðu samstarfi við ritstjóra. Sumar stofnanir bæjarins nýta blaðið sem sitt eigið, auglýsa aldrei en ætlast til að blaðið birti jafnaðarlega fréttir og tilkynningar úr starfi þeirra. Sumar þessara stofnana fá há fjárframlög frá Hafnarfjarðarbæ, en ekki til auglýsinga að eigin sögn. Þá er Fjarðarpóstinum ætlað að brúa bilið! Hafnarfjarðarbær gæti nýtt sér bæjarblaðið mun betur, ekki síst til kynningar á skipulagsbreytingum enda er Fjarðar­pósturinn besti miðillinn til að ná til bæjarbúa. Þeir vita hvar þeir eiga að leita enda er Fjarðarpósturinn eina vikulega fréttablaðið sem sinnir eingöngu Hafnfirðingum.

Guðni Gíslason

 

15. nóvember 2007, 43. tbl. 25. árg.

Sala á hlut Hafnarfjarðarbæjar í Hitaveitu Suðurnesja virðis vera að koma í hámæli ef marka má skrif Gunnars Svavarsson, bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar. Búast má við heitum umræðum um þetta mál í bæjarráði og ætti kannski ekki að koma mörgum á óvart ef ákveðið yrði að selja hlutinn til Orkuveitur Reykjavíkur eins og samkomulag Hafnarfjarðarbæjar og OR gerðu ráð fyrir.

Reykjanesbær, eða öllur heldur bæjarstjórinn þar virðist berjast gegn því að aðrir hafi ítök í Hitaveitu Suðurnesja en er þó eins og aðrir búinn að sjá að hann getur ekki eignast meirihluta. Sennilega sjá Hafnfirðingar að lítill fengur sé að halda fengnum hlut og vart fáist hærra verð en OR býður nú. Hins vegar veit ég ekki hvað hefur komið út úr athugun OR á möguleika á samstarfi (eða kaupum) á Vatnsveitu Hafnarfjarðar og fráveitu en sé ekki neina glóru í að einhver milliliður fái að bíta af kökunni þegar við getum fengið eigið vatn sjálfrennandi heim í hús. Frá okkur rennur svo okkar eigin skítur í eigin lögnum sem enginn þarf að hafa hag af en við sjálf. Kannski getur Hafnarfjarðarbær rekið öflugt vatnsveitufyrirtæki enda gott vatn verðmæti.

Gunnar nefnir samstarf við Grindavík og Voga, væntanlega sameiningakandidata Hafnarfjarðar. Þar hlýtur hann að vera að ýja að því að þessi sveitarfélögu geti saman myndað eigið orkufyrirtæki sem selji afnotarétt að orkuauðlindunum og veiti leyfi til frekari rannsókna en skv. sérfræðingum er enn ekki vitað hvar hitauppsprettan er í Krýsuvík og fyrr en það er vitið verði ekki hægt að nýta þá miklu orku sem þar er að finna. Grindavík, Vogar og Hafnarfjarðarbær eiga mikla sameiginlega hagsmuni í orkumálum og eflaust fleiri málum og hafa hingað til ekki viljað horfa til Reykjanesbæjar í sameiningarmálum. Hver veit hvað verður ef samstarf þeirra við Hafnarfjörð verður að veruleika.

Guðni Gíslason

 

8. nóvember 2007, 42. tbl. 25. árg.

Fjölgun íbúa í Hafnarfirði er með því almesta sem gerist á landinu og virðist engin lát vera á henni. Einhvers staðar þarf allt þetta fólk að búa og óvíða er uppbyggingin hraðari en hér í Hafnarfirði. Svona mikil uppbygging ætti að geta gefið kost á ýmsum tilraunum og þróun í húsbyggingarlist. En er það staðreyndin í Hafnarfirði?

Hafnfirðingar hafa ekki verið sérlega ginnkeyptir fyrir nýjungum í húsagerðarlist og man ég þegar félagarnir í Batteríinu teiknuðu blokkir með bogaþaki. Ætlaði allt um koll að keyra og húsin eftir það nefnd braggablokk­irnar. Það er auðvelt að deila um arkitektúr en spurning um fallegt eða ljótt á ekki alltaf endilega við. Sérstakur arkitektúr er oft umtalaðri en hús sem að flestra mati teljast ekki falleg. Nú rísa blokkirnar á Norðurbakkanum og sýnist sitt hverjum. Ég kann vel að meta brotnar línur í þakformi sumra húsanna á meðan aðrir hrífast af litum eða einhverju öðru. Hér í Hafnarfirði er í raun enginn vettvangur fyrir umræður um arkitektúr og skipulag. Við verðlaunum fólk fyrir að halda bakgarðinum sínum fallegum á meðan enginn fær viðurkenningu fyrir að hanna og reisa glæsileg hús. Við veitum viðurkenningar eða styrki til listamanna en engin til húsagerðar­manna. Af hverju ekki, menningarmálanefnd? Hins vegar er engin ástæða að bíða eftir frumkvæði frá þriggjamannanefndum Hafnarfjarðar, atvinnulífið á að vera fullfært um að halda málþing um hafnfirskan arkitektúr og hafa frumkvæði að því að veita framsæknum arkitektum og byggingarmeisturum viðurkenningar.

Jólaskreytingar eru farnar að sjást í bænum og jólin nálgast. Umferðarteppur eru að fá Hafnfirðinga til að skilja að það sé hagkvæmt að versla í Hafnarfirði. Þetta hefðu Hafnfirðingar átt að skilja fyrir löngu síðan og væru þá eflaust mun fleiri verslanir hér í bæ en nú eru. Verslanirnar færa líf í bæinn og lifandi verslanir gefa líf í miðbæinn. Þess vegna er gaman að sjá þegar verslanir halda upp á t.d. afmæli sín og bjóða til sín fólki og hafa opið fram á kvöld að því tilefni. Þetta mátti sjá t.d. á konukvöldi í Firði fyrir skömmu og nú síðast í versluninni B.Young á Strandgötu. Meira svona!

Guðni Gíslason

 

1. nóvember 2007, 41. tbl. 25. árg.

Nú er verið að hrinda af stað vinnu við að skerpa á þeirri framtíðarsýn á miðbæ Hafnarfjarðar sem liggur til grundvallar skipulagi miðbæjarsvæðisins. Þessi framtíðarsýn er ekki sérstaklega skýr í dag og það sem er enn verra að lítill drifkraftur virðist vera í að koma miðbænum nálægt því í það horf að vera lifandi miðbær með öflugri verslun, þjónustu og byggð. Fagna ber þessu framtaki miðbæjarnefndar og vonandi verða bæjarbúar kallaðir til hugmyndavinnu enda segir að samráð verði haft við hagsmunaaðila, sem eru ekki bara eins og margir halda, verslunareigendur í miðbænum, heldur líka bæjarbúar sjálfir. Ef hagsmunaaðilar væru einungis verslunareigendur þá kallaði jafnræðisreglan á að sambærileg vinna yrði gerð á öðrum svæðum í bænum þar sem verslun þrífst.

Nú er brýnt að horfa á miðbæinn í heild sinni og hafa metnað að leiðarljósi við uppbyggingu í bænum. Vanda þarf vel til þessarar vinnu og þegar sæst hefur verið á niðurstöðu og deiliskipulagi hefur verið breytt í samræmi við óskirnar verður að vinna hratt. Þá þýðir ekki að láta menn komast upp með það að rífa niður hús og láta lóðirnar standa auðar og jafnvel hindra nýtingu með óþarfa girðingum sem gera miðbæinn eins og fangaklefa. Hafnarfjarðarbær þarf að markaðssetja miðbæinn og leita eftir þátttöku áhugaverðra fyrirtækja og þjónustuaðila til að tryggja sem fjölbreyttustu þjónustu í miðbænum. Við viljum ekki lengur langar bankahliðar og tómar lóðir. Enn á ný skora ég á Hafnarfjarðarbæ að halda hugmyndasamkeppni um framtíðarútlit miðbæjarins. Á grunni bestu hugmynda mætti svo vinna nýtt deiliskipulag sem vekti áhuga á þátttöku sem flestra í uppbyggingu miðbæjarins.

Guðni Gíslason

 

25. október 2007, 40. tbl. 25. árg.

Hestamenn hafa fengið nokkra útreið hér í blaðinu og hafa birst greinar þar sem amast er út í að hestamenn ríði á göngustígum og svæðum sem ekki séu ætluð hestum. Hestaíþróttin er eflaust mjög skemmtileg íþrótt og vart er hægt að hugsa sér skemmtilegri ferðamáta um landið en á hestum. En hver skyldi ástæðan vera á þessum núningu sumra íbúa við suma hestamenn því hestamenn eru ekki einsleitur hópur?

Ég er einn þeirra sem næ vart upp í nef mér af undrun yfir því að hesthús skuli vera byggð í Gráhelluhrauni, á fallegasta byggingarsvæði bæjarins ef strjált og lágt er byggt. Þarna rísa nú stór „iðnaðarhús“ þar sem menn hafa kannski hugsað sér sveitamenninguna með hesta á beit við lítil hesthús. Þannig er því ekki farið í dag og þarna byggja ekki bara Hafnfirðingar svo kannski erum við að fórna þessu fallega hrauni fyrir aðra en Hafnfirðinga?

En væru hestamenn ekki betur settir með svæði utar í bæjarlandinu þar sem byggð, hjólreiðamenn og gangandi trufla ekki, á svæði þar sem mætti byggja upp glæsilega umgjörð utan um þessa sívaxandi íþrótt.

Kannski er seint í rassinn gripið að leggja þetta til en einhvern veginn finnst mér eins og ekki sé hugsað langt fram fyrir stórutána í skipulagsmálum í bænum og t.d. verða hesthúsin í Hlíðarþúfum örugglega brátt að víkja vegna kvartana íbúa um lyktarmengun! Það er ekki svo undarlegt þar sem fiskvinnsla hverfur líka af sömu ástæðum, því nú má ekki finnast fisklykt, sveitalykt eða gufustrókar sjást á lofti. Ósýnileg mengun frá stóru pallbílunum er hins vegar ásættanleg að því er virðist og umhverfisráðherrar virðast ekki hafa haft og eða hafa kjark til að taka á þeim málum.

Guðni Gíslason

 

18. október 2007, 39. tbl. 25. árg.

Nú er hratt farið í Hafnarfirði, svo hratt að nefnt var á bæjarstjórnarfundi að íbúar í nýjustu hverfum bæjarins yrðu jafn margir og íbúar bæjarins voru fyrir örfáum árum. Deiliskipulag er unnið, það auglýst, kynnt á fámennum fundum og fáir gera athugasemdir. Þeir sem ekki gera athugasemdir teljast samþykkir deiliskipulaginu. Slík vinnubrögð mega ekki þekkjast í sölumennsku og eru litin hornauga og stórfyrirtæki hafa verið dæmd fyrir að láta viðskiptavininn þurfa að afþakka vöru sem hann hefur ekki beðið um.

Enn kalla ég á íbúaþingin í hugmyndavinnu að deiliskipulagi í nýjum hverfum. Okkur var lofað þeim í þar síðustu kosningum, eitt var haldið. Var þetta svona léleg hugmynd? Hvernig viljum við hafa aðgang að skólunum okkar? Gott upplegg var að aðgengi að Hraunvallaskóla sem týndist í áframhaldandi deiliskipulagsvinnu. Hvernig á að leysa snjómokstur og hvert á að setja snjóinn þá og ef hann kemur? Í hvernig byggð viljum við búa? Er það ekki okkar ákvörðunarefni, íbúanna? Það er flott að fá hugmyndir til að vinna úr og íbúar eiga að vera virkari í mótun framtíðar bæjarins. Ef íbúarnir vilja ekki stóriðju þá er það bara svoleiðis en þeir þurfa líka að vera upplýstir um afleiðingar af slíkri ákvörðun.

