Aðsendar greinar
Forsíða
|
Hafnfirska bæjarblaðið – frá 1983
29. apríl 2010
Ásgeir Magnús Ólafsson:
Afsakið Haukar
Góður Haukamaður hafði samband við mig vegna greinar minnar í FP þ. 14.04. s.l. og gerði athugasemd við fyrirsögn mína. Ég tek undir þá athugasemd hans að ætla mætti að ég væri að „setja allt Hauka fólk í sama flokk“ þ.e. með neikvæðum hætti. Ég ætlaði mér alls ekki að almennir og góðir Haukamenn tækju skrif mín til sín og tengdi því formanninn Ágúst Sindra Karlsson (ÁSK) við fyrirsögnina. Ef sú er raunin að hinn almenni stuðningsmaður Hauka hafi þótt ég vega ómaklega að sér þá biðst ég innilegrar afsökunar á því. Þetta sýnir að það er mikil ábyrgð sem fylgir því að tjá sig opinberlega sem formaður eins stærsta íþróttafélags landsins og hlýtur að vera krafa félags- og stuðningsmanna að vandað sé til verka og rétt farið með. Ég er alls ekki að beina spjótum mínum að hinum fjölmörgu iðkendum og stuðningsmönnum Hauka heldur fyrst og fremst að svara formanni félagsins sem ég tel að hafi hlaupið á sig.
Það er rétt að nefna að sjálfur er ég góður og gegn stuðningsmaður Hauka í körfubolta og hef verið það frá því að ég flutti í Hafnarfjörð 10 ára gamall og meistari Ingvar Jónsson hóf að kenna mér leikfimi. Það dugar kanski ekki að mati formanns Hauka til að teljast Haukamaður. Ég mæti á Haukaleiki og styð þá í ýmsu. Ég sat t.a.m. á næsta bekk við ÁSK á leik í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfuknattleik nú á dögunum. Ég man enn hvar ég stóð í Íþróttahúsinu Strandgötu árið 2000 þegar Haukar urðu Íslandsmeistarar í handknattleik karla og öskraði ég mig hásan við að styðja Hauka á móti Fram. Ég fór á alla leiki Hauka í úrslitakeppni karla árið 1988 þegar Haukar voru Íslandsmeistarar í körfubolta. Er ég rifja það upp þá er síðasti leikur Hauka í Njarðvík ein sterkasta upplifun mín á íþróttasviðinu sem áhorfandi. Ég sé enn Henning fyrir mér lyfta Íslandsmeistarabikarnum og ég sé enn Pálmar setja niður hvern „þristinn“ á fætur öðrum og ég tala nú ekki um þegar Reynir skoraði sigurkörfuna. Ég fór á Kópavogsvöll árið 2008 þegar 4 fl. karla Hauka í knattspyrnu spilaði úrslitaleik á móti HK. Mér fannst það merkilegur atburður því að þá unnu Haukar sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil utanhúss í 11 manna liðum og fagnaði ég því vel og innilega. Ég mætti á Ásvelli í fyrra og fagnaði með Haukakonum er þær sigruðu KR í oddaleik í úrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik. Ég mætti á Ásvelli s.l. haust og fagnaði því er Haukar sigruðu Selfoss og tryggðu sér sæti í efstu deild karla í knattspyrnu. Síðasti opinberi leikur sem ég spilaði í handknattleik var með Haukum fyrir nokkrum árum í eldri flokki. Ég er fjárhagslegur stuðningsaðili Hauka því að ég hef alltaf tekið vel á móti ungu Hauka fólki sem bankar upp á hjá mér í Áslandinu og keypt af þeim salernispappír, matvæli o.fl. Þetta tel ég upp til að upplýsa um mitt viðhorf til íþrótta og íþróttastarfs.
Það hefur lengi verið draumur minn að Hafnarfjörður eigi meistara í liðakeppni allra helstu íþróttagreina karla og kvenna sem stundaðar eru hér í bæ. Þar er ég t.a.m. að tala um knattspyrnu, handknattleik, körfuknattleik, golf, frjálsar, sund og fimleika. Að sjálfsögðu fagna ég hverjum meistaratitli sem vinnst í einstaklingsgreinum. Það að vera í fremstu röð á öllum þessum vígstöðvum er eitt og sér auðvitað frábær árangur.