Það er hreint með ólíkindum að bæjarfulltrúar þurfi að gera athugasemdir vegna þess að öskubílar þurfa að bakka í íbúðargötur skv. nýju skipulagi eða hvort sorpgeymslur séu með viðeigandi hætti eða bílastæði. Svona mál á að leysa skv. lögum og reglum og ekki síst skv. raunverulegum þörfum íbúanna. Það er ekki nóg að gera ráð fyrir tveimur bílum fyrir hverja íbúð ef bílarnir eru fleiri. Það er ljóst.

Guðni Gíslason

 

11. október 2007, 38. tbl. 25. árg.

Tendrað var formlega á Friðarsúlunni, sem Yoko Ono átti frumkvæði að og kostaði að mestu. Allt framlag til friðar er fallegt þó deila megi um hvort eðlilegt sé að láta sterkt ljós lýsa upp í himininn í langan tíma. Hugtakið ljósmengun varð til þegar of mikið var upplýst. Ein pera í glærum kúpli á útihúsinu í sveitinn sem æpti á þig í myrkrinu var ekki talin ljósmengun þá þó óþæginda gætti við að ganga á móti ljósinu. Auðvitað var þetta ljósmengun og óbeislað ljós er að jafnaði ljósmengun og óþarfi.

Hér í Hafnarfirði er margt að laga í lýsingarmálum bæjarins. Íbúar sem horfa yfir höfnina taka eftir óþægilegum ljósum á hluta suðurhafnarinnar og ekki síst á stóru skipakvínni. Alltof háir ljósastaurar með glóandi kúpla í íbúðargötum senda frá sér ljós í allar áttir og þangað sem síst skyldi. Svona mætti lengi telja en í dag eru gerðar miklu meiri kröfur til ljósgæða enda ljósmagnið hér í bæ orðið svo mikið að ekki verður myrkur inni í húsum þegar almyrkvað á að vera úti. Gera þarf átak í að bæta gæði lýsingar í Hafnarfirði og losna við stóran hluta af „glóandi hnöttum“ sem lýsa út og suður en um það þyrfti að skrifa vandaða grein við betra tækifæri og verður vonandi friður um það.

En það er ekki friður í Orkuveitunni né Hitaveitunni. OR vill selja hlut HS sem nú er í REI, Reykjanesbær vill eiga meirihluta í HS, skipta fyrirtækinu upp en það vill Hafnarfjarðarbær ekki, Hafnarfjarðarbær vill neyta forkaupsréttar verði hlutur OR í HS seldur. Hvar endar þetta. Var þetta traustið sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar lagði á OR? Er ekki kominn tími á Veitustofnun Hafnarfjarðar?

Guðni Gíslason

 

4. október 2007, 37. tbl. 25. árg.

Á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag var deilt um kostnað við framkvæmdir á íþróttasvæði FH í Kaplakrika þar sem lægsta tilboð í einn áfanga af fjórum var 100 millj. kr. yfir áætlun. Niðurstaðan var sú að reynt verður að semja við lægstbjóðanda um breytingar sem eiga að geta falið í sér verulegan sparnað en aldrei nálægt þessum 100 milljónum kr. Hafnarfjarðarbær hefur gert vel við íþróttafélögin í bænum og mega þau vel við una en samt er skammast í bæjarfulltrúum að ekki sé nóg fé lagt til.

Við erum rík að geta látið 100 milljónir verða að skiptifé í einu verki þar sem hlúð er að æskunni og áhugafólki um kappleiki. Tengdafaðir minn, löggiltur Gaflari líður af Alzheimerssjúkdómnum eins og margt eldra fólk. Hann hefur notið frábærrar umönnunar eiginkonu sinnar á heimili þeirra þótt á móti hafi blásið og tár hafa fallið. Aðstoð er takmörkuð, samtök bjóða upp á bráðnauðsynlega dagvistun, bæði fyrir sjúklinginn og aðstandendur en þegar aðstandandi á áttræðisaldri er látinn sækja maka sinn vegna þess að hann sé svo erfiður þá eru úrlausnirnar ekki í lagi. Alzheimerssjúklingar eiga það til að vera erfiðir og englar á víxl. Hvar er ríkidæmi okkar þegar við eigum ekki úrlausnir fyrir aldraða ástvini okkar. Það er meira en að segja það, að sinna Alzheimerssjúklingi inni á heimili án mikillar aðstoðar. Rými á sjúkrastofnunum eða öldrunarstofnunum er takmarkað, hvort heldur það er fyrir hvíldarinnlögn eða lengri dvöl.

Við ættum að skammast okkar að ræða um framúrkeyrslu í byggingu íþróttamannvirkja, hvort heldur það er í Kaplakrika eða á Hvaleyri á meðan við getum ekki sinnt öldruðum betur.

Guðni Gíslason

 

27. september 2007, 36. tbl. 25. árg.

Hvað varð um 40 km/klst ? Athugulir ökumenn hafa eflaust tekið eftir því að hámarkshraði hér í nágrenninu er ansi fjölbreyttur. 90 km á Reykjanesbrautinni, rétt sunnan við Ástjörn, 80 km sumsstaðar, 70 km á öðrum stöðum, 60 km á nokkrum stöðum og 50 km víða. Síðan er 30 km í íbúðarhverfum og 15 km á einstaka götum, t.d. Strandgötu og Fjarðargötu við Fjörð en þá flokkast göturnar sem vistgötur.

Nýlega er komið upp skilti við Setbergsskóla sem sýnir umferðarhraða viðkomandi og blikkar ef ekið er yfir 30 km hraða þó hámarkshraði sé 50 km. Þetta er á safngötu og staðsetning skólans óheppileg og nauðsynlegt að halda hraða þar niðri. En á safngötu er 30 km hraði mjög lítill og til lítils að byggja mislæg gatnamót ef fólk kemst ekki fyrr en seint og síðarmeir út úr hverfunum. 50 km hraði er 67% meiri hraði en 30 km. Það er mikill munur en 40 km hraði er þó aðeins um 33% meiri hraði en slík skilti fyrirfinnast ekki. Hvers vegna? Hlutfallslegur munur á 30 og 40 km hraða er mun meiri en á milli 80 og 90 km og eðlilegt væri að munur á þrepum hámarkshraða væri meiri eftir því sem ökuhraðinn eykst en því er öðru nær.

Skilti draga ekki endilega úr hraða. Af hverju hafa ekki verið gerðar þrengingar við gangbrautir við Setbergsskóla? Af hverju hafa gangbrautir ekki verið lýstar upp sérstaklega? Af hverju hefur skólalóðin ekki verið girt frá götunni? Nú nálgast vetur og gangbrautin við Traðarberg er stórvarasöm, runnagróður alveg út að götu við skólann sem byrgir sýn og oft flughálir snjóruðningar sem börnin þurfa að ganga yfir. Ég skora á bæjaryfirvöld að tryggja öryggi skólabarna með öðru en eintómum skiltum.

Guðni Gíslason

 

20. september 2007, 35. tbl. 25. árg.

Nú eru menn að græða. Hlutur Hafnarfjarðarbæjar í Hitaveitu Suðurnesja skal seldur. Er Hafnarfarðarbær kominn í brask? Á þá ekki að kaupa eitthvað fyrir hagnaðinn, selja það svo síðar og innleysa hagnaðinn? Af hverju seldi Hafnarfjarðarbær ekki Rafveitu Hafnarfjarðar? Af hverju var hún sameinuð HS? Auðvitað er gott að menn græða en það sáu menn ekki fyrir og engin rök voru þá lögð fram að semeiningin væri til að græða peninga. Hins vegar er önnur saga að bæði vinstri og hægri stjórnir kepptust við að skemma starfsemi Rafveitu Hafnarfjarðar með óhóflegri óskráðri arðtöku, beinum afskiptum af daglegum rekstri og áhugaleysi sem gerði það að RH var ekki orðið stórfyrirtæki á sínu sviði. Hversu verðmætt hefði það þá verið í dag? Að selja sínar eignir er oft eins og að pissa í skóinn, þér hlýnar í stuttan tíma en svo tekur kuldinn við.

Ég veit ekki hvort það eigi að selja hlutina í HS eða ekki, ég hef ekki fengið haldbær rök frá bæjaryfirvöldum um það. Hins vegar hef ég áhyggjur af þessu kæra sambandi við Orkuveitu Reykjavíkur og óbilandi trausti á góðmennsku stjórnar hennar eftir að við höfum hugsanlega selt hlut HS til þeirra. Hvað þýðir viljayfirlýsing um samstarf í vatnsveitu og fráveitumálum? Treystum við okkur ekki til að byggja upp sterkt fyrirtæki í kringum eina bestu vatnslind landsins? Látum engan annan ráða yfir vatninu okkar!

Guðni Gíslason

 

13. september 2007, 34. tbl. 25. árg.

„Menningarmálanefnd Hafnarfjarðar var kölluð saman til aukafundar á þriðjudaginn vegna gríðarlegra góðra móttöku sem hafnfirska gamanmyndin Astrópía hefur hlotið. Ákvað menningamálanefndin að byggður skyldi veglegur bíósalur í Hafnarfirði og yrði hann nefndur Astrópía til heiðurs velgengni hafnfirsku listamannanna sem stóðu að myndinni. Er markmiðið með opnun bíósalarins að auðvelda Hafnfirðingum að sjá Hafnfirskar kvikmyndir og aðrar íslenskar kvikmyndir.“ Nei, því miður er þetta bara tilbúningur ritstjórans, en mikið væri gaman ef hægt væri að flytja svona fréttir. Ég set þetta fram til að vekja athygli á þeim fjölda listamanna sem býr í Hafnarfirði og verkum þeirra. Það er sagt um okkur Hafnfirðinga að við séum svo ánægðir með okkur og því er undarlegt hvað við hömpum listamönnunum okkar lítið. Hvar er frægðarstrætið með listamannanöfnunum? Hvar er tónlistarhúsið fyrir alla snillingana okkar? Hvar eru opnu listasöfnin fyrir alla myndlistamennina okkar? Hvar eru götusviðin fyrir ungu tónlistarmennina okkar? Eru verk samtímalistamanna bæjarins sjáanleg í opinberum byggingum bæjarins? Hvar eru listamannasamtök Hafnarfjarðar?

Hafnarfjarðarbær er meira en brandarar og boltar.

Hafnfirðingar styðja bæjarstjórn sína til metnaðarfullra verka, verka sem við bæjarbúar getum verið hreykin af. Hafnfirðingar munu ekki hreykja sér af miðbæ troðfullum af háhýsum né ljótum, metnaðarlausum fjölbýlishúsum út um allan bæ. Byggingarlist er líka list og tími til kominn að verðlauna hönnuði og byggingarmeistara fyrir metnaðarfullar byggingar í skipulagi og útliti.

Guðni Gíslason

 

6. september 2007, 33. tbl. 25. árg.

Ég er einn þeirra foreldra sem ekki skrifaði undir samþykki fyrir því að fingrafar sonar míns væri notað af einkafyrirtæki. Ég sé ekki nokkra ástæðu til að láta fyrirtæki eftirlitslaust nota svona tækni á mín börn og aðrar aðferðir hljóta að vera í boði. Segulrandarspjald eða örgjörvaspjald sem hægt væri að festa á lyklakippu kæmi að góðum notum og tryggði að börnin gleymi ekki húslyklunum eftir heima. Annars er undarlegt hvað við Íslendingar erum viðkvæm fyrir stóra bróður miðað við þann skemmtilega íslenska siða að fólk riti nöfn sín í gestabók. Ef ekki eru fyrir hendi stafræn eftirlitstæki þá ritum við handvirkt nöfn okkar hvar sem við komum hvort sem það er á einkaheimilum eða í söfnum. Reyndar geri ég slíkt nær aldrei nema á heimilum.

Haraldur Þ. Ólason (D) lýsti áhyggjum sínum á bæjarstjórnarfundi yfir upptöku á samningi við íþróttafélögin um að auka hlut bæjarins úr 80% í 90% af stofnkostnaði íþróttamannvirkja, jafnvel svo að það gilti fyrir hús sem þegar væru byggð. Taldi hann að skoða þyrfti málið í samhengi við að að ekki væri hægt að setja fjármuni í að leysa vanda í heilbrigðiskerfinu, í leikskólum og í skólum.

Ég get ekki annað en verið sammála honum, þau eru svo mörg góðu málefnin sem rétt og skylt er að styrkja en fjármunirnir eru takmarkaðir og við kusum bæjarstjórn til að deila skattfénu réttlátt og eflaust kjósa einhverjir lægra útsvar og fá að ráðstafa eigin fé að vild. Bæjarstjórn væri hollt að horfa til jafnréttisáætlunar Hafnarfjarðarbæjar og skoða hvort allir bæjarbúar sitji við sama borð óháð áhugamálum. Hvað á að borga í tómstundir fullorðinna?

Guðni Gíslason

 

30. ágúst 2007, 32. tbl. 25. árg.

Við Hafnfirðingar búum á söguslóðum. Ekki aðeins hefur verið útgerð og kaupmennska hér frá ómunatíð þar sem hin náttúrulega höfn var vel nýtt, heldur hefur landið allt í kringum okkur verið nýtt og hér í hraununum finnast mannvistarleyfar í hundruð og jafnvel þúsundatali. Þetta hefur Ómar Smári Ármannsson verið duglegur að skrá og Jónatan Garðarsson einnig sankað að sér miklum fróðleik um sögustaði hér í nágrenninu. Ómar fjallar á vef sínum ferlir.is um rauðhóla og skemmdir sem unnar hafa verið á náttúruminjum í umhverfi okkar þar sem gróðrahyggjan hefur ráðið för. Stundum finnst manni eins og þeir tali fyrir daufum eyrum og svo virðist eins og sunnanmenn hafi sýnt fróðleikssöfnun Ómars meiri áhuga en Hafnfirðingar. Væri ekki tilvalið verkefni fyrir umhverfisnefnd bæjarins að finna peninga til að láta gefa út vandað náttúru og minjakort af öllu bæjarlandinu? Þetta kort mætti jafnvel samnýta sem göngu og ferðakort ef vel er að verkinu staðið. Er ekki kominn tími til að við réttum úr bakinu og gerum glæsilega það sem við gerum. Menningartengd ferðamennska er framtíðin að mati ferðaspekinga og Hafnfirðingar þurfa að huga meira að því. Söfnin okkar mega gjarnan fá meira fjármagn og ný söfn og sýningar ættu að vera meira en velkomnar í bæinn. Safn Ernst Backman í Öskjuhlíð er gott dæmi um nýhugsun. Væri ekki gaman að hafa enn stærra safn í Íþróttahúsinu við Strandgötu. Enn betra væri að rífa það hús og byggja nýtt safna/menningahús sem yrði aðdráttarafl í miðbænum ef vel er að staðið. Það er ekki allt fengið með því að byggja íþróttahús. Það er meira gott til sem má setja skattfé okkar í.

Guðni Gíslason

 

23. ágúst 2007, 31. tbl. 25. árg.

Við Hafnfirðingar tölum mikið um miðbæinn okkar núna þegar áform eru um að víkja verulega frá gildandi deiliskipulagi fyrir miðbæinn og leyfa 5 hæðir umfram gildandi skipulag á afmörkuðu svæði. Fjölmennur kynningarfundur var haldinn um tillöguna sem var auglýst fyrr í sumar og var þétt skipaður bekkurinn í Hafnarborg þó enn væri vinnutími margra. Allir fundargestir sem tóku til máls voru á móti þessum aukahæðum en um hvað er verið að deila? Af hverju er ekki sjálfsagt að leyfa 9 hæða hús í stað 4 hæða? Í raun eru allir sáttir við að byggja upp í miðbænum. Enginn vill 4 hæða kumbalda en varla vill nokkur arkitekt með sjálfsvirðingu gera slíkt. Hann vill teikna hús sem fellur vel að götumyndinni og verði stolt hönnuðar og verktaka. Þannig hefur vel tekist til með fyrstu 3 hæðir hússins sem eiga að rýma verslanir á 1. hæð og skrifstofur á 2.3. hæð. En ofan á þetta koma tveir 6 hæða turnar. Menn spyrja sig því: Af hverju má ekki byggja vel heppnaðar 4 hæðir eins og gildandi deiliskipulag segir til um. Ef hagsmunir verktakans eru svona miklir að mati bæjarfulltrúa væri sennilega heppilegra að veita þeim lóð á hagstæðu verði undir 5 hæða hús annars staðar í bænum svo arðsemin geti orðið jafn mikil. Það mun fjölga mikið í miðbæ Hafnarfjarðar og ef bæjarstjórnin telur þörf á turnum til að fjölga enn frekar, af hverju á þá ekki að byggja fleiri turna í miðbænum, af hverju ekki að leyfa hærri byggingar í öllum miðbænum. Hvað er sérstakt við þessa lóð? Auðvitað vilja menn losna við þennan ljóta blett í miðbænum og byggja þarna til prýðis fyrir miðbæinn. Verslanir eiga að koma á 1. hæðina með tengingu í Fjörð en skrifstofur á næstu 2 hæðir. Bjarga skrifstofur miðbænum?

Guðni Gíslason

 

16. ágúst 2007, 30. tbl. 25. árg.

Það er greinilegur vilji meirihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar að samþykkja 9 hæða hús við Strandgötuna. Ekki held ég að bæjarfulltrúar hafi sérstakan áhuga á hæðinni, þó farið sé 5 hæðir yfir gildandi skipulag, heldur eru þeir orðnir langþreyttir á aðgerðarleysi á lóðinni og vilja allt til þess að þarna aukist verslunarrými þó það kosti að bæta slatta af hæðum ofan á fyrir íbúðir. Það er hægt að skilja svona afstöðu en af hverju hafa menn ekki skýrari framtíðarsýn á miðbænum en það að bíða þurfi eftir tillögum þeirra sem kaupa fasteignir í miðbænum? Sennilega er auðveldara að fá að byggja 5 auka hæðir í miðbænum en að fá að setja kvist á hús í úthverfi. Tillaga Hanzahópsins er áferðarfalleg en ég skil ekki ennþá af hverju svona margar íbúðir þurfa að vera þarna. Er ekki flott að geta selt 3000 m² verslunarrými? Annars er grátlegt að koma úr sumarfríi í góðviðrinu. Meira að segja rigningin hefur breyst og kemur nú beint af himni ofan. Íslendingar dvelja nú í sumarfríum sínum í draghýsum af stærstu gerð, sum eru sjálfkeyrandi og önnur eru dregin af öflugum bílum. Allt þarf þetta að vera einhvers staðar og ekki gerir skipulagið í Setberginu t.d. ráð fyrir svona draghýsum né stórum bílum. Þar eru þröngar götur og velmegunin ekki fyrirséð. Kannski fáum við draghýsageymslusvæði í bæinn þar sem fólk getur geymt draghýsin sín á lokuðu svæði og þurfi ekki að teppa bílastæði og gangstéttir og vera til ama og leiðinda fyrir nágrannana sem geyma Ægistjöldin sín á hillu í bílskúrnum. Þar safna þau sennilega framvegis bara ryki því vart sést tjald lengur á sk. tjaldstæðum landsins nema þar séu á ferð hjólandi eða gangandi útlendingar. Við Íslendingar erum ríkir!

Guðni Gíslason

 

19. júlí 2007, 29. tbl. 25. árg.

Í nágrenni Hafnarfjarðar leynist fjöldinn allur af minjum frá lífi og starfi þeirra sem á undan okkur voru hér. Einstaka gamlar þjóðleiðir hafa verið stikaðar en annað er ómerkt að mestu. Ratleikur Hafnarfjarðar hefur opnað heim margra að minjunum og grúsk þeirra Jónatans Garðarssonar og Ómars Smára Ármannssonar hafa varpað ljósi á óteljandi minjar sem vert er að halda til haga. Umhverfi okkar er geysilega dýrmætt og það er ekki aftur tekið sem eyðilagt hefur verið. Því þarf að fara mjög varlega við allt jarðrask en því miður hafa miklar skemmdir verið unnar í hraununum, sennilega eru það þó mest útlitsskemmdir en hörmulegt er samt að sjá hversu víða krafsað hefur verið í hraunið.

Annars hefur lengi staðið til að bæta merkingar í bænum en lítið gengur. Ekki einu sinni Hellisgerði er merkt fyrr en inn er komið. Kannski vantar merkingarmálaráðherra í bæjarstjórnina sem gæti líka séð um að koma upp ruslafötum víðar í bænum. Ruslafötum átti að fjölga mikið í ár, kannski hefur það verið gert án þess að þeirra verði mikið vart. Reykjavíkurborg fékk VST til að vinna tillögur til úrbóta á ruslvandamálum á götum í Reykjavík og gerði tillögur að nýjum ruslastömpum, stærri og sterkari en þeim gömlu. Stampana má sjá í fréttabréfi VST, Gangverki sem er nýútkomið en þar kemur einnig fram að árið 2012 muni 78 þúsund bílar fara um Reykjanesbraut við Setberg á hverjum degi og verður umferðarálagið á götuna komið yfir 100% af flutningsgetu. Úrbætur eru hins vegar ekki væntanlegar fyrr en á árunum 20112012 skv. tillögum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Njótið sumarsins og ökum varlega.

Guðni Gíslason

 

12. júlí 2007, 28. tbl. 25. árg.

Hvaleyrarvatn er paradís okkar Hafnfirðinga. Enn eru sjálfboðaliðar að laga göngustíginn í kring en fátt annað er gert til að bæta aðstöðu þeirra fjölmörgu sem þangað leggja leið sína. Hestamenn hafa verið að pirra fólk þarna en eðlilega er ekki við hæfi að börn þurfi að hlaupa innan um hrossaskít á ströndinni við vatnið og hvað veit maður hvað ofan í því er. Göngustígarnir fá heldur ekki að vera í friði fyrir hestamönnum sem grunaðir eru um að taka niður skilti þar sem umferð hesta er bönnuð. Samtök hestamanna hljóta að þurfa að taka á þessum skussum. Nóg er mulið undir hestamenn sem fá besta stað í bænum undir hesthús, marga km af reiðstígum og snjómokstur á sumum þeirra. Ekki svo að hestamenn eigi ekki allt gott skilið en gangandi fólk og annað útivistarfólk fær ekki sömu fyrirgreiðslu. Kannski það þurfi að stofna íþróttafélag til þess að ná eyrum pólitíkusanna.