ÁSK skrifaði svargrein sem birtist 15.04.10. á www.haukar.is<http://www.haukar.is> sem er vettvangur sem ég hef væntanlega ekki kost á að svara fyrir mig. Sú grein svarar sér reyndar sjálf þar sem hann svara engu og leiðréttir ekki rangindi fyrri greinar sinnar. Mér finnst sú grein bera einkenni þess sem er kominn í þrot með góð rök og er farið með hæðnistón út fyrir þau einföldu mál sem ég tek fyrir. Nokkuð sem tíðkaðist árið 2007 en er ekki liðið í dag. ÁSK fer í að blanda tengdaföður mínum inn í þetta og slær upp ryki hér og þar og þykist ekki vita að það er keppt í liða keppni í frjálsum íþróttum. Ég mun ekki láta hann draga mig niður á þetta plan og blanda ekki hans fjölskyldu, fjármálum eða neinu tengdu hans einkalífi inn í mín skrif. ÁSK hefði mátt að eyða meiri vinnu í heimildaöflun um það sem málið snýst frekar en að grúska í mínum fjölskyldumálum. Þá er hann að reyna að búa til eitthvert FH/Hauka mál úr þessu. Þessi skrif mín tengjast ekkert FH og vildi ég haga skrifum mínum þannig. Ég hlýt að mega tjá mig um málefni er varða mitt helsta áhugamál sem og málefni míns bæjarfélags án þess að telja upp þau íþróttafélög sem ég tengist eða þá hvaða stjórnmálaflokk ég kaus síðast. Ég er klárlega FHingur og mun aldrei neita því. ÁSK vænir mig um það í nýju grein sinni að ég vilji ekki kannast við að vera FHingur, hvernig í ósköpunum fær hann það út??
ÁSK til fróðleiks koma hér nokkur dæmi um hvar ég hef komið við í tengslum við íþróttir: Ég man fyrst eftir mér sem Framara en það var vegna þess að blár var að mínu mati stráka litur. Ég skráði mig 7 ára gamall í Leikni í Breiðholti á stofndegi þess félags og spilað þar knattspyrnu þar til ég tveimur árum síðar flutti í Framhverfi og spilaði með Fram eitt ár í 5 fl. Ber ég enn taugar til þessara félaga. Ég flutti 10 ára gamall í Fjörðinn og spilaði knattspyrnu og handknattleik með FH alla yngri flokka eftir það auk nokkurra meistaraflokksleikja. Ég tók mér nokkurra ára frí frá reglubundnum æfingum en spilaði eftir það með ÍH í handknattleik. Ég stofnaði knattspyrnudeild ÍH. Ég er skráður í Sörla þar sem ég hef keppt í hestaíþróttum. Ég er skráður í Keili þar sem ég hef keppt í golfi. Ég stundaði skákæfingar hjá Skákfélagi Hafnarfjarðar og tefldi fyrir hönd Hafnarfjarðar á skólaskákmóti. Ég hef nýtt mér æfingaaðstöðu Skotfélags Hafnarfjarðar og er skráður í Stangaveiðafélag Hafnarfjarðar. Ég hef þjálfað handknattleik og knattspyrnu hjá FH og ÍH allt frá yngstu iðkenndum upp í meistaraflokk.
ÁSK talar um að sameiginleg gleði hafi truflað mig en það rétta er að það var eitt og annað að trufla gleðina. Ég benti á KR 1996 í grein minni og sýndi ÁSK fram á að hann fór með rangt mál en hann kýs að leiðrétta það ekki. Það mætti benda ÁSK á að það er komið í tísku í þjóðfélaginu að vera auðmjúkur og að biðjast afsökunar verði mönnum á. Ógleði minnist ég aldrei á né staðhæfði að sjálfshól lægi að baki greinar ÁSK í FP eins og hann nefnir í einni setningu á haukar.is en í þeirri næstu talar hann um að ég leggi ekki mat á þetta.
Það eru látalæti í ÁSK að þykjast ekki vita deili á mér, síðast sáumst við á Haukar - Þór í úrslitakeppni 1. d. karla í körfuknattleik 24.03. s.l. Hann notar þetta til að reyna að rýra trúverðugleika minn, koma inn einhverju FH/Hauka máli og beina sjónum að öðru en áður var skrifað um.
Ég blanda golfklúbbi í málið þar sem ég var að benda á að golf er ein stærsta boltaíþrótt hér á landi og er skilgreind sem boltaíþrótt hjá ÍSÍ sem og á alþjóða vísu. Þetta var algert aukaatriði í minni grein og meira sett fram sem ábending en ÁSK lemur hausnum við steininn á haukar.is og spyr "síðan hvenær var golf flokkað sem ein af boltagreinunum".