Ég fylgdist með fótboltamóti ungra drengja á Akureyri, heimsótti glæsilega sundlaug þeirra og gekk um bæinn. Getum við ekki lært margt af stjórnendum vinabæjar okkar? Af hverju er Suðurbæjarlaugin ekki paradís eins og Akureyrarlaugin? Af hverju er Hellisgerði ekki glæsilegt eins og Listigarðurinn? Vantar ekki einhverja sem bera ábyrgð á heildarskipulagi og framtíðarsýn í umhverfis og gróðurmálum í bænum? Æ, það er kallað bæjarstjórn. Kannski vantar ákvörðun hennar að efla umhverfissvið bæjarins sem nú er hluti af framkvæmdasviði? Eitthvað þarf að gera, vilji til verka virðist vera alls staðar en þar við situr. Umhverfismálum þarf að sinna betur í Hafnarfirði, fallegasta bæjarstæði landsins. Förum vel með umhverfi okkar.

Guðni Gíslason

 

5. júlí 2007, 27. tbl. 25. árg.

Það var ljóst strax við innlimum Rafveitu Hafnarfjarðar í Hitaveitu Suðurnesja að fyritækið ætlaði sér að vera Suðurnejsafyrirtæki fyrst og fremst. Það hefur sést á margan hátt. Þá þótti ótækt að breyta nafni fyrirtækisins, það hefur sést á auglýsingabirtingum, það hefur sést á stuðningi við verkefni og það sést núna glögglega þegar Árni Sigfússon afhjúpar algjörlega hreppastefnu meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar. Reykjanesbær á aðeins 2,5% í Geysir Green Energy (þegar 37,5% hutafjár er enn óselt) en berst með kjafti og klóm að færa fyrirtækinu Hitaveitu Suðurnesja. Hannes Smárason er stjórnarformaður Geysis og er hann líklega best þekktur fyrir að búta niður fyrirtæki og selja. Árni var meira að segja búinn að semja um hönnun á stjórnsýsluhúsi fyrir Reykjanesbæ þar sem einnig yrðu höfuðstöðvar Hitaveitu Suðurnesja og Geysis án þess að slíkt hefði komið fyrir stjórn HS. Enginn áhugi virðist vera á samstarfi sveitarfélaganna.

Hins vegar er áhugi Hafnfirðinga á Orkuveitu Reykjavíkur sérstakur. Því hefur ekki verið borin góð sagan og bruðl og óstjórn einkennt fyrirtækið að mati margra hafnfirskra stjórnmálamanna. Ekki hefur náðst samkomulag við fyrirtækið um ljósleiðaravæðingu Hafnarfjarðar en nú er þetta fyrirtæki að breytast í englafyrirtæki. Kannski þetta sé eina færa leiðin að mati bæjarfulltrúa en samt ætla þeir að treysta á að böndin við OR haldi reyni Reykjanesbær að svína á Hafnfirðingum. Svona er pólitíkin í dag. Eflaust endar þessi farsi með samkomulagi Hafnarfjarðarbæjar, Reykjanesbæjar og Grindavíkur um að Geysir og OR eignist hlut í félaginu en fyrir alla muni vill Hafnarfjörður tryggja 33,4% hlut í HS.

Guðni Gíslason

 

28. júní 2007, 26. tbl. 25. árg.

Það er svo margt fallegt að sjá í upplandi Hafnarfjarðar. Þar liggja gönguslóðar sem hægt er að fara um og einstaka vegaslóðar sem flesta má aka. Reyndar fer mun betur um gangandi á svona slóða en akandi enda er þessum slóðum lítt við haldið. Víða má sjá gömul spor eftir jeppamenn sem reyndu að komast þegar blautt var en nýjustu sporin eru eftir fjórhjól og mótorhjól. Ekki ætla ég að amast við förum slíkra skráðra tækja á vegaslóðum en sárt er að sjá förin utan vega. Enn sjást þessi gömlu sár og undarlegt að þau hafi ekki verið bætt. Eflaust mætti bæta aðgengi margra ef sumir þessara slóða væru bættir og ekki síst ef stæðum og útskotum til að leggja bílum væri fjölgað. Á göngum mínum um bæjarlandið hef ég á of mörgum stöðum rekist á sóðaskap fólks. Sumsstaðar hafa menn verið svo óforskammaðir að sturta úr kerrum sínum ýmsum úrgangi í stað þess að fara með það á rétta staði. Annars staðar, eins og í Óbrinnishólum eru haglabyssuskot í tugþúsundatali og sóðaskapurinn mikill. Litla tilburði sé ég til hreinsunar bæjarlandsins því sumt af þessu hefur verið þarna í langan tíma.

Við Krýsuvíkurveg er enn verið að hækka tilbúna fjallið, forljótt fjall sem enginn fékk að segja álit sitt á og ekki síður á gömlu öskuhaugunum þar sem þverhnípt hlíð molar og úrgangsfjalls blasir við. Ekki hafa íbúarnir fengið að segja álit sitt á þessu. Væri ekki nær að fylla í sárin eftir námugröft t.d. í Óbrinnishólum eða koma þessu fyrir í stóra sárinu eftir námugröft í Undihlíðum við Bláfjallaveg sem sífellt stækkar? Mér var sagt að það tæki því ekki að fylla gömlu námurnar, þær væru of litlar. Væri ekki rétt að skoða þetta aftur og koma í veg fyrir tilbúin fjöll í nágrenninu.

Guðni Gíslason

 

21. júní 2007, 25. tbl. 25. árg.

Hvað er jafnrétti? Hvað er jafnrétti kynjanna? Er það að bæði kynin geri það sama, velji sér sömu störf og hagi sér eins? Varla dettur nokkrum manni í hug að fullyrða slíkt. Öll erum við mismunandi, hvert og eitt á Jörðinni en öll eigum við að hafa jafnan rétt. Það þýðir ekki að við séum öll eins og getum gert það sama og aðrir. Hugmyndir Jóhönnu Sigurðardóttir um kynjakvóta á stjórnunarstöður á vegum hins opinbera er með þvílíkindum ólíkindum og stórt skref til ójafnræðis milli þegna þjóðfélagsins á tillit til kyns. Forræðishyggjuhugsunargangur ráðherrans er með ólíkindum og ef ástæðan er lág laun í umönnunarstéttum, hvers vegna ekki að taka á því. Við eigum ekki að velja fólk eftir litarhætti, þjóðerni eða kyni. Hæfileikar hvers og eins hljóta að ráða því hvern við veljum til verkefna.

Ég get ekki neitað því að ég er hugsi yfir vali á fjallkonu á þjóðhátíðardeginum í Hafnarfirði. Getur það verið að hún hafi verið valin vegna uppruna síns? Ef fyrri fjallkonur hafa verið valdar vegna kosta sinna þá er þetta undarleg gjörð. Ef fjallkonurnar hafa verið valdar vegna útlits síns þá skil ég valið í ár, en það gerir valið ekki betra. Hún Beata Anna var hins vegar glæsileg fjallkona og ég held að jafnmargir hafi meðtekið innhald ávarp fjallkonunnar og áður. Á hún hrós skilið fyrir sína frammistöðu.

Auðvitað eigum við að tryggja jafnan rétt kynjanna og umfram allt einstaklinganna en að ætla sér að troða stjórnunarstöðum upp á konur hvort sem þær vilja eður ei er eins og að setja lög um að allir eigi að vera húmoristar. Góð vinkona mín sagði einu sinni við mann sem hneykslaðist á að fólk hafi ekki skilið grínið í orðum sínum. „Ætlar þú að troða húmor í þetta fólk með teskeið?“

Guðni Gíslason

 

14. júní 2007, 24. tbl. 25. árg.

Ekki hef ég oft heyrt um að fólks sé skammað fyrir að vinna heimavinnuna sína. Þetta upplifði ég þegar ég hlustaði á Gunnar Svavarsson, á bæjarstjórnarfundi, hneykslast á að Rósa Guðbjartsdóttir skyldi leyfa sér að láta arkitekt skissa upp hugmyndir að endurbótum í Hellisgerði sem hún lagði svo fyrir í afmælisnefnd bæjarins. Hver gaf Gunnari Svavarssyni rétt til þess að dæma um það hvaða aðferðir eru réttar og hvaða aðferðir eru rangar. Er talað orð bæjarfulltrúa eina leyfilega tjáningarformið við framlagningu tillagna? Ágætur vinur minn, reynsluboltinn Gunnar sýndi þarna ótrúlegan hroka með orðum sínum í bæjarstjórn og vil ég biðja bæjarfulltrúa að horfa að kjarna málefnanna. Nær hefði verið að bæjarstjórn hefði verið búin að samþykkja að hefja Hellisgerði upp á sinn forna stall með föstu starfsfólki og fjármunum til að koma Hellisgerði í það form að við bæjarbúar gætum orðið stoltir af og til að reka garðinn af rausnarskap. Reyndar er ég orðinn langþreyttur á að berjast fyrir endurbótum Hellisgerðis og get ekki að því gert að bjartsýni mín dvín með hverju árinu. Vonandi kemur bæjarstjórnin mér á óvart.

Hins vegar kom fátt á óvart í umfjöllun bæjarstjórnar á breytingu á deiliskipulagi á Strandgötunni þar sem leyfa á 5 hæðir í viðbót við gildandi skipulag. Samt leyfir bæjarfulltrúi, Gísli Ó. Valdimarsson að kynna þetta sem „3 hæðum lægra hús en upphaflega var kynnt“. Það er ljóst hvers hag bæjarfulltrúar bera í brjósti. Það er mikið virðingarleysi við miðbæinn að ætla með svona í gegn í stað þess að fá tillögur að endurbættu skipulagi fyrir allan miðbæinn.

Guðni Gíslason

 

6. júní 2007, 23. tbl. 25. árg.

„Ertu í bæjarvinnunni?“ Hæðnistónninn leynir sér ekki og „sök“ hins vinnandi er að tína upp drasl utan við lóð sína. Kannist þið við þetta? Auðvitað er þetta ótrúlega barnalegt og ætti sérhver sem ljær hendi við að hreinsa eða fegra umhverfi sitt að uppskera hrós náungans en ekki háð.

Bjartir rigningadagar líða nú hjá. Rennblaut listin og menning býðst bæjarbúum sem öðrum og stundum er vel mætt en stundum ekki. Velti ég því stundum fyrir mér hvort við Hafnfirðingar séum sérstaklega áhugasamir um menningu, svo ég tali ekki um listina. Við kvörtum yfir því að þetta og hitt vanti en mætum svo ekki sjálf. En kannski viljum við annað form? Viljum við listina í matvörubúðirnar, á vinnustaðinn og hátíðir út í hverfin? Sem betur fer eru skoðanir okkar misjafnar en gaman væri þó að vita betur hvað bæjarbúa vilja, kannski viljum við hafa þetta eins og þetta er en getum svo ekki gefið okkur tíma til að njóta.

Ég naut sjómannadagsins úti á sjó og á bryggjunni. Skömm er að svona dagur skuli ekki fá meiri stuðning en raun ber vitni. Saga okkar byggist á sjómennsku og því skiptir ekki máli hversu mikinn kvóta við eigum nú eða frystihús. Sjómennskan er hluti af sögu okkar og eigum við að gera henni hátt undir höfði. Hvar er sjómannasagan í bænum? Falin undir egypskum pýramíta í Pakkhúsinu? Hluta má sjá á Byggðasafninu en betur má gera en það og þetta ætti að vera verk menningarmálanefndar fyrir næsta sjómannadag: Hvernig ætlum við Hafnfirðingar að minnast undirstöðuatvinnugreinar bæjarbúa um aldir?

Guðni Gíslason

 

31. maí 2007, 22. tbl. 25. árg.