ÁSK tilgreinir nokkrar staðreyndir og forsendur í svargrein sinni á haukar.is. Ég ætla að leyfa mér að koma hér fram með það sem hann skrifar og bæti við mínum athugasemdum breiðletruðum og undirstrikuðum í sviga fyrir aftan.
„"Staðreynd 1: Haukar eiga lið í efstu deild í öllum stóru boltagreinunum, það er handbolta, fótbolta og körfubolta, bæði í karla og kvennaflokki. Ásgeir FHingur segir að golf sé boltagrein og þar með sé undirritaður sekur um staðreyndavillu. Nú læt ég lesendum eftir að dæma hvort ekki er verið að bera saman epli og appelsínur, síðan hvenær var golf flokkað sem ein af boltagreinunum.“ (Ég tjáði ánægju mína yfir árangri Hauka og er þetta augljós staðreynd. ÁSK nefnir í FP að Haukar séu fyrsta og eina liðið sem hafi afrekað þetta en ég bendi réttilega á að það er ekki rétt. Afhverju leiðréttir hann ekki þau mistök? Vísa í fyrri aths. varðandi golfið. Gryfjan sem ÁSK er fastur í er full að rauðum eplum en hann verður að átta sig á að það eru líka til græn og gul og þau eru mörg hvít að innan með svörtum kjarna).
„Staðreynd 2: Haukar eiga lið í efstu deild í öllum stóru boltagreinunum, það er handbolta, fótbolta og körfubolta, bæði í karla og kvennaflokki. Ásgeir segir að blak sé vinsælla á heimsvísu, en til dæmis handbolti, og því sé um staðreyndavillu að ræða. Hér er Ásgeir FHingur kominn svolítið á undan mér. Það getur vel verið að 22 meistaratitlar Hauka sé árangur á heimsvísu, en ég var nú bara að miða við litla Ísland. Það er hins vegar lesenda að dæma hvort blak sé svo stór boltagrein á Íslandi að hægt sé að tala um staðreyndavillu.“ (Það er staðreynd að handknattleikur er vinsælli en blak á Íslandi, ég er einfaldlega að reyna að víkka sjóndeildarhring ÁSK.)
„Forsenda 1. Haukar eru sigursælasta lið 21 aldarinnar. Ásgeir FHingur segir að undirritaður gefi sé ákveðnar forsendur og gert sé lítið úr öðrum deildum. Hérna er rétt að benda á að íþróttagreinar eru flokkaðar í hópgreinar og einstaklingsgreinar. Í hópgreinum sigra lið en í einstaklingsgreinum sigra einstaklingur. Haukar hafa unnið 22 titla í hópíþróttum, en síðan hafa karatemenn og skákmenn úr Haukum unnið Íslandsmeistaratitla. Ég held að það geri allir greinarmun á þessu. Þegar einstaklingur úr frjálsíþróttadeild FH vinnur Íslandsmeistaratitil þá er sá sigur ekki skráður á FH heldur á nafn viðkomandi.“ (Í grein minni tala ég um 1.deild karla og kvenna í frjálsum, mér finnst ég ekki fara fram á mikið en ÁSK ætti að vita að það er keppt í liðakeppni í frjálsum. Er Ólympíumót í skák ekki liðakeppni?