Bjartir dagar hefjast í dag. Þessi 10 daga hátíð býður upp á fjölbreytta listviðburði, málverkasýningar, söng, leikhús, tónleika og margt fleira. Mér hefur oft fundist hátíðin hafa runnið framhjá mér án þess að ég hafi haft tækifæri til að njóta og jafnvel taka eftir. Kannski ætti hún að standa í lengri tíma svo fleiri næðu að njóta? Hafnfirðingar halda nú í fyrsta sinn þjóðahátíð eins og algengt er víða úti á landi. Ég leit við á einni slíkri á Ólafsvík fyrir ekki löngu þar sem Hafnfirðingur réð ríkjum. Við þurfum hins vegar að sækja til Reykjavíkur, til Alþjóðahúss af því að við erum óvanir að umgangast útlendinga. Hér búa og hafa búið útlendingar frá fyrstu tíð. Hér voru útlendir skútusjómenn og kaupmenn svo það er í rauninni undarlegt að fjölmenningin hafi ekki rist dýpra hér en raun ber vitni. Vonandi að þessi þjóðahátíð verði fyrsta skrefið af mörgum þó að vissu leyti séu útlendingar settir á bás með slíkri hátíð. Hefðu Akureyringar og Vestmannaeyingar í Hafnarfirði ekki átt að fá bás? Öll erum við mismunandi en öll jöfn. Það er til fleira jafnrétti en jafnrétti karla og kvenna!

Sóðaskapur eykst í Hafnarfirði. Foreldrar eru slæmar fyrirmyndir barna sinna, svo einfalt er það að mínu mati. Af hverju þarf bíósalur að líta út eins og eftir loftárás að sýningu lokinni? Hvaða fordæmi gefur það? Sama gildir um íþróttahúsin, hvaða fordæmi er verið að sýna. Maður var um helgina dæmdur til að greiða 10 þús. kr. fyrir að kasta af sér vatni á lögreglubifreið. Þarf virkilega að henda ruslinu í lögreglubifreiðar svo lögreglumenn geri athugasemdir við sóðaskap? Vertu góð fyrirmynd, hentu ekki rusli á jörðina okkar!

Guðni Gíslason

 

24. maí 2007, 21. tbl. 25. árg.

Stjórnarmyndunin fór svipað og hér hafði verið spáð enda gátu sjálfstæðismenn ekki gert kjósendum það og sjálfum sér að dvelja í hjónasæng með Framsókn. Nú er búið að mynda fjólubláu stjórnina og svo virðist sem Ingibjörg Sólrún hafi frekar látið kynferði ráða en úrslit kosninga. Það hlýtur að vera undarlegt að hlaupið sé framhjá tveimur þingmönnum kjördæmis áður en ráðherra er valinn. Það er undarlegt þetta jafnrétti. Kannski að hæfasta fólkið hafi verið valið og þess vegna hafi Gunnari Svavarssyni og Katrínu Júlíusdóttur verið hafnað. Kjósendur Samfylkingarinnar völdu Gunnar umfram Þórunni en formaðurinn valdi Þórunni. Við Hafnfirðingar hljótum að vera óhressir með að fá ekki Gunnar í ráðherrastól og hefði verið kominn tími til að fá Hafnfirðing sem samgönguráðherra.

Sjálfstæðisflokkurinn ruggaði ekki mikið sínum báti, losaði sig ekki við Björn hinn strikamerkta og tók brosmilda Orkuveituformanninn Guðlaug Þór Þórðarson og gerði hann að heilbrigðisráðherra. Hvað hafði hann gert af sér eða Sturla sem ekki fékk að sitja lengur. Fyrrum Hafnfirðingurinn, Árni Mathiesen er greinilega öruggur í sessi enda fékk hann að vera með í stjórnarmyndunarviðræðunum en ekki okkar maður, Gunnar. Það verður spennandi að sjá í hvaða átt stjórnin stefnir og hvort samstarf bæjarstjórnarflokkanna hér muni breytast.

Guðni Gíslason

 

16. maí 2007, 20. tbl. 25. árg.

Nú eru kosningar afstaðnar og allir túlka niðurstöðurnar sér í hag nema Framsókn, með þingsætalausan formann, sem grætur afhroðið en getur ekki slitið sig frá stjórnarborðinu. Reyndar trúi ég ekki á sjálfstæðismenn að þeir ætli sér í stjórnarsamstarf með tapliðinu. Óþekktarangarnir með Árna Johnsen, jafnvel niðursettan á lista, í forystu eru varla öruggustu oddamennirnir. Meirihlutinn þarf að vera sterkari og það sjá sjálfstæðismenn. Ég spái samstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, kannski í draumsýn að stjórnarflokkarnir í Hafnarfirði eigi eftir að vinna betur saman að heill Hafnarfjarðar, sennilega veitir ekki af eftir afneitun á álversstækkun. Annars er skondið að hugsa til þess að lægra hlutfall kjósenda kaus stjórnarflokkana í þingkosningunum en kusu með álverinu!

Og talandi um álverið þá fær bæjarstjórinn í Hafnarfirði prik fyrir að viðurkenna sannleikann í viðtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku, viðurkenna að Alcan hafi tillögurétt eins og önnur fyrirtæki í bænum. Það er gaman að bera álversmálið við hugmyndir að háhýsi í miðbænum, fyrst er bæjarfulltrúum kynnt 12 hæðir, bæjarbúum 10 hæðir og nú bæjarfulltrúum 9 hæðir. Deiliskipulagið segir 4 hæðir og hvar skyldi þetta enda. Hvað fær byggingaraðilinn margar tilraunir?

Í SVkjördæmi eru 12 þingmenn, 6 konur og 6 karlar og tveir karlanna eiga lögheimili utan kjördæmisins. Athyglisvert er að Vlistinn tefldi fram þremur Reykvíkingum í fyrstu fimm sæti listans, Samfylkingin tveimur og Flisti einum. Til hvers er að vera með landið skipt í kjördæmi ef menn geta boðið sig fram hvar sem er á meðan kjósendur eru bundnir við staur?

Guðni Gíslason

 

10. maí 2007, 19. tbl. 25. árg.

„Sannleikurinn er hverjum sagna sárastur“. Á þetta við um formann Hauka sem fyrtist yfir umfjöllun hér í leiðara um fjármál íþróttafélaga og hunsaði eina hafnfirska blaðið þegar gerður var auglýsingasamningur um íþróttaskóla og sagðist ætla að beina fréttum frá Haukum til keflvísks blaðs sem hér er dreift. Segir þetta mér að allt hafi verið í lagi í fjármálarekstri handknattleiksdeildar Hauka? Gott ef svo hefði verið. Það er ótrúleg viðkvæmni ef menn þola ekki að fjallað sé um fjármál íþróttafélags sem sækir um lausnir í skattfé íbúa Hafnarfjarðarbæjar. Reyndar var hér ekki fjallað um einstakt íþróttafélag, heldur aðeins brýnt á því að menn bæru ábyrgð á eigin gjörðum og fjármálaskuldbindingum. Nei, formaðurinn sýndi þarna ekki mikinn íþróttaanda og hlýtur hann að skera sig frá flestum öðrum Haukamönnum sem ég þekki. Ekki þurfa þeir að líða fyrir viðkvæmni formannsins sem fannst heldur ekki nægilega fjallað um Haukana í Fjarðarpóstinum. Það er alltaf gott að vera í þeirri stöðu að geta heimtað af öðrum. Ég er gamall FHingur en get keikur sagt frá góðum árangri Haukamanna eins og annarra.

Nú skal kjósa á laugardaginn og sjaldan hef ég verið eins óöruggur með hvað ég kýs. Reyndar hafa sumir verið með áskrift að atkvæði mínu en þeirri áskrift hefur verið sagt upp. Ég vil kjósa einstaklinga sem hafa góða yfirsýn, skoða málin vel og þora að taka upplýsta ákvörðun án hræðslu við atkvæðamissi. Er einhver svona í framboði núna? Verst er að maður er bundinn við að kjósa fylkingar sem hefur verið misgáfulega raðað upp og maður verður að taka allt eða ekkert. Þá er að velja skásta kostinn og þá er bara að vita hverjum maður getur treyst best. Sá á kvölina sem á völina!

Guðni Gíslason

 

3. maí 2007, 18. tbl. 25. árg

Hvað er íbúalýðræði? Og hvers vegna íbúalýðræði? Ég verð að viðurkenna að ég tárfellist ekki af gleði þegar hluti bæjarstjórnar býður mér íbúalýðræði, sem hann hefur sjálfur skilgreint. Ég og aðrir kjósendur völdum þessa einstaklinga (lesist flokka) til þess að stjórna bænum. Síðan dettur þeim í hug að skammta okkur lýðræði! Væri ekki nær að bæjarstjórnin legði meiri rækt við að gera stjórnun bæjarins skilvirkari og meira í takt við vilja bæjarbúa? Bæjarbúar vilja hreinni bæ, sópaðar götur, útivistarsvæði, leiksvæði fyrir börnin og fl. Þetta veit bæjarstjórnin. Þarf nokkuð að kjósa sérstaklega um það? Í bæjarfélaginu eru ýmsar leikreglur og deiliskipulag er ein þeirra. Bæjarbúar gerðu engar athugasemdir við það þegar deiliskipulag miðbæjarins var samþykkt fyrir örfáum árum, sem gerði ráð fyrir 4 hæða húsum við Strandgötu. Samt sem áður leyfir bæjarstjórnin verktaka að vinna tillögu að breytingum sem gera ráð fyrir stórkostlegum frávikum frá samþykktu skipulagi. Er þetta að fara að vilja bæjarbúa? Til hvers er verið að eyða tíma og fé bæjarins og bæjarbúa með því leyfa verktaka að vinna að tillögu að 10 hæða húsi? Samrýmist það á einhvern hátt samþykktu deiliskipulagi að miðbænum? Ég segi nei og því á ekki að gefa verktökum falsvonir um að hugsanlega verði leyft að byggja 68 hæðir, hvað þá 1012 hæðir. Ágætu bæjarfulltrúar: Þið voruð ekki kosnir til að sitja hjá í þessu máli frekar en öðru. Ef þið ætlið að sitja hjá við afgreiðslu mála í bæjarstjórn er alveg eins gott að þið tilkynnið afsögn ykkar. Það kaus enginn fólk í bæjarstjórn til þess að láta það vera að taka afstöðu. Þið voruð kosnir til þess að stjórna, þess vegna eruð þið kallaðir stjórnmálamenn. Hjásetumenn eru ekki stjórnmálamenn.

Guðni Gíslason

 

26. apríl 2007, 17. tbl. 25. árg.

Hreinsunarvika hefst í bænum á laugardag og stendur til næsta laugardags. Sérprentaðir ruslapokar eru sendir inn á hvert heimili og fólk er hvatt til að taka til. Að vísu er einungis tekið við garðaúrgangi en annað þurfa bæjarbúar sjálfir að fara með í Sorpu. Auðvitað væri skemmtilegra ef þessi vika væri nokkurs konar syndaaflausnarvika draslarans þannig að bæjarfélagið tæki við öllu drasli þessa viku en við getum þó huggað okkur við að trjágreinar eru teknar en Sorpa í Miðhrauni hefur hætt að taka á móti slíku, hversu undarlegt sem það er. Ég vildi að þessi hreinsunarvika væri aðeins fyrsta skref að nokkrum á sumrinu en viðhorfsbreytingu þarf til hér í bæ til að gera bæinn fallegan. Bæjarbúar þurfa að hætta að henda drasli út um bílglugga og á víðavangi, þrif í bænum þarf að stórauka, sópa þarf götur og gangstéttar oftar. Einnig þarf að klippa gróður sem skagar út á gangstéttar og mætti nota til þess stórvirkar vélar því löngu er ég hættur að búast við að margir samborgarar mínir sýni þá tillitssemi að klippa sjálfir.

Ég ítreka einnig hvatningu til þess að skipa „hreppsstjóra“ í hverju hverfi sem hvetur til hreinsunarátaka og skemmtana í hverfinu sínu. Kannski ætti Þjónustumiðstöðin að eiga vagn með verkfærum, pokum og góðu grilli til að lána út í hverfin á sumrin. Annars er engin ástæða til að bíða eftir frumkvæði frá bæjaryfirvöldum, hver og einn getur tekið sér poka í hönd og þrifið í kring um sig.

Núna fara bæjarbúar að horfa til kosninga og sífellt verður erfiðara að greina mun á áherslum flokkanna. Svo má ekki gleyma að ekki er sama loforð og efndir.

Guðni Gíslason

 

18. apríl 2007, 16. tbl. 25. árg.

Kaþólska biskupsembættið vill nú byggja á Jófríðarstöðum þar sem það áður óskaði eftir að þeim yrði tryggt svæði næst kirkjunni til að tryggja að kirkjan fengi að fullu að njóta sín og lögðu kirkjunnar menn áherslu á að ekki yrði byggt nærri kirkjunni. Nú er biskupsembættið í fjárhagsvanda og hann á að leysa með því að láta verktaka byggja fjölbýlishús á svæðinu gegn vilja sóknarbarna. Oft hefur peningavaldið verið ganrýnt í prédikunarstól og fróðlegt að vita hvað umræðuefnið er nú í kaþólsku kirkjunni. Það mætti halda að markvisst eigi að afmá græn svæði í Hafnarfirði svo hart er gengið að óbyggðum svæðum í bæjarlandinu. Einhvern veginn finnst mér eðlilegt að skýr stefna sé mörkuð um að græn svæði séu tekin varanlega frá sem útivistarsvæði. Það nær ekki nokkurri átt að skipulagi sé breytt með nokkurra ára fresti. Til hvers er eiginlega verið að gera skipulag? Var ekki vandað til þess í byrjun? Hægt og hljótt er deiliskipulagstillagan auglýst og fólk áttar sig ekki fyrr en of seint að of seint er að gera athugasemdir  með rökum. Um svona atriði er ekki kosið. Íbúalýðræðinu var framfylgt með asnalegum álverskosningum.

Rannveig Rist og Wolfgang Stiller, stjórnarformaðu Alcan á Íslandi funduðu með iðnaðarráðherra og Landsvirkjunarfólki. Bæjarstjórinn fékk ekki að vera með enda klúðraði hann málum fyrir Alcan. Hann hefur lýst því yfir að ekki verði tekin fyrir ný deiliskipulagstillaga um Alcan svæðið. Samrýmist það jafnræðisreglum? Aðrir fá að koma með nýjar tillögur! Kannski Rannveig og Wolfgang vilji fylla út í sjó og reisa álver á uppfyllingu, það væri ný tillaga sem mætti láta auglýsa!

Guðni Gíslason

 

12. apríl 2007, 15. tbl. 25. árg.

Hafnarfjarðarbær er ekki klofinn eftir niðurstöður í íbúakosningum. Enginn hleypur eftir götum bæjarins og fagnar, enginn læðist um að nóttu og brýtur rúður í óánægjukasti  en það er sem bæjarbúar svífi í lausu lofti. Svífi í lausu lofti og viti ekki hvort þeir eigi að vera ánægðir eða óánægðir. „Íbúalýðræðið“ 31. mars sl. upplifist kannski eins og framhjáhald, spennandi á meðan það var en nagandi og skemmandi á eftir. Hvað gerum við nú?

Fyrir nokkrum árum síðan var samþykkt deiliskipulag fyrir miðbæinn sem gerði ráð fyrir 4 hæða húsum við Strandgötuna. Þetta hlýtur að hafa verið gert að yfirlögðu ráði og stefnan mörkuð um yfirbragð miðbæjarins. Eða hvað? Blettadeiliskipulagsaðferðin er orðin allráðandi og bara ef einhverjum dettur í hug að þrefalda hæð húsa þá skal hann fá leyfi til að gera tillögu að breyttu deiliskipulagi á þeirri einu lóð. Eru menn búnir að gleyma að bæjarstjórnin samþykkti að leggja undir dóm bæjarbúa hvort auglýsa skyldi deiliskipulagstillögu fyrir svæði undir stækkað álver. Sú tillaga fékk aldrei stjórnsýslulega og lýðræðislega meðferð! Er ekki hægt að fá að treysta á að leikreglurnar séu virtar? Er það ekki lýðræðisleg krafa? Enn á ný er miðbærinn okkar leiksoppur framkvæmdaaðila. Síðast var það Fjörður sem kostaði Hafnarfjarðarbæ offjár og miklar deilur. Enn á Hafnarfjarðarbær bílakjallarann þar og hefur verulegan kostnað af. Af hverju?

Ég spyr enn og aftur: Af hverju er ekki skipulögð hugmyndasamkeppni um framtíðarútlit miðbæjarins okkar? Fáum ferskar hugmyndir og látum ekki háhýsi og bílastæðahús einkenna okkar gamla miðbæ. Fáum fleiri með hugmyndir til að vera með.

Guðni Gíslason

 

4. apríl 2007, 14. tbl. 25. árg.

Allir dásama íbúalýðræðið í Hafnarfirði. Hvaða íbúalýðræði? Þegar örfáir fái að koma að vali á lista stjórnmálaflokkanna? Þegar íbúarnir fá ekki að kjósa um aðalskipulagsbreytingar? Þegar íbúar fengu ekki að kjósa um breytingu á Reykjanesbrautinni? Auðvitað er gott að íbúarnir fái að kjósa um meiriháttar mál og segi sína skoðun en ekki þegar mál eru komins svona langt. Þar er Árni Mathiesen sammála mér eins og hann hefur tjáð sig um. Bæjarstjórinn skammaðist út í ráðherrana, Árna fyrir að hafa ekki komið lögum um breytingu á skattaumhverfinu í gegn, Jón Sigurðsson fyrir að tjá skoðun sína og flokk hans fyrir að hafa aðeins fengið nokkur hundruð atkvæði í Hafnarfirði en nefndi ekki hvað fá atkvæði dugði til að komast á lista bæjarstjórans. Bæjarstjórinn er eðlilega óhress með niðurstöðu kosninganna enda lýsti hann sig fylgjandi stækkun á kynningarfundi í Hafnarborg 5. september 2005 eins og þáverandi oddviti Sjálfstæðisflokksins gerði einnig.

Dr. Gunnar Helgi Kjartansson, prófessor í stjórnmálafræði segir niðurstöður kosninganna lagalega bindandi, ekki bara á þessu kjörtímabili. Það kann vel að vera en hann tekur þá ekki afstöðu til ósamræmis í spurningu og samþykktar bæjarstjórnar, né minnist hann á að þetta ætti aðeins við um þá deiliskipulagstillögu sem lögð var fram. Með breyttri tillögu væri þessi samþykkt hins vegar ekki bindandi.

Framundan eru hins vegar páskar og lítið gagn í að velta sér upp úr niðurstöðu kosninganna, þær standa en ég hef trú á, þrátt fyrir samkeppnisfullar yfirlýsingar, að bæjarfulltrúar leiti nú leiða að einfaldara og skilvirkara íbúalýðræði — fólkið með í ráðum.

Guðni Gíslason

 

29. mars 2007, 13. tbl. 25. árg.

Er það ráðstjórn að vilja að íbúar fái fyrr að koma að mótun hugmynda að framtíðarsýn bæjarins? Ekki er svo ef marka má orð forseta bæjarstjórnar sem segist fylgja beinu lýðræði!

Er eðlilegt að hafa stjórnmálamenn í vinnu sem leyna skoðunum sínum á mikilvægum málefnum bæjarfélags síns? Ég segi nei. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar eru haldnir „ábyrgðarfælni“ og það er mikil óánægja með þessa ábyrgðarfælni meirihluta bæjarstjórnar. Ég er hins vegar alveg sammála forseta bæjarstjórnar að bæjarbúar vilji taka meiri þátt í ákvarðanatöku í bænum. Samfylkingin boðaði íbúaþing sem m.a væri skref í þá átt. Þetta var kosningaloforð fyrir 5 árum. Aðeins eitt íbúaþing var haldið og fyrir síðustu kosningar var kosningu um álver lofað. Er þá efndum um aukið íbúalýðræði lokið? Ekki voru efndirnar miklar á síðasta kjörtímabili.

Ég er ekki andstæðingur meirihluta eða minnihluta bæjarstjórnar, ég er tilbúinn að styðja alla til góðra verka en það truflar mig að landsmálaflokkarnir séu að blanda sér í bæjarmálefni Hafnarfjarðar. Ég hef áður sagt að bæjarfulltrúarnir eru allir jafnaðarmenn í besta skilningi þessa orðs. Almar vill greiðslur til eldri borgara, Ellý vill einkaskóla og svona mætti nefna um hvern og einn. Flokkadrættir eiga því ekki heima í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

Hvernig sem kosningin á laugardaginn fer, þá situr eftir að stjórnkerfi Hafnarfjarðar er orðið óljóst og engin skilgreining til á stórum og litlum málum. Aldrei hefur t.d. verið kosið um aðalskipulag sem er grundvöllur að framtíðaruppbyggingu bæjarins. Enn á ný skora ég á bæjarstjórn að samþykkja að taka upp vottað gæðakerfi við stjórnun bæjarins og framkvæmdir á hans vegum.

Guðni Gíslason

 

22. mars 2007, 12. tbl. 25. árg.

Nú fer að líða að því að Hafnfirðingar verði að gera upp hug sinn um stækkun álversins. Upplýsingar flæða yfir okkur en það er svo skrýtið að þær hjálpa sáralítið. Hagfræðistofnun Háskólans gerir tvær skýrslur, fyrir Hafnarfjarðarbæ og Alcan. Sömu tölur og forsendur notaðar en mismunandi tölur birtar. Andstæðingar segja ábatann lítinn skv. skýrslunni fyrir Hafnarfjarðarbæ en þar er átbatinn sýndur sem mismunur á tekjum sem bærinn hefði ef af stækkun verður á móti tekjum sem bærinn hefði af annarri starfsemi sem yrði á þeirri lóð sem stækkunin hefði orðið á. Þetta er eðlilegur samanburður en segir mér samt ekkert um ábatann! Ef álverið verður stækkað verður samt byggt á iðnaðarsvæðinu í kring og af því hefur bærinn tekjur. Þær tekjur eru ekki með í samanburðinum. Tölur má nota á alla vegu sem sést best á því að hagurinn hefur verið sýndur frá 100 milljónum upp í 1400 milljónir. Hverju eigum við svo að trúa.

Þetta segir mér að þessi kosning byggist mest á tilfinningalegum skoðunum fólks fremur en skoðunum byggðum á tölulegum upplýsingum um hag og mengun. Hins vegar er það skondna við þessar kosningar að álverið hefur þegar starfsleyfi fyrir 460 þúsund tonn, hafði starfsleyfi fyrir 200 þúsund tonnum og gæti Alcan framleitt 460 þúsund tonn með því að endurnýja búnað í núverandi húsnæði þyrfti ekkert nýtt skipulag og þá yrði engin kosning enda er bara verið að kjósa um það hvort senda eigi tillögu að deiliskipulagi í eðlilega málsmeðferð þar sem hægt er að gera athugasemdir með rökum. Í komandi kosningum er hins vegar ekki spurt um rök, þannig er íbúalýðræðið í Hafnarfirði í dag.

Guðni Gíslason

 

15. mars 2007, 11. tbl. 25. árg.