„Staðreynd 3. Árangur Hauka byggir á frábæru afreksstarfi. Ásgeir FHingur segir að afrekstarf Hauka byggi á fjáraustri en ekki uppeldi. Nú spyr ég; þekkir maðurinn ekki muninn á afreksstarfi og uppeldisstarfi? Uppeldisstarf Hauka er til fyrirmyndar og það hefur í gegnum tíðina skilað mörgum afreksmanninum, til að mynda Ásgeiri Erni, Sigurbergi Sveinssyni, Vigni Svavarssyni, Helenu Sverrisdóttur og Hönnu Stefánsdóttir svo nokkrir landsliðsmenn séu nefndir. Afreksstarfið felst hins vegar í því að byggja á hverju ári upp lið í fremstu röð, þrátt fyrir að 1-3 lykilleikmenn fari frá liðinu. Þetta er gert með blöndu yngri leikmanna frá Haukum og eldri leikmanna. Hér eru 22 titlar sönnun á staðreynd.“
(Ég þekki vel mun á þessu og enda komið að afreks- og uppeldisstarfi eða afreksmiðuðu uppeldisstarfi eins og ég vil kalla það. Hægt er að ala upp íþróttafólk og einnig er hagt að kaupa fullmótað íþróttafólk. T.d. keypti/fékk Breiðablik eina af mínum uppáhalds knattspyrnukonum, Söru Björk Gunnarsdóttur, af Haukum beint inn í meistaraflokkinn)
„Við Ásgeir erum sammála um ágæti Ella Jónasar. Hann er hins vegar þyngdar sinnar virði í gulli í dag og óþarfi að setja hann í brons strax.“ (Ég tímasetti ekki bronsun, mætti afhjúpa stytta á 100 ára afmæli hans ef það truflaði ekki æfingu hjá honum)
„Staðreynd 4. Haukahúsið er hús sigurvegara. Ásgeir telur það kaldhæðni að Haukar hafi spilað án sigurvilja og tapað leik á móti Akureyri í handknattleik karla. Nú er það þannig að ég, sem fjárglöggur maður, hefði ekkert viljað frekar en að mæta FH í 5 leikja útslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn. Þar hefðu komið peningar í kassann. Hins vegar verður að segja að Haukar geta bara spilað mótið á sínum forsendum og engra annarra. Það getur ekki verið mál Hauka að hjálpa öðrum liðum í úrslit. Þjálfari Hauka, Aron Kristjánsson, sem er óumdeilanlega einn besti þjálfari landsins, hefur það ábyrgðarhlutverk að gefa ungum og upprennandi leikmönnum Hauka tækifæri. Í umræddum leik var deildarbikarinn í höfn og því upplagt tækifæri að gefa yngri leikmönnum tækifæri til að spila. Meðal annars í því ljósi að leikurinn var frábær æfing fyrir leik í undanúrslitum 2 flokks, og dugði Haukum til sigurs í þeim leik. Ég held að við Ásgeir FHingur getum verið sammála um að ef FH ætlar sér að vera í fremstu röð í handbolta þá verða þeir að koma sér þangað sjálfir. Fyrir þá sem sakna Hafnarfjarðarslags þá bendi ég á að 16. maí n.k. munu Haukar og FH keppa í Íslandsmótinu í knattspyrnu og auðvitað eiga allir að fara á völlinn og styðja sitt lið.“ (Breytir ekki því að mér finnst þetta kaldhæðið. Tók fram í grein minni að léleg frammistaða FH var þeirra þröskuldur)
„Staðreynd 5. Varðandi framhald greinar sinnar þá hefði Ásgeir FHingur átt að hætta greinarskrifum eftir orðin "Óumdeilanlegur er góður árangur Hauka á liðnum árum." Hefði hann gert það hefði hann lokið máli sínu, sér og sínum til sóma. Hins vegar lýkur hann greininni með einkennilegum og rætnum yfirlýsingum sem er tilefni sérstakrar greinar, sem undirritaður mun óska eftir að fá birta í næsta tölublaði Fjarðarpóstsins. Þangað til bendi ég lesendum á ágæta grein Guðbjargar Norðfjörð sem birtist í Fjarðarpóstinum og störf undirritaðs á vettvangi ÍBH á undanförnum árum.“
(Ég skrifaði það sem mér lá á hjarta. Það er munur á yfirlýsingum og spurningum. Hefði ég átt að hætta af því að framhaldið kom ÁSK illa? Ef ÁSK er að vísa í grein Guðbjargar frá 14.01.10 þá er sú grein meira um að Haukar sé stærsta íþróttafélag Hafnarfjarðar en útskýring á því sem málið snérist um. Ég beindi máli mínu einnig að eftirliti Hafnarfjarðarbæjar sem þarf að vera í lagi gangvart öllum íþróttafélögum. Að mínu mati er fjármunum til íþróttastarfs vel varið en það þarf að skilgreina vel hvernig þeim er ráðstafað og halda vel utan um öll mál því að þetta eru jú skattpeningar)
Hinn góði Hauka maður er ég minntist á í upphafi þessarar greinar velti því fyrir sér hvort það lægi einhver öfund í þessu hjá mér. Henni er ekki fyrir að fara hjá mér enda mæri ég árangur Hauka. Börnin mín hafa margoft fengið frá mér þessa setningu þegar þau segjast öfunda þennan og hinn: „Þú skalt ekki öfunda neinn heldur samgleðjast.“ Annað spakmæli sem ég notast gjarnan við: „Sá sem ekki lýgur þarf aldrei að muna neitt.“ Ég hef oft minnt mig á þetta, því að á minni 44 ára lífsleið hef ég langt frá því verið óbrigðull en ég tel mig hafa þroskast í rétta átt.
Með heiðarlegri íþróttakveðju,
Ásgeir M. Ólafsson
.
|