Það er ekki að furða að fulltrúar Samfylkingarinnar í bæjarstjórn geti ekki tekið afstöðu í álversmálinu. Þeir vildu að vísu senda deiliskipulagið í auglýsingu og samþykktu stækkunina, bara ef bæjarbúar segðu já. Ég vil ef þú vilt. Þetta er svo nefnt því fallega orði íbúalýðræði. Það er seint í rassinn gripið að „fatta upp á því“ núna fyrst. Nei, þeir gátu ekki tekið afstöðu af því að upplýsingar vantaði! Í síðustu viku var dreift inn á öll heimili gríðarlegum gráum doðranti sem ætlað var að hjálpa bæjarbúum að taka afstöðu. Margir sem ég hef spurt sögðust hafa lagt hann snarlega frá sér er þeir sáu umfangið og innihaldið. Endalaus texti og fátt um svör.

Ekkert sem hjálpar fólki að átta sig á mengunarþáttunum. Hvað er þetta mikið í samanburði við aðra mengun? Hvað kemur mikið svifryk frá Reykjanesbrautinni sem aðeins er sópuð einu sinni á ári? Iðnaðarhverfinu? Örfoka upplandinu? Okkur vantar allan samanburð til að taka þessa ákvörðun sem bæjarstjórnin þorir ekki að taka.

Vitlaususta tillaga sem ég hef heyrt er að skattleggja notkun nagladekkja. Ekki eftir notkun, heldur dagafjölda sem dekkin eru á bílnum. Auðvitað á að hvetja til að minnka notkun nagladekkja en nær væri þá að takmarka akstur þungra bíla sem slíta vegum margfalt á við minni bíla. Engum, nema Halla í Furu dettur í hug að þrífa göturnar, því það kemur meira á þær en slit frá nöglum. Vörubílar aka með blautan jarðveg úr húsagrunnum sem lekur á göturnar, sandur eftir hálkuvörn vetrarins fýkur um og götusóparnir anna engan veginn að þrífa gangstéttar og götur. Það kostar að hafa alla þessa bíla á götunum en bíleigendur greiða líka háu verði að fá að aka bílunum og því er líka hægt að gera kröfur.

Guðni Gíslason

 

8. mars 2007, 10. tbl. 25. árg.

Í umræðunni um stækkun álversins í Straumsvík virðast allir sammála um að það skipti máli að enginn missi atvinnu sína. Fylgjendur segja atvinnu aukast mikið og andstæðingar segja að eitthvað annað komi í staðinn. Kannski er vitleysa að horfa á Hafnarfjörð sem eitt atvinnusvæði, kannski er alveg eins gott að hafa fyrirtækin í nágrannabyggðunum og láta fólkið sofa hér í bæ. Reyndar er víst afarhagstætt að hafa atvinnuhúsnæði í bænum, af þeim eru heimtt svo há fasteignagjöld að bæjarfulltrúa meirihlutans næstum blöskraði.

Það kom mér á óvart á fundi Samtaka atvinnulífsins í Hafnarborg fyrir skömmu hversu lágt hlutfall verslunar væri af atvinnulífi bæjarins, hlutfallið var lægra en landsmeðaltal. Af hverju er ekki öflugri verslunarstarfsemi í bænum? Af hverju er ekki gróska í miðbænum? Verslunareigendur höfðu í annað sinn lengur opið á fimmtudögum til að krydda miðbæjarlífið. Fjarðarpósturinn lá ekki á liði sínu og sagði myndarlega frá því þegar fyrst var lengur opið og verslunareigendur voru ánægðir með viðbrögðin. En þegar kom að því að auglýsa lengri opnunartíma fannst hafnfirskum verslunareigendum greinilega ekki nokkur ástæða að leita til bæjarblaðsins, nei, það er greinilega betra að versla í Reykjavík og betla um styrk til bæjarins. Verslunareigendur í Firði sögðu að það hefði verið steindautt, ekkert að gera. Skyldi engan undra. Af hverju ættu almennir bæjarbúar að versla í Hafnarfirði þegar verslunareigendurnir sjálfir fara annað? Kannski það eina sem bjargi verslun í Hafnarfirði verði áframhaldandi umferðateppur á leið til Reykjavíkur. Þá eigum við ekki annarra kosta völ.

Guðni Gíslason

 

1. mars 2007, 9. tbl. 25. árg.

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar vilja stækkun álversins í Straumsvík. Mér er alveg sama þó þeir vilji ekki gefa upp afstöðu sína þá samþykktu þeir í bæjarstjórn að senda deiliskipulagstillöguna í auglýsingu. Hún var samþykkt með fyrirvara um samþykki í íbúakosningu. Þeir túlka kosninguna um hvort auglýsa eigi deiliskipulagstillöguna, kosningu um hvort byggja eigi álver og því hafa bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar samþykkt stækkun álversins í Straumsvík. Það er ekki flóknara en svo.

Það er ótrúlegt hvað sparisjóðsmálið kemur oft upp í huga manns. Góðverk stjórnenda Sparisjóðs Svarfdælinga fær mann auðvitað til þess að hugsa hvað hefði gerst í Hafnarfirði ef „bankaræningjarnir“, eins og ég hef heyrt stofnfjáreigendurna nefnda, hefðu haft sama hugsunarhátt og þeir fyrir norðan? Nei, henni er misskipt gæsku mannanna. Enn bólar ekkert á lausn fjárhagsvanda Haukanna og engar tillögur hafa enn verið lagðar fram. Meirihluti bæjarstjórnar er sagður ásaka minnihlutann um að draga lappirnar en hvenær fór að þurfa á minnihlutanum að halda?

Meirihlutinn væri búinn að leggja fram tillögu í málinu ef þeir hefðu kjark til þess. Kannski á að kjósa um þetta. Kannski á að bjóða þjónustuna við Haukana út skv. útboðsstefnu bæjarins? Ekkert hefur heldur heyrst um kröfur um að bærinn borgi 80% í boltatínsluvél fyrir golfklúbbinn eftir að læða átti málinu í gegnum kerfið en var stoppað af oddvita Sjálfstæðisflokksins sem ku vera illa liðinn af golfforystunni fyrir vikið. Það er líklega erfitt að vera í pólitík og vera vinsæll á sama tíma.

Guðni Gíslason

 

22. febrúar 2007, 8. tbl. 25. árg.

Á þessum tíma árs hefur mér oft fundist friðsamlegt, en svo er ekki nú. Hart er deilt um stækkun álversins, komu klámmyndaframleiðenda til landsins, árásargirni Bandaríkjaforseta auk þess sem menn hneykslast á sofandahætti stjórnvalda sem dældu út peningum í Byrgið án nokkurs aðhalds. Oft hefur þessi tími árs verið rólegur, allavega í Hafnarfirði. En svo er ekki nú og það er margt sem deila má um. Hvort reisa eigi 12 hæða hús við Strandgötuna, reisa fimm hæða hús við Flatahraunið, reisa einbýlishús í Stekkjarhrauni, hvort bæjarsjóður eigi að bjarga illa reknum íþróttafélögum og jafnvel hvort alltaf eigi að borga 80% af öllum byggingum íþróttafélaga, sama í hvað byggingarnar eru notaðar.
Álögur á fasteignaeigendur hækka og spyrja má hvaða vit sé í því að tengja gjald fyrir vatn og frárennsli við verðmæti húss og lóðar. Menn kvarta yfir því að t.d. rafhlöðum sé ekki skilað til eyðingar. Hins vegar þurfa íbúðareigendur að greiða fyrir s.k. græna tunnu og greiða lágmarksgjald ef einni flís er skilað í Sorpu, nema starfsmaðurinn þar sé í góðu skapi og brjóti á gjaldskránni fyrir viðskiptavininn. Auðvitað hendum við alltof miklu en betra er að hafa móttöku sorps góða og gjaldfrjálsa heldur en að fólk hendi drasli á víðavangi. Hins vegar mætti setja skilagjald á sígarettustubba, ekki seinna vænna áður en landsmenn verða reknir út með óþverrann sinn.

Ég skora á bæjarstjórn Hafnarfjarðar að taka betur á sorpmálum bæjarins og gera Hafnarfjörð að hreinum bæ. Hann er það alls ekki núna og bæjarbúar skulda bænum snyrtimennsku í afmælisgjöf.

Guðni Gíslason

 

15. febrúar 2007, 7. tbl. 25. árg.

Bæjarstjórnin var einhuga þegar hún beindi því til stjórnar Strætó, að hún taki upp viðræður við umhverfisráðuneytið og samgönguráðuneytið um möguleika ráðuneytanna í kostnaði við gjaldfrjálsar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er kannski bara hænufet áleiðis en skref í rétta átt. Kannski það takist að fá fólk til að nýta almenningssamgöngur og spara þessa gríðarlegu bílanotkun. Hins vegar vissi fráfarandi framkvæmdastjóri Strætó ekki hverjar tekjur væru af innanbæjarakstri í Hafnarfirði þegar undirritaður spurði hann svo eitthvað vantar upp á að lykiltölur í rekstrinum liggi fyrir.

Nú er búið að stofna samtök til stuðnings stækkun álversins. Þar fóru fremstir, forsvarsmenn fyrirtækja sem vinna mikið fyrir Alcan og segja þeir einsýnt að verði álverið ekki stækkað, verði það lagt niður og það muni hafa gífurleg áhrif á fjölmörg fyrirtæki í Hafnarfirði. Spennandi verður að sjá hvernig þetta nýja félag ætlar að berjast fyrir sínum skoðunum en þetta sýnir þó að Hafnfirðingar geta, ef hart er barið á, hópast saman um málefni sem skipta bæjarbúa miklu. Gaman væri ef bæjarbúa létu sig skipulagsmál almennt skipta máli og mættu á auglýsta fundi sem Hafnarfjarðarbær stendur fyrir. Hverfafundir, lesist íbúaþing, mættu vera haldnir reglulega og verður fundur íbúa í Vestur og Norðurbæ vonandi til þess að auka áhuga íbúa hverfanna á umhverfi sínu og að standa vörð um útivistarsvæði. Víðistaðatúnið er gott dæmi um svæði sem þarf að standa vörð um og það var ekki spennandi að hlusta á bæjarfulltrúa tala um að taka frá svæði undir grunnskóla við túnið, sem örugglega skerðir aðkomu og bílastæði við svæðið.

Guðni Gíslason

 

8. febrúar 2007, 6. tbl. 25. árg.

Nú er aldeilis hægt að smjatta á hlutunum því hvert deilu og hneykslismálið rekur annað. Það dugir ekki deila um álversstækkun, heldur hafa bæst við mál eins og kostunarmál svo ekki sé talað um hneykslismálið í Byrginu og óhugnanlegar frásagnir af illri veru drengja á vistheimlinu Breiðavík. Hafnfirðingar voru lengi að taka við sér í umræðunni um stækkun álversins í Straumsvík og frásagnir af vondri veru í Breiðuvík komu m.a. fram í bókinni „Stattu þig drengur“ árið 1980. Kannski er þjóðin nú betur undir það búin að takast á við erfið mál og hætt að reyna að hunsa allt fram af sér og halda að ekkert sé hægt að gera.

Kostun fyrirtækja er engin nýlunda og hafa íþróttafélögin nýtt sér þessa aðferð lengi auk þess sem ljósvakamiðlar hafa fengið fyrirtæki til að kosta sýningar og þáttagerð. Nú vilja fyrirtæki kosta vegalagningu yfir hálendið en vilja að sjálfsögðu fá fjárfestingu sína endurgreidda en það á við flesta kostun – allir vilja fá eitthvað fyrir sinn snúð. Fulltrúi VG í fræðsluráði kallar eftir upplýsingum um styrktarbeiðnir (hlýtur að eiga að vera styrktarboð) fyrirtækja til skóla bæjarins síðustu tvö ár og spyr hvort kostunarsamningar séu í gildi.

Peningaöflin eru komin til að vera og það hlýtur að vera eðlilegt að peningar renni aftur til þjóðfélagsins, annars væri ekkert gagn af þeim. Það hlýtur líka að vera jafn eðlilegt að þeir sem taki við kostun setji sér reglur eða lúti reglum og að tryggt sé að það sé enginn feluleikur með slíka samninga. Enginn gerir neitt nema gegn þóknun, hvort sem hún er í formi þakklætis eða ágóða og það þarf að vera ljóst hver ágóðinn er í hverju máli.

Guðni Gíslason

 

1. febrúar 2007, 5. tbl. 25. árg.

Nú er bæjarstjórn búin að samþykkja að auglýsa deiliskipulag vegna hugsanlegrar stækkunar álverksmiðjunnar í Alcan með fyrirvara um samþykkt bæjarbúa en áður en samþykktar voru málsmeðferðarreglur um framkvæmd slíkrar kosningar. Það verður spennandi að sjá hvað kosið verður í raun um.

Einhvern veginn finnst mér vel við hæfi að kalla eftir íbúaþingum núna þegar lýðræðinu er svo mikið hampað. Hvað varð um þau? Þeim var lofað á síðasta kjörtímabili og eitt var haldið  svona fyrsta tilraun. Lofaði Samfylkingin ekki íbúaþingum? Á ekki að efna öll loforð? Á einu slíku vildi ég gjarnan að rætt yrði um sóðaskap í bænum, ekki síst í iðnaðarhverfum bæjarins. Það virðast bara sum fyrirtæki eiga að hafa umhverfisstefnu og þurfa að ganga snyrtilega um á meðan önnur geta sóðað út eins og þeim lystir  og enginn gerir neitt.

Nú er frítt í Hafnarborg og Byggðasafnið og því ber að fagna. Mér hefur alltaf þótt skrýtið að stórum upphæðum er eytt í að setja upp sýningar, kalla til erlenda listamenn eða sérfræðinga en svo þegar almúginn á að bera menninguna augum skal hann borga fyrir hana. Sennilega hefur aðgangseyrir litlu skilað í kassann, hlutfallslega. Hrós til Glitnis að vilja borga. Er þetta ekki bara byrjunin, nægt fé virðist vera hægt að sækja í kassa bankanna ef marka má nýjustu afkomutölur. Mörg fyrirtækin eru orðin sterk og fleiri og fleiri fyrirtækjastjórnendur eru farnir að sýna listum og stuðningi við þjóðfélagsmál áhuga og vonandi eigum við nógu stór fyrirtæki sem áhuga hafa á að gera vel fyrir heimabæ sinn. Fyrirtæki ættu að vera stolt af því að vera frá Hafnarfirði, þar gerist þó alltaf eitthvað.

Guðni Gíslason

 

25. janúar 2007, 4. tbl. 25. árg.

Nú er ljóst að Alcan er tilbúið að leggja meira að mörkum til að minnka mengun stækkaðs álvers en áður. Það er alveg ljóst að andstaða og vinna andstæðinga stækkunar hefur kallað á þennan umsnúning álversmanna og þetta er nákvæmlega það sem almenn umræða í bæjarfélaginu á að gera. Það var enginn áhugi í bænum þegar umhverfismatið var kynnt og það leið langur tími þar til umræða fór af stað. Mikilvægt er að vilji bæjarbúa komi í ljós en það er ekki endilega víst að hann komi fram í kosningum. Af hverju ættu þeir sem ekki eru andsnúnir stækkun álversins og vinna ekki í neinu tengdu álverinu að leggja eitthvað af mörkum til að koma skoðunum sínum á framfæri og kjósa með álverstækkun? Til að tala máli eigenda Alcan? Til að klekkja á andtæðingunum? Til að láta lýðræðislega skoðun sína í ljós? Andstæðingarnir byggja sumir skoðun sína eflaust á viðhorfi til umhverfismála, til mengunarþátta og aðrir jafnvel bara af því að þeim finnst ljótt að sjá svona byggingar. Hvað munu kosningar segja okkur? Ekkert um skoðun fólks, nema hvort það sé með eða á móti. Bæjarfulltrúar eiga að taka ákvarðanir með hliðsjón af rökum sem lagðar eru fram. Þegar deiliskipulag er auglýst gefst íbúum kostur á að andmæla eða koma öðrum skoðunum sínum á framfæri, athugasemdir eru metnar og í framhaldinu er deiliskipulagið annað hvort auglýst aftur með áorðnum breytingum eða samþykkt og athugasemdir metnar þannig að ekki beri að taka tillit til þeirra. Þar dugar lítt röksemdin: „Mér finnst það ljótt“.

En það er ekki ljótt í Dólómítafjöllunum í SuðurTýról, núna þegar snjónum kyngir niður. Sonur minn, 18 ára vann þetta blað með góðri aðstoð bróður síns á meðan ritstjórinn renndi sér á skíðum. Ég er stoltur af strákunum.

Guðni Gíslason

 

18. janúar 2007, 3. tbl. 25. árg.

Umræðan um stækkun álversins í Straumsvík er orðinn sérkennilegur farsi. Þegar umhverfismat vegna stækkunar var lagt fram í júní 2002 var enginn áhugi bæjarbúa á málinu, sem varð forsíðufrétt hér í Fjarðarpóstinum 27. júní 2002. Í blaðinu þá voru kynnnt helstu umhverfisáhrif stækkunarinnar. Í árslok 2003 selur Hafnarfjarðarbær Alcan landssvæði, 52 hektara fyrir 290 millj. kr. vegna stækkunaráforma Alcan og skuldbindur sig til að útvega land undir nýtt vegastæði Reykjanesbrautar og að lagnir og línur verði færðar til á keyptu landi að kostnaðarlausu fyrir Alcan. Það er svo ekki fyrr en um mitt ár 2005 sem bæjarbúar vakna til lífsins og hafa skoðun á málinu og einn íbúi krefst kosninga um málið.

Það dylst engum að 170% stækkun álversins veldur verulegri mengunaraukningu í magni og hlutfallslega um 150% miðað við núverandi mengun. Hins vegar hefur ekki mikil umræða verið um auknar mengunarvarnir t.d. bæði þurr og vothreinsun en vothreinsun drægi verulega úr brennisteinsmengun.

Umræðan í dag snýst meira um það hver sagði hvað og hver lofaði hverju. Hver eigi að greiða fyrir færslu á raflínum og hver eigi að greiða fyrir færslu á Reykjanesbrautinni. Lá það ekki ljóst fyrir þegar bæjarstjóri seldi og afsalaði bænum landi við verksmiðju Alcan? Hvernig gat bæjarstjóri lofað færslu Reykjanesbrautar eigi síðar en þegar hagsmunir kaupanda kröfðust þess? Að kosningu verður ekki alveg í bráð því skv. bókun sem fulltrúar Dlista lögðu fram í bæjarstjórn og aðrir tóku undir er krafist vothreinsunar eftir þurrhreinsun og að ríkið eða Alcan greiði færslur Reykjanesbrautar og að fram komi hver borgi flutning á línustæði.

Guðni Gíslason

 

11. janúar 2007, 2 tbl. 25. árg.

Af hverju kusum við bæjarstjórn? Jú, til að taka ákvarðanir. Af hverju á þá að fara að kjósa um eitt deiliskipulag? Af því að Samfylkingin lofaði bæjarbúum að kosið yrði um meiriháttar mál! Jæja, hver metur hvað sé meiriháttar mál? Er nýtt línustæði fyrir háspennulínur meiriháttar mál? Það getur nú aldeilis haft áhrif á framtíðar íbúðarsvæði. Kannski of langt fyrir stjórnmála menn sem hugsa í 4 ára tímabilum að hugsa svo langt fram í tímann. Er blokkarbáknið á Norðurbakkanum meiri háttar mál? Er milljónaframlag til íþrótta og tómstundaiðkunar meiriháttar mál? Eða á kannski bara að kjósa um „neikvæð“ mál? Mér finnst þessi fyrirhugaða kosning hreinasta bull og bæjarstjórinn í Reykjanesbæ sagði réttilega að ef kjósa hefði átt um staðsetningu álvers við Helguvík hefði átt að gera það miklu fyrr. Annars finnst mér öfugsnúið þegar forstjóri Alcan á Íslandi heldur því fram að ekki verði hægt að reka álver í núverandi stærð í framtíðinni. Það gengur mjög vel nú, lágt raforkuverð og góður hagnaður. Hvað skyldi kosta móðurfélagið að leggja slíkt ver niður? Ég frábið mér svona röksemdafærslu. Auðvitað vilja fyrirtæki stækka og eflast en það eiga þau ekki að gera á kostnað samvisku bæjarbúa Hafnarfjarðar. Hins vegar finnst mér líka öfugsnúið þegar andstæðingar stækkunar stíga upp í stóra bíla sína og aka á brott spúandi mengun frá sér. Ég skil vel að menn vilji verja umhverfið en þurfum við þá ekki að taka til í eigin bakgarði? Ég hvet bæjarbúa, með eða á móti stækkun að fara út í iðnaðarsvæði í Hellnahrauni. Sjáið umgengnina þar. Er það svoleiðis iðnaðarsvæði sem við viljum fá? Horfum víðar á málið og látum svo stjórnmálamennina gera það sem þeir eru kosnir til.

Guðni Gíslason

 

4. janúar 2007, 1. tbl. 25. árg.

Gleðilegt ár!

Hvað skyldi verða gleðilegt við árið sem nú er gengið í garð? Ein leiðin er að bíða og sjá hvað það beri í skauti sér en erum við þá ekki búin að afsala okkur möguleikanum til að hafa áhrif á líf okkar? Margir hófu árið með kampavínsskál og gleðilátum en lögðust svo til hvílu, þreyttir eftir hátíð jóla og áramóta. Gleði er ekki sjálfgefin og á undanförnum misserum höfum við verið minnt á að fjölmargir eiga í erfiðleikum með að sjá gleðina í lífi sínu. Slíkir erfiðleikar fara ekki í manngreiningarálit og peningaleg gæði hjálpa þar lítið. Ýmislegt hefur verið gert til að koma til móts við þarfir þeirra sem glíma við þunglyndi sem gjarnan leggst á þegar skammdegið hvílir yfir eins og svartnætti. Miklu munar um að við sem einstaklingar, vinir, foreldrar, systkini eða skyldmenni tökum eftir því hvernig næsta manni líður og látum okkur það skipta máli. Það þarf enga sérfræðikunnáttu til að ljá öxl sína og brosið er sólskin sem vermir allt, eins og segir í kvæðinu. Þó má ekki vanmeta þörfina á að aðgangur að sérfræðiaðstoð þarf að vera aðgengilegur, en oft má engan tíma missa.
Við eigum sjálf mikinn þátt í að árið verði gleðiríkt og þó menn takist á um stækkun álvers, val á þingmönnum eða leggi hart að sér í vinnu þarf það ekki að draga úr gleði í lífi okkar. Við getum með hverju því sem við gerum ákveðið hvort við gleðjumst eða aukum á áhyggjur okkar. Tryggvi Þorsteinsson, skátaforingi frá Akureyri sagði í kvæði sínu: „Þú leitar oft gæfunnar langt yfir skammt, þú leitar í fjarlægð, en átt hana samt. Nei – vel skal þess gæta; hún oftast nær er, í umhverfi þínu hið næsta þér.“

Gleðilegt ár!

Guðni Gíslason

 

 

 

online web analytics
site tracking